is / en / dk

Félag leikskólakennara er annað fjölmennasta aðildarfélag Kennarasambands Íslands með um 2.200 félagsmenn. Félagið var upphaflega stofnað 6. febrúar 1950.

Hlutverk Félags leikskólakennara er að vera málsvari þeirra félagsmanna Kennarasambands Íslands sem sinna kennslu eða ráðgjöf í leikskólum.

 

Starfsmaður:


Haraldur Freyr Gíslason
Formaður Félags leikskólakennara

haraldur@ki.is


Þröstur Brynjarsson
Þjónustufulltrúi á félagssviði

throstur@ki.is

   

 

NAFN
1. gr.

Félagið heitir Félag leikskólakennara, skammstafað FL og á aðild að Kennarasambandi Íslands, skammstafað KÍ. Félagssvæðið er allt landið.

Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

 

HLUTVERK
2. gr.

Hlutverk félagsins er að:

 • fara með málefni félagsmanna og vera málsvari þeirra,
 • gera kjarasamninga fyrir félagið og standa vörð um áunnin réttindi,
 • halda fundi og námskeið fyrir trúnaðarmenn,
 • sjá um kjör fulltrúa á þing KÍ,
 • efla stéttarvitund leikskólakennara og faglega umræðu,
 • efla og standa vörð um menntun leikskólakennara,
 • eiga samstarf við faghópa, félög annarra kennara og stjórnenda og stofnanir og félög sem láta sig varða málefni barna,
 • stuðla að alhliða framförum í uppeldis- og menntamálum barna.

 

AÐILD
3. gr.

Aðild að félaginu geta átt:

 • leikskólakennarar,
 • grunn- og framhaldsskólakennarar,
 • þeir sem lokið hafa þriggja ára háskólanámi með bachelor gráðu,
 • þeir sem lokið hafa leikskólafræðum til diplómu, sem starfa við uppeldi, menntun eða ráðgjöf í leikskólum eða stofnunum og fyrirtækjum sem tengjast kennslu-, uppeldis- og fræðslumálum og eru félagsmenn í KÍ og FL semur fyrir, skv. lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur eða samkomulagi við viðkomandi launagreiðanda, enda sé starfshlutfall þeirra að lágmarki 25%.

Rétt til félagsaðildar skal staðfesta við ráðningu með viðeigandi gögnum um starfsréttindi.

 

SVÆÐADEILDIR
4. gr.

Félagið skiptist í 9 svæðadeildir sem hér segir:

 • 1. deild - Reykjavík.
 • 2. deild - Kópavogur, Garðabær, Mosfellsbær, Seltjarnarnes, Hafnarfjörður, Álftanes og Kjós.
 • 3. deild - Vesturland og A-Barðastrandarsýsla.
 • 4. deild - Vestfirðir, utan A-Barðastrandarsýslu og Strandabyggðar.
 • 5. deild - Norðurland vestra að Fjallabyggð ásamt Strandabyggð.
 • 6. deild - Norðurland eystra, frá Fjallabyggð að Bakkafirði.
 • 7. deild - Austurland frá Bakkafirði til Skaftárshrepps.
 • 8. deild - Suðurland og Vestmannaeyjar.
 • 9. deild - Suðurnes.

Stjórn FL getur heimilað félagsmönnum í þeim leikskólum sem starfa á mörkum svæðadeilda að velja aðild að svæðadeild. Slíkar breytingar skulu eiga sér stað um áramót og stjórnum viðkomandi deilda tilkynnt um þær.

Hlutverk svæðadeilda er að vera málsvari félagsmanna á sínu svæði og sjá til þess að haldin séu trúnaðarmannanámskeið, deildarfundir og annað í samráði við stjórn FL. Ennfremur að annast kjör fulltrúa á þing KÍ í samráði við stjórn FL.

Aðalfundur setur svæðadeildum starfsreglur í samræmi við lög FL og Kennarasambands Íslands.

Hver deild skal kjósa 3 í stjórn og 2 til vara, nema í 1. og 2. deild, skal kjósa 5 í stjórn og 3 til vara. Stjórn deildar skiptir með sér verkum og kýs formann sem skal vera stjórnandi og forsvarsmaður félagsins í sinni deild og tengiliður við stjórn félagsins.

Stjórn svæðadeildar skal hafa samvinnu við stjórn svæðadeildar FSL á viðkomandi svæði. Halda skal að lágmarki einn sameinginlegan fund á ári.

