is / en / dk

Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs.

Ávinningur af lífeyrissjóðsaðild

  • Ellilífeyrir til æviloka.
  • Örorku- og barnalífeyrir ef sjóðfélagi missir starfsgetu.
  • Maka- og barnalífeyrir við fráfall sjóðfélaga.
  • Möguleiki á lánum frá lífeyrissjóði.

Í hvaða lífeyrissjóð?

Kennarar eiga aðild að ýmsum lífeyrissjóðum en helstir eru:

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins - LSR

Grunnskólakennarar og framhaldsskólakennarar eiga skylduaðild að LSR.

LSR skiptist í tvær deildir:

Deild Aðild Iðgjöld vinnuveitanda Iðgjöld starfsmanns
A deild Allir sem ráðnir eru 1997 eða síðar eru í A deild 11,5% af heildarlaunum 4% af heildarlaunum
B deild Þeir sem greiddu til sjóðsins í árslok 1996 og skiptu ekki yfir í A deild 8% af dagvinnulaunum 4% af dagvinnulaunum
         

Þeir sem greiddu í B-deild LSR í árslok 1996 eiga áfram rétt til aðildar, þ.e. ef þeir skiptu ekki yfir í A-deild eins og heimilt var við breytinguna. Iðgjald til A-deildar er greitt af heildarlaunum. Sjóðfélagi greiðir 4% af heildarlaunum en mótframlag launagreiðanda er 11,5%. Iðgjald til B-deildar greiðist af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót, orlofsuppbót og vaktaálagi. Sjóðfélagi greiðir 4% af dagvinnulaunum en mótframlag launagreiðanda er 8%.

Nánari upplýsingar er að finna á vef LSR.

Brú lífeyrissjóður

Flestir leikskólakennarar og tónlistaskólakennarar eru í Brú lífeyrissjóði.

Brú lífeyrissjóður skiptist í þrjár deildir:

Deild Iðgjald vinnuveitanda Iðgjald starfsmanns
A deild 12% af heildarlaunum 4% af heildarlaunum
V deild 8 eða 11,5% af heildarlaunum 4% af heildarlaunum
B deild* 8% af dagvinnulaunum 4% a dagvinnulaunum
     

Brú lífeyrissjóður skiptist í tvær sameignardeildir, almenna deild (A-deild) og valdeild (V-deild). Sjóðfélagar geta valið hvorri sameignardeildinni þeir vilja tilheyra. Í A deildina er greitt iðgjald af öllum launum, þ.e.a.s. 4% frá launþega og 11,5% mótframlag launagreiðanda. Iðgjald sjóðfélaga og launagreiðanda í V-deild ræðst af kjara- eða ráðningarsamningi. Sjóðfélagi gerist sjálfkrafa félagi í A- deild en óska þarf sérstaklega eftir aðild að V-deild. Hægt er að færa sig hvenær sem er úr A-deild í V-deild en hins vegar er ekki hægt að flytja úr V-deild í A-deild. Nánari upplýsingar er að finna á vef Brúar lífeyrissjóðs.

*B deild varð til sumarið 2016 þegar fimm lokaðir** sveitarfélagssjóðir sameinuðust hjá Brú lífeyrissjóði. Nánari upplýsingar um B deild er að finna hér.

**Með lífeyrissjóðslögum var lífeyrissjóðunum lokað fyrir nýjum sjóðsfélögum þann 1. júlí 1998 í samræmi við lög nr. 129 frá 1997.

 

Viðbótarlífeyrissparnaður

Í öllum kjarasamningum KÍ er ákvæði um að launagreiðendur greiði 2% af launum starfsmanna sinna sem mótframlag við viðbótarlífeyrissparnað þeirra, enda sé framlag launamanns a.m.k. 2%. Starfsmaður getur valið sér hvort hann geymir viðbótarlífeyrissparnað hjá lífeyrissjóðum, bönkum, sparisjóðum, verðbréfafyrirtækjum eða líftryggingafélögum.

Mikilvægt er að kynna sér vel hvort um einhvern kostnað er að ræða í upphafi viðbótarlífeyrissparnaðar eða ekki. Séreignardeild LSR hefur engan eða lægri kostnað í upphafi sparnaðar en gengur og gerist annars staðar.

 

Réttindi og skyldur