is / en / dk

Félag stjórnenda leikskóla var stofnað þann 30. apríl 2010 og er í dag eitt af sjö aðildarfélögum Kennarasambands Íslands. Félagsmenn eru tæplega 500.

Hlutverk þess er að vinna að bættum kjörum félagsmanna sinna, efla og standa vörð um menntun leikskólakennara og stjórnenda í leikskólum. Ennfremur að stuðla að alhliða framförum í uppeldis- og menntamálum barna, láta sig öll málefni barna varða, gæta hagsmuna leikskóla í hvívetna og að kynna sem best starf leikskóla meðal þjóðarinnar.

 

Starfsmaður:


Sigurður Sigurjónsson
Formaður Félags stjórnenda leikskóla
Netfang: sigurdur@ki.is

   

 

1. gr. NAFN
Félagið heitir Félag stjórnenda leikskóla, skammstafað FSL og á aðild að Kennarasambandi Íslands. Félagssvæðið er allt landið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
 

2. gr. HLUTVERK
Hlutverk félagsins er að:

 •  fara með málefni félagsmanna í FSL,
 •  vinna að bættum kjörum félagsmanna sinna,
 •  efla og standa vörð um menntun leikskólakennara og stjórnenda í leikskólum,
 •  efla og standa vörð um starfsþróun félagsmanna,
 •  stuðla að alhliða framförum í uppeldis- og menntamálum,
 •  gæta hagsmuna leikskóla ásamt því að kynna sem best starf þeirra meðal þjóðarinnar.
   

3. gr. AÐILD
Aðild að félaginu eiga:

 •  leikskólastjórar og staðgenglar þeirra,
 •  aðstoðarleikskólastjórar,
 •  ráðgjafar og fulltrúar á skólaskrifstofum og hjá rekstraraðilum, sem vinna að stjórnun og ráðgjöf í leikskólum.
   

4. gr. SAMRÁÐSNEFND
Í samráðsnefnd skulu vera einn aðalmaður fyrir hverja 100 félagsmenn. Einn varamaður skal vera á hverju svæði.

Fulltrúar í samráðsnefnd eru kosnir á hverju svæði fyrir sig, mánuði fyrir aðalfund og sjá framboðsnefnd og kjörstjórn FSL um það kjör.

Landið skiptist í 9 svæði, sem eru:

 •  Reykjavík.
 •  Kraginn.
 •  Suðurnes.
 •  Suðurland og Vestmannaeyjar.
 •  Vesturland og Austur-Barðastrandasýsla.
 •  Vestfirðir utan Austur-Barðastrandasýslu og Strandabyggðar.
 •  Norðurland vestra að Fjallabyggð ásamt Strandabyggð.
 •  Norðurland eystra frá Fjallabyggð að Bakkafirði.
 •  Austurland frá Bakkafirði til Skaftárhrepps.

Aðalmenn í samráðsnefnd eru tengiliðir við stjórn og jafnframt trúnaðarmenn. Félagsmenn geta valið sér þann trúnaðarmann úr samráðsnefnd sem þeir kjósa. Aðalmaður í samráðsnefnd skal hafa samvinnu við svæðafélag FL á sínu svæði eftir því sem við á. Aðalmaður samráðsnefndar skal funda með félagsmönnum á sínu svæði að minnsta kosti einu sinni á ári. Óski félagsmenn á svæðinu eftir því að halda fundi eða námskeið getur svæðið sótt um styrk til stjórnar FSL til framkvæmdarinnar.
 

5. gr. AÐALFUNDUR
Aðalfund félagsins skal halda fjórða hvert ár. Ekki skulu líða meira en 6 mánuðir milli aðalfundar félags og þings KÍ.

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins, samanber þó 20. gr.

Rétt til setu á aðalfundi hafa allir félagsmenn. Stjórn, varastjórn, samninganefnd, skólamálanefnd, samráðsnefnd, formenn fastanefnda FSL og félagsmenn sem eru formenn fastanefnda KÍ ber að sitja aðalfund.

Allir aðalfundarmenn hafa málfrelsi, tillögu og atkvæðisrétt.

Til aðalfundar skal boða með a.m.k. 5 vikna fyrirvara. Tillögur til umfjöllunar á aðalfundi skulu berast stjórn, eigi síðar en 4 vikum fyrir aðalfund. Aðalfundargögn skulu send út til félagsmanna eða birt á heimasíðu FSL með minnst 3 vikna fyrirvara.

Formaður eða stjórn getur boðað til aukaaðalfundar um sérstök mikilvæg málefni og gildir þá ekki ákvæði um boðun með 5 vikna fyrirvara.

