is / en / dk

03. Febrúar 2020

Þau tímamót urðu í morgun að skrifstofa Kennarasambandsins var opnuð í fyrsta sinn í Borgartúni 30. Flutningar hafa staðið yfir síðustu viku og hefur starfsfólk KÍ unnið mikið og gott verk við að koma sér fyrir á nýjum stað.

Aðdragandi þess að Kennarasambandið flytur er orðinn langur en húsnæðismálin hafa verið til umræðu á öllum þingum KÍ síðan árið 2005 og því eru um 15 ár síðan markvisst var farið að leita leiða við að leysa húsnæðisvanda Kennarasambandsins.

Skrifstofa Kennarasambandsins er staðsett á sjöttu hæð í húsinu við Borgartún 30. Það er ánægjulegt að greina frá því að hið nýja húsnæði er hannað með þarfir félagsmanna í huga og aðgengismál eru fyrsta flokks – en sú var ekki raunin í Kennarahúsinu. Þá er aðstaða til funda, smærri sem stærri, afar góð í Borgartúninu sem og vinnuaðstaða starfsfólks.

„Þetta er stór stund í sögu KÍ og við lítum björtum augum til framtíðar í nýju húsnæði. Þetta er mikilvæg breyting og liður í því að byggja upp starfsemi sambandsins og veita félagsmönnum enn betri þjónustu,“ segir Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ.

Framtíð Kennarahússins er óráðin en samræður KÍ við stjórnvöld standa yfir. Það er vilji KÍ að leita leiða við halda húsinu í sinni vörslu áfram.

Tengt efni