is / en / dk

Félag grunnskólakennara er fjölmennasta aðildarfélag Kennarasambands Íslands með um 4.600 félagsmenn. Með stofnun félagsins í nóvember 1999 sameinuðust allir grunnskólakennarar landsins í fyrsta sinn í einu félagi. Hlutverk félagsins er að vera málsvari þeirra félagsmanna Kennarasambands Íslands sem sinna kennslu eða ráðgjöf í grunnskólum. 

 

STARFSMENN:


Þorgerður Laufey Diðriksdóttir
Formaður Félags grunnskólakennara

thorgerdur@ki.is


Guðrún Erlingsdóttir
Ráðgjafi hjá Félagi grunnskólakennara

gudrun@ki.is

   

 

 

NAFN
1. gr.

Félagið heitir Félag grunnskólakennara (FG) og á aðild að Kennarasambandi Íslands (KÍ).

Félagssvæðið er allt landið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

 

HLUTVERK
2. gr.

Hlutverk félagsins er að:

 • Fara með kjaraleg og fagleg málefni viðkomandi félagsmanna sem starfa við kennslu, stjórnun eða ráðgjöf í skólum eða vinna við stofnanir og fyrirtæki sem tengjast kennslu- og fræðslumálum, sbr. 3. gr.,
 • gera kjarasamning fyrir félagsmenn sína,
 • halda fundi og námskeið fyrir trúnaðarmenn,
 • skipa í stjórnir sjóða og nefndir KÍ í samræmi við lög KÍ,
 • sjá um kjör fulltrúa á þing KÍ,
 • efla faglega umræðu meðal félagsmanna sinna,
 • vinna að því að enginn starfi við kennslu í grunnskóla án kennsluréttinda.

 

AÐILD
3. gr.

Rétt til aðildar að FG eiga allir félagsmenn KÍ sem starfa við kennslu eða ráðgjöf í grunnskólum eða vinna við stofnanir og fyrirtæki sem sinna eða tengjast kennslu og fræðslumálum að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

 1. KÍ semji fyrir viðkomandi skv. lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur eða samkomulagi við viðkomandi launagreiðanda,
 2. Starfshlutfall þeirra sé að lágmarki 25%.

Félagsaðild fellur niður ef félagsmaður hættir í því starfi sem veitti honum aðild eða greiðslur félagsgjalda falla niður.

 

SVÆÐAFÉLÖG
4. gr.

Svæðafélög eru grunneiningar (FG) og starfa á eftirtöldum stöðum og svæðum:

 • Reykjavík.
 • Vesturlandi.
 • Vestfjörðum.
 • Norðurlandi vestra.
 • Norðurlandi eystra.
 • Austurlandi.
 • Suðurlandi.
 • Vestmannaeyjum.
 • Reykjanesi sunnan Kópavogs.
 • Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi.

Hlutverk svæðafélaga er að vera málsvari félagsmanna hvert á sínu svæði og fara með hagsmuni þeirra í samskiptum við skólana og vinnuveitendur og koma að gerð vinnustaðasamninga í samráði við stjórn FG. Einnig að halda trúnaðarmannanámskeið, félagsfundi, haustþing og að annast val fulltrúa á þing KÍ í samráði við stjórn FG.

Hvert svæðafélag er tengiliður smærri eininga sem starfa vilja í sérstökum félögum innan svæðisins t.d. m.t.t. launagreiðanda. Svæðafélög setja sér lög í samræmi við lög FG og KÍ.

Stjórn svæðafélaga skal senda samþykkta skýrslu stjórnar og reikninga svæðafélagsins eftir hvern aðalfund til stjórnar FG.

Stjórn FG og svæðaformenn ákveða sameiginlega úthlutunarreglur fjár til svæðafélaga á samráðsfundum, sbr. 12. gr.

Svæðafélögum er heimilt að sameinast enda sé það gert í samráði við stjórn FG. Sameining telst lögleg ef hún hefur verið samþykkt á löglega boðuðum aðalfundum þeirra félaga sem í hlut eiga.

Félagsmenn í einstökum sveitarfélögum sem hafa sama launagreiðanda geta myndað formlegt eða óformlegt kennarafélag.

 

AÐALFUNDUR
5. gr.

