is / en / dk

27. Janúar 2020

Árið 2019 kom og fór án þess að niðurstaða fengist í stöðu kjaramála. Fyrsti fjórðungur ársins var tími vaxandi spennu og átaka á hinum almenna markaði. Hápunkti náði sú spenna í verkfallsaðgerðum sem fyrst og fremst beindust að ferðaþjónustunni. Aðgerðunum var nánast sjálfhætt í lok marsmánaðar þegar flugfélagið WOW skellti loks í lás með tilheyrandi búsifjum fyrir ferðaþjónustuna. Örstuttu seinna lágu á borðinu hinir svokölluðu „lífskjarasamningar“.

Lífskjarasamningarnir höfðu, að sögn, fjórþættan tilgang (annan en að lægja öldurnar á vinnumarkaði). Samkvæmt þeim átti að leggja sérstaka áherslu á kjarabætur tekjulágs launafólks; stytta vinnutíma, auka frítíma og gera vinnustaði fjölskylduvænni; lækka skatta, sérstaklega tekjulágra og loks; skapa skilyrði til vaxtalækkunar.

Þokast hefur í samkomulagsátt á opinberum markaði á síðustu vikum en þó eru stór mál enn ókláruð og nú bendir allt til þess að þar séu að hefjast verkföll.

Staðan í Reykjavík
Eftir umvendingar síðustu daga og vikna standa öll spjót á Reykjavíkurborg. Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 96% félagsmanna Eflingar samþykkt stigvaxandi verkfallsaðgerðir í febrúarmánuði sem beinast gegn borginni. Það er sólu særra að samskipti samninganefndar Eflingar og Reykjavíkurborgar eru í verulegum ógöngum. Samningaviðræður við fleiri hafa verið býsna erfiðar.

Flókin staða
Nokkur stór mál hafa gert viðræður opinberra launagreiðenda flóknar og erfiðar. Stytting vinnuvikunnar hefur valdið mestum töfum. Það er út af fyrir sig rannsóknarefni í ljósi þess að fyrir samningalotuna voru opinberir aðilar býsna langt komnir með að þróa útfærslur á styttingu. Af einhverjum ástæðum fluttust þau mál úr farvegi samstarfs í átt til átakamikillar samningagerðar og átaka.

Nokkuð sæmileg sátt virðist í höfn hvað varðar styttingu vinnuvikunnar hjá mörgu dagvinnufólki. Mun flóknari staða er uppi varðandi vaktavinnufólk. Á útfærslu þess hefur nú strandað vikum saman. Starfshópi hefur verið falið að leita leiða til að lenda málinu en honum hefur ekki orðið ágengt til þessa.

Þess eru dæmi að gerðir hafa verið kjarasamningar þar sem stytting vinnuviku hefur verið sleppt með öllu. Jafnvel meðvitað. Sú stefna var mörkuð í lífskjarasamningum að styttingin mætti hvorki skerða þjónustu né auka kostnað. Til eru hópar sem eru efins um slíkar styttingar og telja að með óbreyttu verkefnaálagi án viðbótarkostnaðar geti stytting vinnutíma valdið meiri skaða en gagni. Þá getur hreinlega verið að ómögulegt að útfæra styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki án aukins kostnaðar.

Enn flækir málið krafan um efndir lífeyrissamkomulagsins um jöfnun launa frá 2016. Við gerð þess lofuðu ríki og sveitarfélög að uppræta kerfislægan og ómálefnalegan launamun á milli almenns og opinbers markaðar fyrir árið 2026. Frumgreiningu er nú lokið á launamun milli markaða og búið er að meta umfangið gróflega. Ljóst er að ýmis stéttarfélög, þar á meðal KÍ, munu ekki skrifa upp á langtímasamninga án þess að raunverulega sé stefnt að efndum samkomulagsins. Fulltrúar stjórnvalda hafa staðfest ásetning sinn um að efna samkomulagið en vinna við útfærslu þess stendur enn yfir og hún er býsna flókin.

Fleira kemur auðvitað til þótt þessi mál hér að ofan séu þau viðamestu. Efling fer til dæmis nú fram á meiri hækkun lægstu launa en fólst í lífskjarasamningnum. Er það að hluta rökstutt með því að launamyndun sé önnur hjá hinu opinbera en á almennum markaði (og sem slíkt getur það orðið viðfangsefni jöfnunar launa milli markaða) en að hluta er það rökstutt með þeim hætti að lægstu laun séu of lág til framfærslu.

Staðan er augljóslega býsna flókin. Finnist engin lausn á málefnum vaktavinnufólks gætu verkfallsátök undið upp á sig frekar hratt. Finnist ekki útfærsla á efndum lífeyrissamkomulagsins er grundvöllur langtímasamninga líklega brostinn. Samningagerðin hefur gengið átakanlega hægt og það eru takmörk fyrir biðlund þeirra sem bæst hafa í röðina frá því hinir fyrstu lögðu af stað. Nú hafa þau félög innan Kennarasambandsins sem lengst hafa verið án samninga, Félag framhaldsskólakennara og Félag stjórnenda í framhaldsskólum, vísað deilum sínum til Ríkissáttasemjara. Þar eru þegar fyrir málefni annarra stéttarfélaga sem óljóst er hvort miði í átt til samninga eða átaka á næstu dögum og vikum.

Það er sorglegt að mikilvægi opinberra starfa endurspeglast oftar í þeim glundroða sem verkföll valda en þeim kjörum sem störfunum fylgja. Við þurfum skóla, sambýli, hjúkrunarheimili, sjúkrahús og snjómokstur – svo fátt eitt sé nefnt.

Ótraustur grunnur 
Reynt hefur verið að gera lífskjarasamninginn að einhverskonar samfélagslegri þjóðarsátt. Ýmsir hagaðilar hafa veifað honum yfir höfði þeirra stétta sem nú sitja við samningaborðið eins og sleggju. Launagreiðendur láta eins og þeir séu siðferðilega skuldbundnir að virða hann (það sáum við t.d. í kjarabaráttu blaðamanna sem óljóst er hvernig leidd verður til lykta).

Þegar glansmyndinni er flett burt er ljóst að lífskjarasamningurinn gat aldrei orðið sá trausti grunnur sem talað var um. Hann var miklu heldur vopnahlé þeirra aðila sem þá sátu við samningaborðið – og nánast ótengdur þeim sem enn áttu ósamið. Róttæku öflunum á almennum markaði var hann nauðasamningar í kjölfar þess efnahagsáfalls sem hrun WOW leiddi af sér. Það þarf engum að koma á óvart að fólk brjótist undan slíkum samningum um leið og færi gefst.

Ábyrgð stjórnvalda er því mikil. Þau þurfa nú, bæði í landsmálum og á sveitarstjórnarstiginu, að stíga fram og greiða götu sáttar. Það er enn möguleiki en svigrúmið fer þverrandi. Stór verkfallsár hafa verið á 4,6 ára fresti í nokkra áratugi. Fái sagan að endurtaka sig verður 2020 einmitt slíkt ár.

Sé ætlunin að sagan endurtaki sig ekki þarf að læra af henni. Því miður bendir ýmislegt til þess að íslenskt samfélag sé tornæmt á slíkan lærdóm.

Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ. 

 

Tengt efni