is / en / dk

23. Desember 2019

Mér var á það bent á dögunum að játningar veki ávallt mikla athygli. Því hefst þessi jólakveðja til ykkar ágætu félagar í KÍ á einni slíkri. Sem lið í ævilöngu og heilsuátaki var ég stödd fyrir skemmstu í hjólatíma í líkamsræktarstöð. Tónlistin var fjölbreytt en svo kom að sérstöku stuðlagi með íslenskum tónlistarmanni. Textinn fjallaði um samlíf ungs fólks, unga stúlku sem leitar að kærleika og væntumþykju og stráka sem hugsa ekki lengra en að næstu fullnægingu. Umfjöllunarefnið var svo sem ekki nýtt og væntalega allra tíma og einkenndist af klisjum og staðalmyndum, orðbragðið klúrt og textinn langt frá því að vera lipur eða á nokkurn hátt grípandi.

Eftir tímann lét ég þau orð falla að mér þætti textinn óþægilegur og slæmt að þeir sem eldri væru létu unga fólkið hlusta á slíkt. En viðbrögðin komu mér á óvart og skiptust algerlega í tvennt. Einhverjir sögðu að það væri nauðsynlegt að ræða við unga fólkið að þessar staðalmyndir um ástsjúku stelpuna og graða strákinn væru ansi langt frá lífinu sjálfu en svo voru aðrir sem sögðu að þetta væri það sem börn niður á leikskólaaldur vildu hlusta á, og svona væri lífið nú bara. Það væri hins vegar verkefni skólakerfisins að taka á þessu. Og þá er ég loksins komin að kjarna málsins.

Hvað tilheyrir skólastarfi og hvað ekki? Vissulega tilheyrir jafnréttisfræðsla skólakerfinu og allt frá árinu 1974 hefur verið skylda að sinna jafnréttisfræðslu innan skólakerfisins. Því miður er langt frá því að jafnréttisfræðslu sé sinnt sem skyldi. Hins vegar er það samfélagsleg ábyrgð okkar sem samfélagið myndum. Ábyrgð sem við berum gagnvart því að börn séu ekki gegnsýrð af einföldum staðalmyndum. Þau eiga svo miklu betra skilið. Þverrandi auðlindir og mengun ógna samfélögum mannsins og efnahagsleg misskipting kemur í veg fyrir að komandi kynslóðir fái sömu tækifæri og þeir sem byggja norðurhvel jarðar á okkar tímum. Allt er það ábyrgð okkar sem eldri erum. Okkur sem samfélagi ber skylda til að búa börnum okkar lífvænleg skilyrði. Það gerum við best með því að slökkva á símunum og gefa okkur tíma til samræðna.

Samkvæmt rannsóknum, bæði frá OECD og einnig frá Rannsóknarstofu í tómstundafræðum við HÍ, einkennast samskipti kennara og nemenda af trausti og góðum samskiptum. Kennarar sýna nemendum sínum virðingu, umhyggju, hvetja þá í námi og eru þeim góð fyrirmynd. Enda líður börnum og ungmennum almennt vel í skólanum og kennarar reynast nemendum sínum vel. Verkefni samtímans eru hins vegar mörg og ljóst að þeim verður ekki öllum sinnt innan skólakerfisins. Oft er talað um að íslenskt skólakerfi sé lítið og það má til sanns vegar færa. Ef við miðum okkur við milljóna þjóðir er íslenskt skólakerfi auðvitað örsmátt.

Íslenskt skólakerfi er þó væntanlega það kerfi sem snertir flesta Íslendinga. Í því stunda nánast allir Íslendingar nám frá um það bil tveggja til nítján ára aldurs. Í kerfinu starfa auk þess um 10 þúsund kennarar, námsráðgjafar og stjórnendur auk annars starfsfólks. Með nokkurri einföldun má því segja að innan íslensks skólakerfis, neðan háskóla, starfi 100 þúsund manns á hverjum degi. Við eigum að vera stolt af því að tilheyra þessu kerfi, sinna starfi okkar af alúð og fagmennsku. Þá skiptir miklu að samfélagið viðurkenni mikilvægi þess og styðji á allan hátt.

Kæru félagar í Kennarasambandi Íslands. Fyrir hönd okkar Ragnars Þórs Péturssonar formanns og stjórnarinnar allrar óska ég ykkur og fjölskyldum ykkar hamingjuríkrar jólahátíðar og heillaríks nýs árs.

Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður KÍ
 

Tengt efni