is / en / dk

Lengd veikindaréttar miðast við starfsaldur, sem hér segir:

Starfsaldur Fjöldi veikindadaga
0-3 mánuðir í starfi 14
Næstu 3 mánuðir í starfi 35
Eftir 6 mánuði í starfi 119
Eftir 1 ár í starfi 133
Eftir 7 ár í starfi 175
Eftir 12 ára starf 273
Eftir 18 ára starf 360
   

Í veikindum eru allir dagar taldir (almanaksdagar) en ekki einungis virkir dagar. Horft er til fjölda veikindadaga síðustu 12 mánuði og sá fjöldi dreginn frá rétti starfsmanns.

Ávinnsla veikindaréttar miðar við starfsaldur hjá núverandi launagreiðanda auk fyrri starfsaldurs hjá stofnunum ríkis, sveitarfélaga og/eða sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé.

Við mat á ávinnslurétti starfsmanns er auk þjónustualdurs hjá viðkomandi launagreiðanda einnig talinn þjónustualdur hjá stofnunum ríkis, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé. Veikindaréttur flyst þannig með starfsmanni milli sveitarfélaga og/eða ríkisstofnana.

Á fyrstu 3 mánuðum samfelldrar ráðningar er veikindaréttur þó ekki metinn nema viðkomandi hafi samfelldan starfsaldur hjá stofnunum ríkis, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta af almannafé þeim launagreiðanda í 12 mánuði eða meira. 

Dæmi:
Starfsmaður ræður sig til ríkisstofnunar A. Áður starfaði hann í sex mánuði hjá ríkisstofnun B og þar áður átta mánuði hjá Reykjavíkurborg. Samfelldur þjónustualdur hans er því fjórtán mánuðir og veikindaréttur hans 133 dagar. Hafi hins vegar orðið rof á starfstíma hans, sem nemur meira en mánuði, hjá fyrr­nefndum launagreiðendum á síðustu tólf mánuðum er veikindaréttur hans 14 dagar á fyrstu þremur mánuðum samfelldrar ráðningar hjá ríkisstofnun A. Eftir það miðast veikindaréttur hans við samanlagðan þjónustualdur.

Launagreiðslur í veikindum

Laun í veikindum miða við föst mánaðarlaun auk fastrar yfirvinnu og meðaltal tilfallandi yfirvinnu. Í veikindum kennara skal greiða samkvæmt þeirri stundaskrá sem í gildi er eða síðast gilti miðað við upphaf veikinda. Ný vinnuskýrsla er ekki undirrituð fyrr en starfsmaður kemur til starfa á ný. 

Laun í veikindum eru ekki greidd lengur en ráðningu er ætlað að standa.   


Veikindi að hluta - heimildarákvæði

Starfsmaður getur að læknisráði og með leyfi yfirmanns unnið skert starf, t.d. 50% starf og 50% veikindi og er greiðsla veikindalauna m.v. það starfshlutfall sem vantar á að hann vinni fullt starf. Hver dagur í hlutaveikindum telst sem 1 veikindadagur þó starfsmaður sé með 50% vottorð og 50% í starfi.

Starfsmaður getur ekki talist að hálfu veikur og hálfu frískur í orlofi. Fari starfsmaður sem verið hefur í hlutaveikindum í frí telst það að fullu til orlofstöku nema að læknir votti að starfsmaður geti ekki notið orlofs en þá telst fríið að fullu til veikinda. 

360 daga veikindaréttur 50% veikindi og 50% starf

Ef starfsmaður fullnýtir 50% veikindarétt í 360 daga kviknar réttur fyrir hin 50% sem ekki voru nýtt, en einungis ef viðkomandi verður 100% veikur að þeim tíma liðnum. Þetta þýðir þá að viðkomandi er á 100% launum fyrstu 360 dagana (m.v. 50% veikindi/50% starf ) en svo 50% launum næstu 360 daga m.v. 100% veikindi. Starfsmaður getur aftur á móti sótt um sjúkradagpeninga hjá Sjúkrasjóði KÍ á móti þessum 50% launum.


Fjarvera vegna veikinda barna

Foreldri barns, yngra en 13 ára, á rétt á að vera frá vinnu vegna veikinda barna í samtals 12 vinnudaga (96 vinnuskyldustundir m.v. fullt starf) á hverju almanaksári og endurnýjast sá réttur um hver áramót. Fjarvera má vera í heilum eða hálfum dögum eða nokkrar klukkustundir í senn.