Stjórn félagsins skipuleggur og ber ábyrgð á aðalfundi.
 

6. gr. DAGSKRÁ AÐALFUNDAR
Á dagskrá aðalfundar skulu a.m.k. vera eftirtaldir dagskrárliðir:

 •  Setning.
 •  Kosning starfsmanna fundarins.
 •  Kosning nefnda fundarins.
 •  Skýrsla stjórnar.
 •  Ársreikningar félagsins.
 •  Mál lögð fram.
 •  Nefndarstörf.
 •  Ályktanir og tillögur, afgreiðsla mála.
 •  Lagabreytingar.
 •  Fjárhagsáætlun.
 •  Lýst stjórnarkjöri.
 •  Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
 •  Kosning kjörstjórnar.
 •  Kosning samninganefndar.
 •  Kosning skólamálanefndar.
 •  Kosning framboðsnefndar og í önnur trúnaðarstörf.
 •  Önnur mál.

Aðalfundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað. Einfaldur meirihluti aðalfundar ræður úrslitum mála, sbr. þó 21. gr. Fundargerð aðalfundar skal birt á heimasíðu félagsins eigi síðar en fjórum vikum frá lokum fundarins.
 

7. gr. ÁRSFUNDUR
Þau ár sem ekki er aðalfundur skal stjórn félagsins boða til ársfundar, þar sem m.a. er fjallað um starfsemi félagsins og starfsáætlun auk þess sem reikningar þess eru lagðir fram. Ársfund skal boða með a.m.k. 4 vikna fyrirvara.

Rétt til setu á ársfundi hafa stjórn og varastjórn, samninganefnd, samráðsnefnd og skólamálanefnd. Stjórn félagsins hefur umboð til að kalla til fleiri aðila ef þurfa þykir.
 

8. gr. ALMENNIR FÉLAGSFUNDIR
Stjórn félagsins getur boðað til almennra félagsfunda. Skylt er að boða til almenns fundar ef hið minnsta 10% félagsmanna krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni.
 

9. gr. STJÓRN
Stjórn félagsins skipa fimm menn og þrír til vara, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Kjörtímabil stjórnar er milli aðalfunda.

Formaður skal kjörinn sérstaklega. Einnig skal kjósa fjóra stjórnarmenn og þrjá til vara í allsherjar atkvæðagreiðslu eigi síðar en sex vikum fyrir aðalfund. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi nýrrar stjórnar. Stjórnin heldur stjórnarfundi svo oft sem þurfa þykir.

Heimilt er stjórn að ráða starfsmenn til að annast störf fyrir félagið.

Formaður boðar og stýrir stjórnarfundi.

Stjórnarfund skal boða ef tveir stjórnarmenn óska og skal hann haldinn innan viku. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meirihluti stjórnar sækir fund.

Stjórn skal eiga samvinnu við stjórn FL. Halda skal sameiginlega stjórnarfundi félaganna eigi sjaldnar en tvisvar sinnum á ári.
 

10. gr. HLUTVERK STJÓRNAR
Stjórn fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda. Stjórn ber ábyrgð á starfsemi félagsins og hefur eftirlit með því að lögum þess, samþykktum og samningum sé framfylgt og er í fyrirsvari fyrir það út á við. Stjórn ber ábyrgð á samstarfi við önnur félög kennara og stjórnenda og samvinnu við faghópa innan eða utan KÍ sem vinna að málefnum leikskóla.

Formaður hefur yfirumsjón með rekstri félagsins. Varaformaður er staðgengill hans.
 

11. gr. SAMRÁÐSFUNDUR
Stjórn félagsins skal boða til fundar með samráðsnefnd eins oft og þurfa þykir en að lágmarki tvisvar á ári.

Samráðsnefnd er stjórn til ráðuneytis um starfsemi félagsins, m.a. við undirbúning aðalfunda og ársfunda. Stjórn er heimilt að boða aðra til samráðsfundar eftir þörfum hverju sinni.
 

12. gr. KJÖRSTJÓRN
Kjörstjórn félagsins skal skipuð 3 mönnum og 2 til vara kjörnum á aðalfundi. Hún stýrir stjórnarkjöri og öðrum kosningum á aðalfundum auk annarra kosninga sem ekki heyra undir kjörstjórn Kennarasambands Íslands. Aðalfundur setur reglur um störf kjörstjórnar og framkvæmd atkvæðagreiðslu.
 

13. gr. UM FUNDARGERÐIR
Ritari félagsins ritar fundargerð sem samþykkt er á stjórnarfundi og birt á heimasíðu.
 