 

AÐALFUNDUR
5. gr.

Aðalfundur félagsins skal haldinn fjórða hvert ár. Ekki skulu líða meira en 6 mánuðir milli aðalfundar félags og þings KÍ. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins, sbr. þó 20. gr.

Á aðalfundi eiga sæti með atkvæðisrétt stjórn, samninganefnd, fulltrúar félagsins í skólamálanefnd og í stjórn KÍ, formenn fastanefnda, formenn svæðadeilda og einn fulltrúi fyrir hverja 50 félagsmenn í hverri svæðadeild eða brot úr þeirri tölu. Stjórnir svæðadeilda skulu annast kosningu aðalfundarfulltrúa og er kjörtímabil þeirra á milli reglulegra aðalfunda félagsins. Nöfn aðalfundarfulltrúa skulu berast stjórn félagsins sex vikum fyrir aðalfund. Aðalfundur félagsins er opinn öllum félagsmönnum til áheyrnar.

Til aðalfundar skal boða með a.m.k. 5 vikna fyrirvara. Tillögur til umfjöllunar á aðalfundi skulu berast stjórn, eigi síðar en 4 vikum fyrir aðalfund. Aðalfundargögn skulu birt með minnst 3 vikna fyrirvara.

Formanni eða stjórn er heimilt að boða til aukaaðalfundar um tiltekin efni.

Skylt er að boða til aukaaðalfundar, svo fljótt sem auðið er, ef þriðjungur félagsmanna eða fleiri krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni.

Boða skal til aukaaðalfundar með a.m.k. 4 vikna fyrirvara þar sem tilefni fundarins kemur fram. Fundargögn skulu send út með a.m.k. þriggja vikna fyrirvara. Aukaaðalfundur fjallar um tiltekin afmörkuð mál og hafa ákvarðanir aukaaðalfunda um slík málefni sama gildi og ákvarðanir reglulegra aðalfunda.

Stjórn félagsins skipuleggur og ber ábyrgð á aðalfundi og aukaaðalfundi.

 

DAGSKRÁ AÐALFUNDAR
6. gr.

Á dagskrá aðalfundar skulu a.m.k. vera eftirtaldir dagskrárliðir:

 1. Setning.
 2. Nafnakall fulltrúa.
 3. Kosning starfsmanna og nefnda fundarins.
 4. Skýrsla stjórnar.
 5. Ársreikningar félagsins.
 6. Mál lögð fram.
 7. Nefndarstörf.
 8. Ályktanir, og tillögur, afgreiðsla mála.
 9. Lagabreytingar.
 10. Fjárhagsáætlun.
 11. Lýst stjórnarkjöri.
 12. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
 13. Kosning fulltrúa í samninganefnd.
 14. Kosning fulltrúa í skólamálanefnd.
 15. Kosning framboðsnefndar og kjörstjórnar.
 16. Önnur mál.

Aðalfundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað og 2/3 hlutar fulltrúa mætir. Einfaldur meirihluti aðalfundar ræður úrslitum mála, sbr. þó 22. gr.

Fundargerð aðalfundar skal send fulltrúum eigi síðar en fjórum vikum frá lokum fundarins.

 

KOSNING FULLTRÚA Á ÞING KENNARASAMBAND ÍSLANDS
7. gr.

Stjórn félagsins á þriggja kosta völ við kjör fulltrúa á þing KÍ:

 1. Á fundi (kjörfundi) sem boðaður er með minnst 10 daga fyrirvara. Heimilt er að hafa fleiri en einn kjörfund eða kjördeildir í félaginu.
 2. Í bréflegri eða rafrænni kosningu.
 3. Samkvæmt tillögu félagsstjórnar eða einstakra félagsmanna.

Séu jafnmargir í kjöri og kjósa á er sjálfkjörið.

 

ÁRSFUNDUR
8. gr.

Þau ár sem ekki er aðalfundur skal stjórn félagsins boða til ársfundar, þar sem m.a. er fjallað um starfsemi félagsins og starfsáætlun auk þess sem reikningar þess eru lagðir fram til kynningar. Ársfund skal boða með a.m.k. 4 vikna fyrirvara.

Rétt til setu á ársfundi hafa stjórn og varastjórn, formenn svæðadeilda, fulltrúar félagsins í skólamálanefnd og samninganefnd. Stjórn félagsins hefur umboð til að kalla til fleiri fulltrúa ef þurfa þykir.

