is / en / dk

Frumvarp til nýrra laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla hefur verið lagt inn í samráðsgátt stjórnvalda. Meðal breytinga sem lagðar eru til í frumvarðinu er að gefið verður út eitt leyfisbréf til kennslu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi í stað þriggja. 

Á þessari síðu er finna ályktarnir, pistla og fréttir um „leyfisbréfamálið“. Hægt er að kynna sér frumvarpið  og senda inn umsögn og eða ábendingar á samráðsgátt stjórnvalda. 

Hægt er að senda greinar, ályktanir og annað á utgafa@ki.is.

 

Umsagnir


Hér fyrir neðan verða settar inn umsagnir um leið og þær berast. Nýjasta efnið verður ávallt sett efst.

 

Umsögn Kennarasambands Íslands
um frumvarp til laga um um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda
við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, 149. löggjafarþing 2018-2019, þingskjal 1262, 801. mál


Kennarasamband Íslands (KÍ) hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
 

KÍ fagnar þeirri áherslu sem hefur verið lögð á sveigjanleika og samráð í samningsferlinu. Reynslan hefur sýnt að það er öflug leið til framfara í menntamálum. KÍ minnir á nýlega úttekt Evrópumiðstöðvar á tilteknum þáttum íslenskrar skólaþróunar sem gaf skýrt til kynna að innleiðingu breytinga í íslensku menntakerfi þurfi að fylgja meiri stuðningur og eftirfylgni. Þær viðamiklu breytingar sem nú er stungið upp á standa og falla með þeirri útfærslu og þeim stuðningi sem þeim fylgir.

KÍ vill sérstaklega vekja athygli á fjórum meginatriðum í umsögn sinni:

 1. Hæfniramma
 2. Matsnefnd
 3. Kennararáði
 4. Ráðningum og auglýsingum
   

ATHUGASEMDIR KÍ VIÐ EINSTAKAR GREINAR FRUMVARPSINS

Umsögn KÍ um 3 og 4. gr.
Almennt má segja um almennu hæfniviðmiðin að þau einkennist af anda núgildandi menntastefnu. Með því að leggja áherslu á hæfni með þeim hætti sem gert er verður til ákveðið samræmi í íslensku menntakerfi. Í lögunum eru sett fram bæði almenn og sérhæfð hæfniviðmið sem „nýtast sem leiðsögn um inntak kennaramenntunar, eru viðmið um skilyrði fyrir leyfisbréfi, eru grunnur að innra og ytra mati á gæðum skólastarfs, veita leiðsögn um starfsþróun og endurmenntun kennara og veita leiðsögn við ráðningu kennara.” Nálgun út frá hæfniviðmiðum er ekki einföld og því er afar mikilvægt að útfærslan sé vönduð og ígrunduð sem og að nægur sveigjanleiki sé til staðar til að bregðast við mögulegum álitamálum og umbótum. Það kann að vera flókið að byggja ákvarðanir, t.d. við ráðningar, á almennum og opnum viðmiðum og erfitt getur reynst að velja hæfasta einstaklinginn úr hópi umsækjenda.

Einstök viðmið kunna að vera svo metnaðarfull að hæpið sé að kennari, sérstaklega við upphaf starfsævinnar, uppfylli þau í raun og veru. Þar sem hæfniviðmið hafa í þessari útfærslu mikið vægi á öllum sviðum skólastarfs skiptir máli að þau séu raunhæfur grunnur sem byggja má á og séu það leiðarljós sem þeim er ætlað að vera á eðlilegan og sanngjarnan hátt.

Þá veldur nokkrum vanda að árekstrar eða ósamræmi getur komið upp milli þeirra hæfniviðmiða sem hér er kveðið á um og þeirra viðmiða sem stýra inntaki kennaramenntunar með gæðaviðmiðum íslenskra háskóla.

Þessari nálgun þarf því að fylgja verulegur stuðningur og leiðbeiningar. Þá þarf að vera til staðar kerfislægur sveigjanleiki og víðtækt samráð. Líklega fer betur á því að hæfniviðmiðin sjálf séu í reglugerð en lögum.
 

Umsögn KÍ um 5. gr.
KÍ fagnar því að gerðar séu sérhæfðar kröfur um stjórnendur í skólakerfinu. Mikilvægt er að menntun og starfsþróun stjórnenda einkennist af metnaði ekki síður en kennara.

KÍ telur eðlilegt að kennarar, t.d. í tónlistarskólum, sem uppfylla öll skilyrði laganna um hæfni og menntun geti í krafti þess hlotið þá viðurkenningu sem leyfisbréf er enda sé til opinber námskrá um starfsemi skólanna og uppbygging námsins sé í samræmi við annað kennaranám. Leggur KÍ því til að útfærsla á starfsréttindum í tónlistarskólum verði unnin í góðu samstarfi menntamálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og KÍ.