Veikindi í orlofi

Veikindi í sumarorlofi skulu sönnuð með læknisvottorði svo fljótt sem auðið er. Starfsmaður getur eingöngu átt inni daga vegna eigin veikinda í sumarorlofi en ekki vegna barna sinna. Þá getur starfsmaður ekki átt daga inni vegna veikinda í jóla- og páskaleyfi. Nokkur munur er, eftir kjarasamningum KÍ, hvernig talningu veikindadaga í orlofi er háttað:

Grunnskólakennarar Nái starfsmaður ekki að nýta orlofsrétt sinn (24, 27 eða 30 daga) á tímabilinu 15. júní til 15. ágúst telst það sem á vantar til veikinda í orlofi.
Framhaldsskólakennarar Verði starfsmaður veikur í sumarhléi, í mánuð eða lengur, skal það sem  fram yfir er skoðast sem veikindi í orlofi allt að fullum orlofstíma (24, 27 eða 30 dagar).
Leikskólakennarar Veikist starfsmaður í orlofi, telst sá tími, sem veikindum nemur, ekki til orlofs.
Tónlistarskólakennarar Nái starfsmaður ekki að nýta orlofsrétt sinn (24, 27 eða 30 daga) á tímabilinu 15. júní til 15. ágúst telst það sem á vantar til veikinda í orlofi.
Stjórnendur allra skólastiga Veikist stjórnandi í orlofi, telst sá tími, sem veikindum nemur, ekki til orlofs.

Vottorð um veikindi og starfshæfni

Ef starfsmaður verður óvinnufær vegna veikinda eða slyss, skal hann þegar tilkynna það yfirmanni sínum sem ákveður hvort læknisvottorðs skuli krafist. Endurgreiða skal starfsmanni gjald vegna læknisvottorða sem krafist er af vinnuveitanda.

Yfirmaður getur krafist vottorðs hvenær sem er, ef þörf þykir á og skiptir þá ekki máli hvort heldur er, skammtíma eða langtímaveikindi. 

Ef starfsmaður er óvinnufær um langan tíma, verður viðkomandi að endurnýja læknisvottorð sitt eftir nánari ákvörðun yfirmanns en þó ekki sjaldnar en mánaðarlega.

Starfsmaður þarf ekki að gefa yfirmanni nákvæma lýsingu á veikindum sínum en yfirmaður getur nýtt sér rétt sinn til að senda starfsmann til trúnaðarlæknis og fá vottorð sé talin þörf á því.

Þegar starfsmaður hefur verið óvinnufær vegna veikinda eða slysa samfellt í 1 mánuð ber honum að skila svokölluðu starfshæfnisvottorði þegar hann hefur störf á ný. Starfsmaður má ekki hefja störf án þess að læknir votti að heilsa hans leyfi og heimilt er að krefjast vottorðs trúnaðarlæknis.

Læknisheimsókn á vinnutíma og mæðravernd

Ef um almenna læknisheimsókn á vinnutíma er að ræða er ekkert í kjarasamningi sem tekur á því. Almennt getur fólk fengið leyfi til þess að fara til læknis án þess að það hafi einhverjar afleiðingar í för með sér líkt og að dregið sé af því 1 veikindadagur. 

Barnshafandi konur eiga rétt til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar án frádráttar á föstum launum.


Uppsögn í veikindum

Veikindaréttur fellur niður við starfslok hvort heldur starfsmaður segir upp starfi eða honum er sagt upp störfum.

Hafi starfsmanni borist uppsögn með venjulegum uppsagnarfresti en veikist eftir það greiðast laun ekki lengur en til loka ráðningartímans. Hafi veikindi hins vegar borið að áður en til uppsagnar kemur, heldur starfsmaðurinn veikindarétti sínum þar til hann er vinnufær á ný eða veikindaréttur tæmdur.

Mikilvægt er að fá ráðgjöf hjá KÍ ef starfsmaður íhugar uppsögn vegna veikinda svo réttindum sé ekki fyrirgert með ótímabærri uppsögn.

Lausnarlaun

Þegar starfsmaður, segir starfi sínu lausu eða er leystur frá störfum vegna heilsubrests, varanlegrar óvinnufærni eða ef viðkomandi hefur tæmt veikindarétt og/eða haldið starfinu launalaust jafn lengi og veikindaréttur varði þá skulu honum greidd svokölluð lausnarlaun, sem eru föst laun í þrjá mánuði.

Hafi starfsmaður verið samfellt frá vinnu vegna veikinda eða slysa launalaust í jafnlangan tíma og réttur til launa í veikindum varði, má leysa hann frá störfum vegna heilsubrests. Starfsmanni er þá veitt lausn frá störfum enda votti læknir að hann sé varanlega óvinnufær.

Mikilvægt er að nýta fyrst rétt til sjúkradagpeninga hjá Sjúkrasjóði KÍ áður en lausnarlaun greiðast. 

ÍTAREFNI

Réttindi og skyldur