 

ALMENNIR FÉLAGSFUNDIR
9. gr.

Stjórn félagsins getur boðað til almennra félagsfunda. Skylt er að boða til almenns fundar ef hið minnsta 10% félagsmanna krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni.

 

STJÓRN
10. gr.

Stjórn félagsins skipa formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi og 4 eru til vara. Kjörtímabil stjórnar er milli aðalfunda.

Formaður skal kjörinn sérstaklega.

Einnig skal kjósa fjóra stjórnarmenn og fjóra til vara í allsherjar atkvæðagreiðslu eigi síðar en sex vikum fyrir aðalfund. Atkvæðamagn ræður því hverjir hljóta kjör sem aðalmenn og hverjir verða varamenn. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi nýrrar stjórnar. Ef ekki eru fleiri en þrír sem bjóða sig fram til stjórnar teljast þeir sjálfkjörnir og ber framboðsnefnd að stilla upp varamönnum.

Formaður boðar stjórnarfundi eftir þörfum og stýrir fundi. Stjórnarfund skal boða ef tveir stjórnarmenn óska og skal hann haldinn innan viku. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meirihluti stjórnar sækir fund.

Stjórn skal eiga samvinnu við stjórn FSL. Halda skal sameiginlega stjórnarfundi félaganna eigi sjaldnar en tvisvar sinnum á ári.

 

HLUTVERK STJÓRNAR
11. gr.

Stjórn fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda. Stjórn ber ábyrgð á starfsemi félagsins og hefur eftirlit með því að lögum þess, samþykktum og samningum sé framfylgt og er í fyrirsvari fyrir það út á við. Formaður hefur yfirumsjón með rekstri félagsins. Varaformaður er staðgengill hans.

Stjórninni er heimilt að ráða starfsfólk til að annast störf fyrir félagið og skipa nefndir til að vinna að ákveðnum verkefnum.

 

SAMRÁÐSFUNDUR
12. gr.

Stjórn félagsins skal boða til fundar með formönnum svæðadeilda a.m.k. tvisvar á ári. Samráðsfundur er stjórn til ráðuneytis um starfsemi félagsins, m.a. við undirbúning aðalfunda og ársfunda. Stjórn er heimilt að boða aðra til fundarins ef þurfa þykir.

 

KJÖRSTJÓRN
13. gr.

Kjörstjórn félagsins skal skipuð 3 mönnum og 3 til vara kjörnum á aðalfundi. Hún stýrir allsherjaratkvæðagreiðslu um stjórnarkjör og öðrum kosningum sem ekki heyra undir kjörstjórn KÍ eða kjörstjórnir svæðadeilda. Aðalfundur setur reglur um störf kjörstjórnar og framkvæmd atkvæðagreiðslu.

 

FUNDARGERÐIR
14. gr.

Ritari félagsins ritar fundargerð sem samþykkt er á stjórnarfundi. Dagskrá stjórnarfunda og fundargerð að undanskildu því sem skráð er í trúnaðarbók skal birt á heimasíðu félagsins.

 

FJÁRREIÐUR OG BÓKHALD
15. gr.

Þing KÍ ákvarðar skiptingu félagsgjalda. Stjórn félagsins hefur umsjón með fjárreiðum þess og bókfærslu og leggur fram endurskoðaða reikninga á aðalfundi. Auk þess skal stjórn leggja fram á ársfundi yfirlit yfir stöðu félagsins.

 

KOSNING TIL STJÓRNAR KENNARASAMBANDS ÍSLANDS
16. gr.

Formaður félagsins situr í stjórn KÍ en varaformaður er staðgengill hans í forföllum.

 

SAMNINGANEFND
17. gr.

Á aðalfundi félagsins skal kjósa 5 fulltrúa og 5 til vara, sem ásamt stjórn félagsins mynda samninganefnd og fer hún með gerð kjarasamnings fyrir félagsmenn. Atkvæðamagn ræður því hverjir hljóta kjör sem aðalmenn og hverjir verða varamenn. Formaður FL er formaður samninganefndar og varaformaður staðgengill hans. Að öðru leyti skiptir samninganefnd með sér verkum. Stjórn félagsins setur samninganefnd starfsreglur.

