is / en / dk

Fæðingarorlof

Réttur til fæðingarorlofs skapast við:

  • Fæðingu barns
  • Frumættleiðingu barns yngra en 8 ára
  • Töku barns yngra en 8 ára í varanlegt fóstur
  • Fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu
  • Andvana fæðingu eftir 22ja vikna meðgöngu

Foreldrar öðlast rétt til greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði í 6 mánuði, í a.m.k. 25% starfshlutfalli.

Lengd fæðingarorlofs

Samanlagt fæðingarorlof er 9 mánuðir. Hvort foreldri á rétt á 3 mánuðum. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. 

Greiðslur og tilkynning um fæðingarorlof

Mánaðarlegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldris í fullu fæðingarorlofi eru 80% af meðaltali heildarlauna.  Mánaðarleg greiðsla nemur að hámarki 600.000 kr. á mánuði. Miðað er við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Sjá nánar reiknivél á vef Fæðingarorlofssjóðs

Tilkynning um töku fæðingarorlofs og umsókn um greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði
Tilvonandi foreldrar þurfa að tilkynna yfirmanni um skipulag fæðingarorlofs eigi síðar en 8 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. Tilkynning um fyrirhugað fæðingarorlof
Sækja þarf um greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði, a.m.k. 6 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. Umsókn um fæðingarorlof  

Fæðingarorlof og sumarlaun

Samspil fæðingarorlofs og sumarlauna hjá kennurum getur verið með ýmsum hætti.  Mikilvægt er að huga að útfærslu fæðingarorlofs miðað við lengd þess og hvort til standi að dreifa því á lengri tíma.

Tvær leiðir eru mögulegar varðandi töku fæðingarorlofs.  Annað hvort er fæðingarorlof tekið í einu lagi eða því dreift á lengri tíma.  Athygli er vakin á því að ekki er hægt að blanda þessum tveimur leiðum saman.

 

Leið 1 - Fæðingarorlof í einu lagi

Þeir sem taka fullt fæðingarorlof án þess að dreifa því á lengri tíma ganga inn í sérstakt samkomulag varðandi fæðingarorlof grunnskóla-, framhaldsskóla- og tónlistarskólakennara og sumarorlof þeirra.

Samkomulagið er á þann veg að ef kennari fer í fæðingarorlof sem fellur á sitthvort skólaárið auk sumarsins þá bætast tveir sumarmánuðir aftan við fæðingarorlofið og kennari sem ætlar sér að taka 6 mánaða fæðingarorlof fær því 8 mánaða fullt fæðingarorlof (þetta er háð því að viðkomandi komi aftur til starfa og dreifi ekki fæðingarorlofi á lengri tíma).

Greiðslur Fæðingarorlofssjóðs miðast við 80% af meðaltali heildarlauna. Hámark greiðslna er 600.000 kr. á mánuði. Miða skal við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Fæðingarorlofssjóður greiðir því allt að 6 mánuðum og launagreiðandi 2 mánuði. Heimilt er þó að framlengja fæðingarorlofið um allt að 1 mánuð, þannig að það verði 7 mánuðir* og bæta svo við 2 mánuðum frá launagreiðanda aftan við það. Þá skiptir auðvitað máli hvort fæðingin er fyrir sumarleyfi eða á meðan á því stendur.

Laun kennara yfir sumartímann skiptast í sumarlaun og sumarorlof. Sumarlaun vinnur starfsmaður sér einungis inn af kenndum mánuðum þ.e. á starfstíma skóla, en fær þau einnig ef fæðingarorlofi er ekki dreift á lengri tíma en 6 mánuði (eða ef framlenging er minna en mánuður). Allir fá aftur á móti sumarorlof af a.m.k. 6 mánuðum. Ef lenging verður meira en 1 mánuður (þ.e. fæðingarorlof alls meira en 7 mánuðir) dettur niður sumarlaunahluti nema af kenndum/unnum mánuðum, starfstími skóla vegur því mjög þungt í þessum útreikningum.