Illskiljanlegt er hvers vegna kennararáði er ætlað að eiga í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um hæfniramma þar sem gert er ráð fyrir að Samband íslenskra sveitarfélaga eigi fulltrúa í kennararáðinu. Þessi tvöfalda aðkoma er óþörf enda hlýtur að vera gert ráð fyrir því að allir fulltrúar í kennararáði starfi í nánu sambandi við bakland sitt.

KÍ bendir á að upptaka hæfniviðmiða er mikil breyting. Sú lágmarkshæfni sem kveðið er á um, hvort sem um er að ræða almenna eða sérhæfða hæfni, nær ekki til nema hluta kennaranáms til meistaragráðu. Þá er ekki gerður greinarmunur á uppeldis- og kennslufræði eftir aldri nemenda eða kennslugreinum. Þetta getur skapað erfiðleika við að tryggja gæða kennaramenntunar og dregið úr sérhæfingu.

Að öðru leyti vísar KÍ til umsagna einstakra aðildarfélaga um sérhæfð viðmið.
 

Umsögn KÍ um 7. gr.
Kennararáði er falið víðtækt hlutverk í frumvarpinu. Það hlutverk er þó enn mjög óljóst og því telur KÍ mikilvægt að skerpa verulega á formlegu hlutverki ráðsins. Þá þarf að skoða hlutverk þess og stöðu sérstaklega með hliðsjón af því samráði sem þegar er til staðar og hlutverki svipaðra kennararáða erlendis.

Starfshópur um framtíðarskipan kennaramenntunar frá árinu 2006 lagði á það áherslu að hér á landi yrði til kennararáð að írskri og skoskri fyrirmynd. Sú skipan sem nú liggur fyrir í drögunum er ekki nema að mjög takmörkuðu leyti í samræmi við hinar erlendu fyrirmyndir. Ástæða er til að skoða þennan þátt málsins sérstaklega. Kennararáð geta verið öflugur vettvangur til að standa vörð um fagmennsku og gæði í skólasamfélaginu. Til þess að svo geti verið þurfa þau vel skilgreind verkefni, umboð og stuðning. Ef horft er til Skotlands og Írlands sjáum við hve öflug slík ráð geta verið ef rétt er á málum haldið. KÍ vill því nota tækifærið til að hnykkja á þessu atriði sérstaklega. Þá bendum við á að kennararáði þarf að fylgja fjármögnun frá upphafi enda er það gert í þeim ríkjum sem hér um ræðir.

KÍ áréttar mikilvægi faglegs samráðs. Samkvæmt greinargerð frumvarpsins verður Samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda lagt niður verði frumvarpið að lögum. Samstarfsráð hefur á síðustu misserum unnið mjög mikilvægt starf við mótun og stefnumörkun starfsþróunar kennara. Verði samstarfsráðið lagt niður er mikilvægt að finna verkefnum þess farveg innan kennararáðsins og tryggja samstarf og aðkomu háskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sveitarfélaga og KÍ að starfsþróun kennara með skuldbindandi hætti. Þá væri mikilvægt að kennararáð hefði forystu í upplýsingaöflun, umræðu, stefnumótun og miðlun um starfsþróun kennara og skólastjórnenda.

Ljóst er af frumvarpinu að kennararáði er ætlað hlutverk við leiðsögn og ráðgjöf. Þó er ekki ljóst með hvaða hætti það á að sinna þessu hlutverki sínu eða gagnvart hverjum. Æskilegt er að hlutverk þess að þessu leyti sé afdráttarlaust og skýrt og að grundvöllur alls starfs ráðsins sé traustur og skuldbindandi, t.d. fjárhagslega, svo það geti sinnt þeim verkefnum sem því er ætlað.

Loks leggur KÍ til að í kennararáði eigi ekki aðeins sæti fulltrúar skólastiganna, heldur allra skólagerða sem heyra undir KÍ. Eins bendir KÍ á að erlendis eiga fulltrúar kennaranema gjarnan fulltrúa í kennararáðum. KÍ telur að slík tilhögun myndi styrkja starfsemi ráðsins.
 

Umsögn KÍ um 8. gr.
Mikilvægt er að nám sem viðurkennt er til kennsluréttinda hafi verulegt kennslufræðilegt inntak. KÍ fagnar því að háskólum sé treyst til að útfæra nám til kennsluréttinda með fjölbreyttum hætti. Sérstaklega er ánægjulegt að kennarar hafi val um Med og MT gráðu og að háskólar fái þannig viðtækari heimild til að útfæra réttindanámið.
 

Umsögn KÍ um 9. gr.
Að því gefnu að öflugt og virkt samráð sé um kennaramenntun, t.d. á vettvangi kennararáðs, telur KÍ eðlilegt að háskólarnir séu leiðandi í inntaki kennaramenntunar og útgáfu leyfisbréfa.