Aðalfundur FG skal haldinn fjórða hvert ár innan sex mánaða fyrir eða eftir þing KÍ. Aðalfundur hefur æðsta vald í málum félagsins, sbr. þó 18. gr. Á aðalfundi eiga sæti með atkvæðisrétti:

 • Nýkjörin og fráfarandi stjórn,
 • nýkjörin og fráfarandi samninganefnd,
 • nýkjörin og fráfarandi stjórn skólamálanefndar,
 • nýkjörin og fráfarandi kjörnefnd,
 • formenn svæðafélaga,
 • einn fulltrúi fyrir fyrstu 35 félagsmenn hvers svæðafélags en einn fulltrúi fyrir hverja 70 félagsmenn eftir það eða brot úr þeirri tölu sem umfram kann að vera.

Kjörtímabil þeirra er milli reglulegra aðalfunda félagsins. Stjórnir svæðafélaga velja aðalfundarfulltrúa sinna í samræmi við lög FG/KÍ og ber að tilkynna nöfn þeirra til stjórnar félagsins minnst átta vikum fyrir aðalfund. Einnig skal tilkynna jafn marga varamenn. Til aðalfundar skal boðað með almennu fundarboði með a.m.k. 16 vikna fyrirvara. Aðalfundarfulltrúar skulu boðaðir sérstaklega með a.m.k. sex vikna fyrirvara. Tillögur til umfjöllunar á aðalfundi þurfa að berast stjórn félagsins eigi síðar en sex vikum fyrir aðalfund, sbr. þó 20. gr. Aðalfundargögn skulu send út / birt með minnst tveggja vikna fyrirvara.

 

DAGSKRÁ AÐALFUNDAR
6. gr.

 1. Skýrsla stjórnar.
 2. Endurskoðaðir ársreikningar félagsins lagðir fram.
 3. Nefndastörf og tillögur, mál og nefndaálit sem borist hafa tekin til umræðu.
 4. Lagabreytingar.
 5. Fjárhagsáætlun.
 6. Kjöri formanns, stjórnar og nefnda lýst.
 7. Kosning í aðrar trúnaðarstöður sem aðalfundur ákveður.
 8. Önnur mál.
 9. Stjórnarskipti.

 

VAL FULLTRÚA Á AÐALFUND FG OG ÞING KÍ
7. gr.

Svæðafélög í samráði við stjórn félagsins, sbr. 4. grein eiga fjögurra kosta völ við val fulltrúa á aðalfund FG og þing KÍ:

 • Á fundi (kjörfundi) sem boðaður er með minnst tíu daga fyrirvara. Heimilt er að hafa fleiri en einn kjörfund eða kjördeildir í félaginu.
 • Í skriflegri kosningu og fá félagsmenn þá senda kjörseðla. Þegar þeir hafa kosið senda þeir kjörseðilinn til stjórnar/kjörstjórnar félagsins eða afhenda trúnaðarmanni innan tilskilins tíma.
 • Samkvæmt tillögu stjórnar svæðafélags.
 • Rafræna kosningu samkvæmt reglum sem stjórn FG setur.

 

ÁRSFUNDUR
8. gr.

Þau ár sem ekki er haldinn aðalfundur skal stjórn félagsins boða til ársfundar þar sem m.a. er fjallað um starfsemi félagsins og starfsáætlun auk þess sem reikningar þess eru lagðir fram. Rétt til setu á ársfundi hafa stjórn og varastjórn, skólamála- og samninganefnd, formenn svæðafélaga og annarra fastanefnda. Stjórn félagsins hefur umboð til að kalla til fleiri fulltrúa ef þurfa þykir.

 

ALMENNIR FÉLAGSFUNDIR
9. gr.

Stjórn FG getur boðað til almennra félagsfunda. Skylt er að boða til almenns fundar ef 10% félagsmanna eða fleiri krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni.

 

STJÓRN
10. gr.