14. gr. FJÁRREIÐUR OG BÓKHALD
Þing Kennarasambands Íslands ákvarðar skiptingu og upphæð félagsgjalda. Stjórn félagsins hefur umsjón með fjárreiðum þess og bókfærslu og leggur fram endurskoðaða reikninga á aðalfundi. Auk þess skal stjórn á ársfundi leggja fram yfirlit yfir stöðu félagsins.
 

15. gr. STJÓRNARSETA Í STJÓRN KENNARASAMBANDS ÍSLANDS
Formaður félagsins situr í stjórn Kennarasambands Íslands en varaformaður er staðgengill hans.
 

16. gr. SAMNINGANEFND
Á aðalfundi félagsins skal kjósa 3 fulltrúa og 2 til vara, sem ásamt stjórn félagsins mynda samninganefnd. Atkvæðamagn ræður því hverjir hljóta kjör sem aðalmenn og hverjir verða varamenn. Formaður FSL er formaður samninganefndar og varaformaður staðgengill hans. Að öðru leyti skiptir samninganefnd með sér verkum. Aðalfundur setur samninganefnd starfsreglur.

Hlutverk samninganefndar er m.a. að:

 •  ganga frá endanlegri kröfugerð,
 •  annast gerð kjarasamninga,
 •  ákveða hvort efna skuli til atkvæðagreiðslu um verkfall,
 •  ákveða hvort undirrita eigi kjarasamning með fyrirvara um samþykki félagsmanna og um hvort fresta skuli verkfalli,
 •  annast kynningu á kjarasamningi.
   

17. gr. SKÓLAMÁLANEFND
Á aðalfundi félagsins skal kjósa 4 fulltrúa og 2 til vara, sem ásamt einum fulltrúa úr stjórn félagsins, sem er formaður nefndarinnar, mynda skólamálanefnd. Atkvæðamagn ræður því hverjir hljóta kjör sem aðalmenn og hverjir verða varamenn. Skólamálanefnd skiptir með sér verkum. Stjórn FSL setur nefndinni starfsreglur. Skólamálanefnd skal eiga samvinnu við skólamálanefnd FL.

Hlutverk skólamálanefndar er m.a. að:

 •  fjalla um leikskólamál og önnur fagleg málefni í samráði við skólamálaráð KÍ,
 •  vinna að eflingu leikskólakennaramenntunar og starfsþróun félagsmanna,
 •  vera leiðandi í mótun og endurskoðun á skólastefnu,
 •  annast tengsl við faghópa og skólamálanefndir annarra félaga,
 •  annast tengsl við menntastofnanir og rannsóknastofur,
 •  undirbúa fundi og námstefnur stjórnenda leikskóla.
   

18. gr. VÍSINDASJÓÐUR FL OG FSL
Vísindasjóður FL og FSL tryggir fjárhagslegan grundvöll sí- og endurmenntunar fyrir leikskólakennara í tengslum við störf þeirra. Vísindasjóður leikskólakennara starfar í þremur deildum eftir samþykkt sem sjóðsstjórn setur.

Stjórn FSL í samvinnu við FL og KÍ ber ábyrgð á að gera þjónustusamning við sjóðinn vegna umsýslu.

Stjórn FSL skipar einn fulltrúa og einn til vara til að sitja í stjórn Vísindasjóðs FL og FSL.
 

19. gr. FRAMBOÐSNEFND
Á aðalfundi félagsins skal kjósa 3 manna framboðsnefnd og 2 til vara. Atkvæðamagn ræður því hverjir eru kjörnir aðalmenn og hverjir varamenn. Hlutverk nefndarinnar er að taka á móti framboðum og kynna frambjóðendur til stjórnar, skoðunarmanna reikninga, fulltrúa í samninganefnd, skólamálanefnd og fulltrúa til annarra trúnaðarstarfa sem aðalfundur kýs.

Við uppstillingu á vegum félagsins skal tryggja jafnræði. Framboðsnefnd starfar eftir reglum sem aðalfundur setur.
 

20. gr. ALLSHERJARATKVÆÐAGREIÐSLA UM KJARASAMNINGA, BOÐUN VERKFALLS O.FL.
Um kjarasamninga og boðun verkfalls skal fara fram leynileg allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna skv. lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur eða samkomulagi við viðkomandi launagreiðanda. Kjörskrá skal miðuð við gildandi félagatal. Þeir sem sannanlega greiða félagsgjald en eru ekki komnir á félagaskrá eiga rétt á að taka þátt í allsherjaratkvæðagreiðslu hverju sinni.