Hlutverk samninganefndar er m.a. að:

 • ganga frá markmiðum og áherslum í samningsgerð,
 • annast gerð kjarasamninga,
 • ákveða hvort efna skuli til atkvæðagreiðslu um verkfall,
 • ákveða hvort undirrita eigi kjarasamning með fyrirvara um samþykki félagsmanna og um hvort fresta skuli verkfalli,
 • annast kynningu á kjarasamningi.

 

SKÓLAMÁLANEFND
18. gr.

Aðalfundur kýs 4 aðalmenn og 4 varamenn í skólamálanefnd. Atkvæðamagn ræður því hverjir hljóta kjör sem aðalmenn og hverjir verða varamenn. Stjórn FL skipar einn fulltrúa í Skólamálanefnd sem jafnframt er formaður nefndarinnar.

Hlutverk skólamálanefndar er m.a. að:

 • fjalla um leikskólamál og önnur fagleg málefni, í samráði við stjórn FL og skólamálaráð KÍ,
 • vinna að eflingu símenntunar/starfsþróunar félagsmanna,
 • vera leiðandi í mótun og endurskoðun á skólastefnu,
 • annast tengsl við faghópa og skólamálanefndir annarra félaga.

Stjórn FL setur skólamálanefnd starfsreglur.

 

VÍSINDASJÓÐUR FL OG FSL
19. gr.

Markmið Vísindasjóðs FL og FSL er að trygga fjárhagslegan grundvöll símenntunar / starfsþróunar leikskólakennara í tengslum við störf þeirra. Vísindasjóður leikskólakennara starfar í þremur deildum eftir samþykkt sem sjóðsstjórn setur.

Stjórn FL í samvinnu við FSL og KÍ ber ábyrgð á að gera þjónustusamning við sjóðinn vegna umsýslu.

Stjórn FL skipar einn fulltrúa til að sitja í stjórn Vísindasjóðs FL og FSL.

 

FRAMBOÐSNEFND
20 gr.

Á aðalfundi félagsins skal kjósa 3 manna framboðsnefnd og 3 til vara. Atkvæðamagn ræður því hverjir hljóta kjör sem aðalmenn og hverjir verða varamenn. Hlutverk nefndarinnar er að leggja fram tillögur um frambjóðendur til stjórnar, fulltrúa í stjórn Kennarasambands Íslands, skoðunarmenn reikninga, fulltrúa í samninganefnd, skólamálanefnd og fulltrúa til annarra trúnaðarstarfa sem aðalfundur kýs.

Við framboð á vegum félagsins skal tryggja jafnræði. Framboðsnefnd starfar eftir reglum sem aðalfundur setur.

 

ALLSHERJARATKVÆÐAGREIÐSLA UM KJARASAMNINGA, BOÐUN VERKFALLS O.FL.
21. gr.

Um kjarasamninga og boðun verkfalls skal fara fram leynileg, allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna skv. lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum nr. 38/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur eftir því sem við á, sbr. og 27. gr. laga Kennarasambands Íslands. Kjörskrá skal miðuð við gildandi félagatal. Þeir sem sannanlega greiða félagsgjald en eru ekki komnir á félagaskrá eiga rétt á að taka þátt í allsherjaratkvæðagreiðslu hverju sinni.

Stjórn félagsins getur efnt til allsherjaratkvæðagreiðslu um önnur mikilvæg málefni sem eigi falla sérstaklega undir aðalfund.

Einnig er skylt að hafa allsherjaratkvæðagreiðslu ef a.m.k. 1/10 hluti félagsmanna æskir þess.

 

LAGABREYTINGAR
22. gr.

Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins enda hafi breytingarnar verið kynntar í fundarboði. Tillögur til lagabreytinga þurfa að hafa borist stjórn 4 vikum fyrir aðalfund og skulu þær kynntar aðalfundarfulltrúum eigi síðar en 3 vikum fyrir aðalfund.Til þess að breyting nái fram að ganga verður hún að hljóta samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða. Breytingar á lögunum öðlast gildi þegar stjórn KÍ hefur staðfest þær.

 

FÉLAGSSLIT
23. gr.

Nú kemur fram tillaga um það að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð sem tillaga um lagabreytingar, sbr. 22. gr.

 

GILDISTAKA

Lög þessi öðlast gildi þegar stjórn Kennarasambands Íslands hefur staðfest þau.

 

Þannig samþykkt á sjöunda aðalfundi Félags leikskólakennara 15. maí 2018

 

 

 

Tengt efni