is / en / dk

Samkvæmt lögum nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er óheimilt að ráða aðra en þá sem uppfylla ákvæði þessara laga til kennslu við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla á vegum opinberra aðila eða hliðstæðra skóla. Starfsheiti og starfsréttindi þessara stétta eru lögvernduð.

Kennarar eru almennt ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Hjá grunnskólakennurum og skólastjórnendum teljast fyrstu fjórir mánuðir í starfi til reynslutíma en fyrstu þrír mánuðir í starfi hjá öðrum kennurum (í leikskólum, tónlistarskólum og framhaldsskólum). 

Við sérstakar aðstæður er heimilt að ráða starfsmann til starfa tímabundið. Tímabundin ráðning skal þó aldrei vara samfellt lengur en í 2 ár nema verklok séu fyrirfram ákveðin. Ef stofnun eða fyrirtæki vill ráða starfsmann lengur skal það gert með ótímabundnum ráðningarsamningi.

Sæki enginn kennari, með fullgild réttindi, um auglýst starf er heimilt að lausráða í starfið til bráðabirgða að hámarki til eins árs í senn.

Ráðningarsamningar

Ráðningarsamningur er samningur milli starfsmanns og atvinnurekanda þar sem kveðið er á um vinnuframlag starfsmanns í þágu atvinnurekandans gegn tilteknu gjaldi í formi launa og annarra starfskjara frá atvinnurekanda. Ráðningarsamningar skulu almennt vera ótímabundnir með gagnkvæmum uppsagnarfresti. 

Skylt er að ganga frá skriflegum ráðningarsamningi milli starfsmanns og forstöðumanns/vinnuveitanda við upphaf ráðningar. 

 Í ráðningarsamningi skal m.a. tilgreina eftirfarandi atriði

 • Deili á aðilum, nöfn og kennitölur vinnuveitanda og starfsmanns
 • Vinnustað og heimilisfang vinnuveitanda (starfsstöð)
 • Starfsheiti
 • Vinnutímaskipulag og starfshlutfall
 • Upphafstíma ráðningar og lengd ráðningar, sé hún tímabundin, ásamt uppsagnarfresti
 • Ráðningarkjör, t.d. með tilvísun til launataxta og aðrar greiðslur
 • Orlofsrétt
 • Rétt til launa í veikindum
 • Lífeyrissjóð og stéttarfélag
 • Breytingar á ráðningarkjörum umfram það sem leiðir af lögum eða kjarasamningum skal staðfesta með skriflegum ráðningarsamningi. 

Auglýsingaskylda

Meginreglan er sú að auglýsa skal öll laus störf kennara. Umsóknarfrestur um auglýst störf skal a.m.k. vera 2 vikur frá birtingu auglýsingar. Fullnægjandi birting auglýsingar getur verið með tvennum hætti:

 • Annars vegar með því að birta auglýsingu á vefnum starfatorg.is eða á vefum sveitarfélaga, ásamt tilvísun til hennar í yfirlitsauglýsingu sem birt er í dagblaði sem gefið er út á landsvísu.
 • Hins vegar með því að birta auglýsingu í dagblaði sem gefið er út á landsvísu.

Í þeim tilvikum þar sem sveitarfélag/rekstraraðili lítur svo á að ráða skuli í starf með uppfærslu innan starfsgreinarinnar, er heimilt að auglýsa á þeim vettvangi einum. Þetta gæti t.d. átt við ef sveitarfélag ákveður að auglýsa stöðu aðstoðarskólastjóra eða deildarstjóra einungis innan viðkomandi skóla.

Þó er ekki skylt að auglýsa afleysingastörf, svo sem vegna fæðingarorlofs, námsleyfis eða veikinda, störf þar sem ráðning skal standa 12 mánuði eða skemur eða tímavinnustörf.

Réttindi og skyldur