Stjórn félagsins getur efnt til allsherjaratkvæðagreiðslu um önnur mikilvæg málefni sem eigi falla sérstaklega undir aðalfund.

Einnig er skylt að hafa allsherjaratkvæðagreiðslu ef a.m.k. 1/10 hluti félagsmanna æskir þess.
 

21. gr. LAGABREYTINGAR
Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins enda hafi breytingarnar verið kynntar í fundarboði. Tillögur til lagabreytinga þurfa að hafa borist stjórn skriflega 4 vikum fyrir aðalfund og skulu þær kynntar félagsmönnum eigi síðar en 3 vikum fyrir aðalfund. Til þess að breyting nái fram að ganga verður hún að hljóta samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða. Breytingar á lögunum öðlast gildi þegar stjórn Kennarasambands Íslands hefur staðfest þær.
 

22. gr. FÉLAGSSLIT
Nú kemur fram tillaga um það að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð sem tillaga um lagabreytingar, sbr. 21. gr.
 

23. gr. GILDISTAKA
Lög þessi öðlast gildi þegar stjórn KÍ hefur staðfest þau.

 

Þannig samþykkt á þriðja aðalfundi Félagi stjórnenda leikskóla 17. maí 2018.

 

Starfsáætlunin á við um stjórn FSL, samninganefnd, skólamálanefnd og samráðsnefnd.

 

SKÓLAMÁL

 • Stjórn í samráði við skólamálanefnd skal bera ábyrgð á því að koma skólastefnu KÍ á framfæri.
 • Stjórn í samráði við skólamálanefnd skal viðhalda umræðu um fagmennsku og gæði leikskólastarfs með hag nemenda að leiðarljósi.
 • Stjórn í samráði við skólamálanefnd skal eiga samvinnu við mennta og menningamálaráðuneytið og gera sig gildandi umsagnaraðila um lög og reglugerðir og önnur mál.
 • Stjórn og skólamálanefnd skal í samvinnu við stjórn og skólamálanefnd FL beita sér fyrir því að framtíðarsýn FSL, FL og SNS verði komið á framfæri.
 • Stjórn í samráði við skólamálanefnd skal eiga samvinnu við RannUng og fylgjast með og styðja við rannsóknir á leikskólastarfi.
 • Stjórn í samráði við skólamálanefnd skal eiga samvinnu við þær stofnanir sem mennta leikskólakennara ekki síst á sviði vettvangsnáms.
 • Stjórn í samráði við skólamálanefnd skal eiga samvinnu við SÍ um starfsþróunartilboð fyrir félagsmenn.
 • Stjórn í samráði við skólamálanefnd skal standa fyrir námstefnu á hverju ári.
 • Formaður skólamálanefndar FSL vinni í samráði við skólamálanefnd og stjórn að sameiginlegum verkefnum á vettvangi KÍ.
 • Skólamálanefnd skal endurskoða skólastefnu KÍ eftir þörfum hverju sinni og leggja tillögur fyrir þing KÍ í samráði við stjórn FSL.
   

FÉLAGSMÁL

 • Stjórn, samráðsnefnd, skólamálanefnd og samninganefnd skulu alltaf stuðla að jákvæðri og áhugaverðri umræðu um leikskólastarf með það að markmiði að styrkja sjálfsmynd, innviði og ímynd stéttarinnar.
 • Stjórn og nefndir FSL skulu viðhalda góðu samstarfi við FL í hvívetna.
 • Stjórn skal styðja við aðalmenn samráðsnefndar til þess að viðhalda félagsstarfi á svæðum.
 • Stjórn beiti sér fyrir því markmiði að fjölga leikskólakennurum af báðum kynjum.
 • Stjórn ásamt samráðsnefnd heldur áfram að vinna að því að efla tengsl, samstarf og samstöðu við önnur kennarafélög á svæðum og innan KÍ.
   

KJARAMÁL

 • Stjórn og samninganefnd þrýstir á og hefur frumkvæði eftir því sem við á um aðgerðaráætlun með gildandi kjarasamningi.
 • Stjórn og samninganefnd gengur til kjarasamninga með kröfugerð byggða á vilja félagsmanna og faglegum og kjaralegum forsendum.
 • Stjórn og samninganefnd hefur frumkvæði að því að kanna starfsumhverfi félagsmanna með tilliti til áherslna í kjarasamningum.
 • Stjórn og samninganefnd hefur frumkvæði að því að kanna launasetningu félagsmanna með tilliti til reynslu og menntunar.

 

 

Tengt efni