is / en / dk

20. Janúar 2020

Félag stjórnenda leikskóla styður tillögur skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur um breyttan opnunartíma leikskóla og tekur undir áhyggjur af of löngum dvalartíma barna í leikskólum. 

Samkvæmt lögum um leikskóla er leikskólinn fyrsta skólastigið í skólakerfinu og er hann fyrir börn undir skólaskyldualdri. Leikskóli annast að ósk foreldra uppeldi, umönnun og menntun barna á leikskólaaldri en er ekki eingöngu þjónustustofnun. 

Samkvæmt gögnum OECD frá árinu 2017 þá er dvalartími barna í leikskólum lengstur á Íslandi og er með þessum tillögum verið að bregðast við þeirri stöðu.

Félag stjórnenda leikskóla tekur heilshugar undir að styttur opnunartími mun draga úr álagi á börn, starfsfólk og stjórnendur. 

Þegar tillögurnar hafa náð fram að ganga þá hafa fjögur af fimm stærstu sveitarfélögum landsins stytt opnunartíma sinn á sambærilegan hátt. 

Hlúum að börnunum okkar, styðjum við og samþykkjum framkomnar tillögur meirihluta skóla- og frístundaráðs um styttingu opnunartíma leikskóla í Reykjavík. 

 

Stjórn Félags stjórnenda leikskóla

20. janúar 2020

 

Leikskólastjórar í Reykjavík hafa einnig ályktað um sama mál:

Leikskólastjórar í Reykjavík styðja heilshugar tillögu stýrihóps um bætt starfsumhverfi í leikskólum borgarinnar. Ein af tillögunum er stytting opnunartíma leikskóla í Reykjavík en styttri opnunartími eykur gæði leikskólastarfsins, dregur úr álagi og streitu bæði hjá börnum og kennurum. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru íslensk börn með lengstan dvalartíma barna í Evrópu og eru tillögurnar liður í að stytta tímann. Leikskólastjórar taka undir orð Sigrúnar Huldu leikskólastjóra Urðarhóls í Kópavogi, þess efnis að það sé lýðheilsumál að stytta dvalartíma barna í leikskólum.

 

Tengt efni