Stjórn félagsins skipa sjö menn og fimm til vara, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnendur. Kjörtímabil stjórnar er fjögur ár. Formaður er kosinn sérstaklega í rafrænni allsherjaratkvæðagreiðslu og skal hún fara fram eigi síðar en 16 vikum fyrir aðalfund. Ef einn er í framboði til formanns telst hann sjálfkjörinn. Aðrir stjórnarmenn og varamenn eru kosnir saman í sérstakri rafrænni atkvæðagreiðslu og skal hún fara fram eigi síðar en 12 vikum fyrir aðalfund. Þeir sem flest atkvæði hljóta verða aðalmenn, og þeir sem næstir koma í atkvæðamagni verða varamenn í þeirri röð sem atkvæðafjöldi þeirra segir til um. Stjórn skiptir með sér verkum. Stjórnin heldur stjórnarfundi svo oft sem þurfa þykir.

 

HLUTVERK STJÓRNAR
11. gr.

Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda. Formaður ber ábyrgð á allri starfsemi félagsins og hefur yfirumsjón með rekstri þess. Varaformaður er staðgengill formanns.

Formaður situr í stjórn KÍ og fer með atkvæði félagsins í samræmi við lög KÍ.

 

SAMRÁÐSFUNDUR
12. gr.

Stjórn félagsins skal boða til fundar með formönnum svæðafélaga a.m.k. tvisvar á ári.

Samráðsfundur er stjórn til ráðuneytis um stjórnun félagsins. Ef þrír eða fleiri svæðaformenn óska eftir samráðsfundi, ber stjórn að boða til hans innan fjórtán daga.

 

TILNEFNING Í RÁÐ OG NEFNDIR Á VEGUM KÍ OG FG
13. gr.

Á samráðsfundum stjórnar FG og svæðaformanna FG skal velja fulltrúa FG sem stjórn FG skipar að undangengnu vali í eftirfarandi ráð, nefndir og sjóði á vegum FG og KÍ í samræmi við lög KÍ og vinnureglur þar um:

 • Fræðslu- og kynningarsjóð FG.
 • Vonarsjóð FG og SÍ.
 • Sjúkrasjóð KÍ.
 • Orlofssjóð KÍ.
 • Vinnudeilusjóð KÍ.
 • Fastanefndir á vegum KÍ.
 • Skoðunarmenn reikninga.
 • Aðrar trúnaðarstöður á vegum FG/KÍ.

 

UM GJÖRÐARBÆKUR
14. gr.

Ritari félagsins heldur gjörðarbækur og fundargerðir skulu samþykktar á stjórnarfundi og undirritaðar af ritara og formanni.

 

FJÁRREIÐUR OG BÓKHALD
15. gr.

Þing KÍ ákveður skiptingu félagsgjalda milli aðildarfélaga. Stjórn FG ber ábyrgð á fjárreiðum og eignum FG og skal sjá til þess að fullnægjandi bókhald, sbr. lög um bókhald nr. 145/1994, sé til staðar.

Gjaldkeri félagsins leggur fram endurskoðaða reikninga á aðalfundi. Auk þess skal hann gefa stjórn og ársfundi yfirlit yfir stöðu félagsins minnst einu sinni á ári.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

 

SAMNINGANEFND
16. gr.

Í rafrænni allsherjaratkvæðagreiðslu skal kjósa fimm fulltrúa og fimm til vara, sem ásamt stjórn félagsins, mynda samninganefnd og fer hún með gerð kjarasamninga fyrir félagsmenn, sbr. lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og skv. Lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur eða eftir samkomulagi við viðkomandi launagreiðanda. Kosningin skal fara fram eigi síðar en 12 vikum fyrir aðalfund. Þeir sem flest atkvæði hljóta verða aðalmenn, og þeir sem næstir koma í atkvæðamagni varamenn í þeirri röð sem atkvæðafjöldi þeirra segir til um.

Formaður FG er formaður samninganefndar, að öðru leyti skiptir samninganefndin með sér verkum.
Hlutverk samninganefndar er:

 • að ganga frá markmiðum og áherslum í samningagerð og endanlegri kröfugerð,
 • að annast gerð kjarasamninga,
 • að taka ákvörðun um hvort efna skuli til atkvæðagreiðslu um verkfall,
 • að taka ákvörðun um hvort undirrita eigi kjarasamning með fyrirvara um samþykki félagsmanna og um hvort fresta skuli verkfalli.

Samninganefnd hefur samráð við svæðaformenn og fagfélög félagsmanna við undirbúning samningsmarkmiða og kallar á fulltrúa þeirra til ráðgjafar við samningsgerðina.