* Mikilvægt er að hafa í huga að þessi 7. mánuður skerðir sumarlaun eftir að starfsmaður kemur úr fæðingarorlofi um 26,3% fyrir grunnskólakennara og tónlistarskólakennara og 33,33% fyrir framhaldsskólakennara af einum mánaðarlaunum (1,0 – 0,263/0,333). 

Leið 2 - Fæðingarorlofi dreift

Ef fæðingarorlofinu er hins vegar dreift, til dæmis á 12 mánuði, fær viðkomandi jafnar greiðslur allan tímann frá Fæðingarorlofssjóði og orlof á fæðingarorlofið er greitt af launagreiðanda. Þá er ekki hægt að eiga inni viðbótardaga eftir fæðingarorlofið, heldur ákveður starfsmaður hvað hann ætlar að vera lengi, til dæmis 12 mánuði.

Kennari sem kemur ekkert inn yfir veturinn vinnur sér því ekki inn rétt til sumarlauna heldur fær einungis sumarorlofshlutann. Sumarlaun geta því komið misjafnlega út sumarið eftir að fæðingarorlofi lýkur, allt eftir því hvenær ársins fæðingarorlofið hófst. KÍ hvetur alla þá sem ætla sér að dreifa fæðingarorlofi sínu á lengri tíma að hafa samband ef frekari útskýringa er þörf. Þetta getur verið býsna flókið þegar taka þarf tillit til margra þátta líkt og kennslumánaða, sumarmánaða, fyrirframgreiddra launa, óuppgerðs orlofs o.s.frv. Þegar 6 mánaða fæðingarorlofi er dreift á 12 mánuði er það í raun eins og 6 mánaða fæðingarorlof + 6 mánaða launalaust leyfi, og launalaust leyfi skapar ekki rétt til sumarlaunahluta, orlofslauna né telur til starfsaldurs.

Áunnin réttindi og vernd í fæðingarorlofi

Ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda helst óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi.  Starfsmaður skal eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.

Sá tími sem starfsmaður er í fæðingarorlofi reiknast sem starfstími og vinnur hann sér inn rétt til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum eins og hann væri í starfi. Sama gildir um starfsaldurshækkanir, veikindarétt, uppsagnarfrest, greiðslu persónuuppbóta og rétt til atvinnuleysisbóta.

Foreldri greiðir í lífeyrissjóð að lágmarki 4% meðan á fæðingarorlofi stendur en Fæðingarorlofssjóður greiðir að lágmarki lögbundið mótframlag. Rétt er að benda á að starfsmaður sem framlengir fæðingarorlof sitt telst taka launalaust leyfi í framhaldi af fæðingarorlofinu og orlof ávinnst ekki af launalausu leyfi.

Óheimilt að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða er í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Sama gildir um uppsagnir þungaðra kvenna og þeirra sem nýlega hafa alið barn.

Fæðingarstyrkur frá Sjúkrasjóði KÍ

Sjúkrasjóður KÍ greiðir út fæðingarstyrki til félagsmanna KÍ til viðbótar við greiðslu Fæðingarorlofssjóðs. 

Nánari upplýsingar um fæðingarstyrk Sjúkrasjóðs KÍ má finna hér: 


Foreldraorlof

Foreldrar sem eru starfandi á íslenskum vinnumarkaði eiga rétt á 4ra mánaða launalausu foreldraorlofi. Rétturinn fellur niður við 8 ára aldur barns. Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til foreldraorlofs sem er ekki framseljanlegur. Foreldraorlofsrétturinn skiptist þannig að hvort foreldri um sig á sjálfstæðan og óframseljanlegan rétt til 4ra mánaða orlofs til að annast barn sitt.

Þau réttindi sem starfsmaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs haldast óbreytt til loka orlofsins ásamt þeim breytingum sem kunna að hafa orðið á áunnum réttindum á grundvelli laga eða kjarasamninga. Sjá nánar lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

 

Tengt efni