is / en / dk

20. Desember 2019

Fræðsluráð Reykjanesbæjar ætlar að grípa til aðgerða er varðar starfsumhverfi í leikskólum bæjarins. Þetta kom fram á fundi fræðsluráðs í byrjun mánaðarins en á fundinum var tekin fyrir Skýrsla starfshóps um bættar starfsaðstæður í leikskólum. Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi kynnti skýrsluna. Í fundargerð fræðsluráðs segir að í skýrslunni komi fram margar gagnlegar tillögur til að styrkja starf leikskóla bæjarins.

Það er mat fræðsluráðs að til þess að leikskólar bæjarins verði áfram „eftirsóknarverðir vinnustaðir fyrir þá sem þar starfa sem og eftirsóknarverðir vinnustaðir fyrir einstaklinga sem eru að leita sér að framtíðarstarfi sé fullt tilefni til að grípa til aðgerða í samræmi við tillögur skýrslunnar,“ segir í fundargerð ráðsins.

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir félagið fagna áformum Reykjanesbæjar. „Þetta er mikilvægt innlegg í kjaraviðræðurnar sem nú standa yfir. Markmið okkar er að sjálfsögðu að vinna að bættu starfsumhverfi í leikskólum og fjölga leikskólakennurum um land allt og stór þáttur í því er starfs- og vinnutími,“ segir Haraldur og bætir við að tillögur Reykjanesbæjar nú séu í samræmi við áform og aðgerðir sem mörg sveitarfélög hafa verið að vinna að.

Aukinn undirbúningstími, yfirvinnugreiðslur og frí milli jóla og nýárs
Fræðsluráð Reykjanesbæjar leggur meðal annars til að sviðsstjóra fræðslusviðs verði falið að vinna, í samráði við stjórnendur leikskóla, að því auka undirbúningstíma leikskólakennara og deildarstjóra.
„Þessu til viðbótar skal búið að rýmka heimildir leikskólastjóra vegna yfirvinnugreiðslna fyrir undirbúning frá upphafi starfsárs 2020,“ segir í fundargerð fræðsluráðs frá 6. desember.

Fræðsluráð leggur jafnframt til stuðningur við starfsfólk í leikskólakennaranámi verði aukinn; meðal annars með því að Reykjanesbær endurgreiði starfsfólki sínu sem stundar nám samhliða vinnu í leikskólakennarafræðum aðstöðu- og próftökugjald hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum.

Þá felur fræðsluráð sviðstjóra að útfæra tillögu þess efnis að gera vinnufyrirkomulag sambærilegt öðrum skólastigum. „Fyrsta skrefið í því er að leikskólar bæjarins verða lokaðir á milli jóla og nýárs frá og með árinu 2020,“ segir í fundargerðinni.

Fundargerð 328. fundar fræðsluráðs Reykjanesbæjar. 
 


 

Tengt efni