Formaður félagsins í umboði KÍ ber ábyrgð á undirritun kjarasamninga fyrir félagsmenn og gerð og undirritun viðræðuáætlana vegna endurnýjunar þeirra.

Formaður og/eða varaformaður KÍ starfa með samninganefndinni eftir nánari ákvörðun stjórnar félagsins hverju sinni.

 

SKÓLAMÁLANEFND
17. gr.

Starfandi skal vera sjö manna skólamálanefnd sem sinnir faglegum málefnum fyrir félagsmenn. Í rafrænni allsherjaratkvæðagreiðslu skal kjósa sex fulltrúa og sex til vara. Kosningin skal fara fram eigi síðar en 12 vikum fyrir aðalfund. Þeir sem flest atkvæði hljóta verða aðalmenn og þeir sem næstir koma í atkvæðamagni varamenn í þeirri röð sem atkvæðafjöldi þeirra segir til um. Skólamálanefndin skiptir með sér verkum. Stjórn FG skipar formann skólamálanefndar úr sínum röðum.

Hlutverk skólamálanefndar er:

 • að fjalla um fagleg málefni og skólamál í samráði við stjórn FG og skólamálaráð KÍ,
 • að vinna að eflingu kennaramenntunar og símenntunar/starfsþróunar félagsmanna,
 • að annast tengsl við kennslu- og faggreinafélög.

 

KJÖRNEFND
18. gr.

Kjósa skal þriggja manna kjörnefnd og þrjá til vara í rafrænni allsherjaratkvæðagreiðslu. Kosningin skal fara fram eigi síðar en 12 vikum fyrir aðalfund. Þeir sem flest atkvæði hljóta verða aðalmenn og þeir sem næstir koma í atkvæðamagni varamenn í þeirri röð sem atkvæðafjöldi þeirra segir til um.

Hlutverk kjörnefndar er að auglýsa eftir frambjóðendum til trúnaðarstarfa fyrir félagið. Nefndin skal tryggja framboð til formanns og til annarra trúnaðarstarfa sem kjósa á til. Áður en nefndin leggur fram tillögur um frambjóðendur skal liggja fyrir samþykki viðkomandi einstaklinga.

Kosningar til trúnaðarstarfa eru á þann hátt að þeir sem flest atkvæði hljóta verða aðalmenn og þeir sem næstir koma í atkvæðamagni varamenn í þeirri röð sem atkvæðafjöldi þeirra segir til um. Kosningar fara fram í tvennu lagi, annars vegar formannskjör eigi síðar en 16 vikum fyrir aðalfund og hins vegar til annarra trúnaðarstarfa sem kjósa þarf til eigi síðar en 12 vikum fyrir aðalfund.

Kjörnefnd annast m.a. rafrænar kosningar, kynningar frambjóðenda og setur sér nánari starfsreglur í samráði við stjórn félagsins sem þarf að samþykkja þær.

 

ALLSHERJARATKVÆÐAGREIÐSLA UM KJARASAMNINGA, BOÐUN VERKFALLS O.FL.
19. gr.

Um kjarasamninga og boðun verkfalls skal fara fram leynileg, skrifleg allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna, skv. lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Kjörskrá skal miða við félagatal í þeim mánuði sem atkvæðagreiðsla fer fram. Stjórn félagsins getur efnt til allsherjaratkvæðagreiðslu um önnur mikilvæg málefni sem eigi falla sérstaklega undir aðalfund.

 

LAGABREYTINGAR
20. gr.

Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins enda hafi breytingarnar verið kynntar í fundarboði. Tillögur um lagabreytingar þurfa að hafa borist stjórn átta vikum fyrir aðalfund og skulu þær kynntar aðalfundarfulltrúum eigi síðar en þrem vikum fyrir aðalfund. Til þess að breyting nái fram að ganga verður hún að hljóta samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða. Breytingar á lögum koma fyrst til framkvæmda er stjórn KÍ hefur staðfest þær.

 

GILDISTAKA
21. gr.

Lög þessi öðlast gildi þegar stjórn Kennarasambands Íslands hefur staðfest þau.

 

Þannig samþykkt á 7. aðalfundi Félags grunnskólakennara 17.-18. maí 2018.

 

 

 

 
 
 

Tengt efni