KÍ leggur mikla áherslu á að matsnefnd, sambærileg þeirri sem kveðið er á um í 7. gr. núgildandi laga, starfi áfram. Matsnefndin hefur reynst mjög mikilvægur vettvangur við úrlausn mála sem geta verið flókin. Þar skiptir öllu máli hið víðtæka samráð sem haft er í starfi nefndarinnar og víðtæk þekking þeirra sem nefndina skipa. KÍ dregur í efa að breyting á starfi matsnefndar leiði til einföldunar á mati á námi, heldur muni þvert á móti gera matið flóknara og verra.
 

Umsögn KÍ um 10. gr.
Þar sem aðildarríki EES og EFTA gera mismunandi kröfur til þess að öðlast réttindi til kennslu er mikilvægt að tryggja að til þess að hljóta leyfisbréf til kennslu á Íslandi sé ekki aðeins nauðsynlegt að vera með réttindi til kennslu í öðru EES eða EFTA ríki heldur þurfi viðkomandi einstaklingur að uppfylla sambærileg skilyrði t.d. að því er varðar lengd og inntak náms og þarf til að öðlast leyfisbréf til kennslu á Íslandi skv. íslenskum lögum.

Því telur KÍ að meta þurfi í einstökum tilvikum hvort kennarapróf, tekin erlendis, uppfylli þær menntunar- og hæfnikröfur sem gerðar eru til kennara hér á landi, að teknu tilliti til þeirra laga og reglna sem gilda um slíkt mat. Það mat ætti að mati KÍ að vera á hendi matsnefndar.
 

Umsögn KÍ um 11. gr.
KÍ telur eðlilegt að kröfur um ráðningar til starfa með börnum og ungmennum séu samræmdar við ákvæði Æskulýðslaga nr. 70/2007.

Það er mikilvægt að ekki séu gerðar minni kröfur um ráðningar í skólum en í æskulýðsstarfi. Því er rétt að bætt sé við setningunni „Sama gildir um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum.“ við 3. mgr. 11. gr.

Óheimilt er að ráða einstakling til starfa við leik-, grunn- og framhaldsskóla sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga.“ Því er mikilvægt að þeir einstaklingar sem taka ákvörðun um ráðningu séu bæði búnir að fá umboð til að afla gagna frá sakaskrá og fá sakavottorð áður en lokaákvörðun um ráðningu er tekin. Ekki er nægjanlegt að fá aðeins umboðið þegar slík ákvörðun er tekin eins og fram kemur í athugasemdum við 11. gr. frumvarpsins. Lagt er til að 3. mgr. 11. gr. yrði eftirfarandi:

Óheimilt er að ráða einstakling til starfa við leik-, grunn- og framhaldsskóla sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Sama gildir um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð frá sakaskrá.
 

Umsögn KÍ um 12. gr.
Fram kemur að ekki sé skylt að auglýsa þau störf sem getið er um í 17. gr. Vísað er til athugasemda KÍ við 17. gr. Mikilvægt er að 17. gr. verði skipt upp í þrjár málsgreinar og að þessi undantekning að því er varðar undanþágu auglýsingaskyldu eigi aðeins við um 1. og 3. mgr. 17 gr. en ekki sérstaklega um sérfræðinga sem sinna kennslu bók- og list- og tungumálanáms.

Eðlilegt er að Menntamálastofnun hafi einnig samráð við KÍ varðandi gerð leiðbeininga um verklag við ráðningar kennara enda er m.a. kveðið á um auglýsingar í kjarasamningum. Lagt er til að 3. mgr. 12 gr. orðist með eftirfarandi hætti:

Menntamálastofnun gefur út leiðbeiningar um verklag við ráðningar kennara og stjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla að höfðu samráði við ráðuneytið, ráðuneyti sem fer með starfsmannamál ríkisins, Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.
 

Umsögn KÍ um 16. gr.
Taka þarf fram hver ráði skólameistara í framhaldsskólum.
 

Umsögn KÍ um 17. gr.
Þessari grein þarf að skipta í þrjár málsgreinar þannig að önnur málsgrein hefjist á: „Gert er ráð fyrir…“, sbr. umsögn KÍ um 12. grein.

Orðalag greinarinnar er enn fremur óskýrt og frábrugðið orðalagi núgildandi laga þrátt fyrir að fram komi í athugasemdum við greinina í frumvarpinu að greinin eigi að vera efnislega sambærileg við 2. og 3. mgr. 11. gr. og 16. gr. í núgildandi lögum. Ætla má að verði orðalagi greinarinnar ekki breytt til samræmis við orðalag núgildandi laga þá kunni greinin að vera túlkuð með gjörólíkum hætti en framangreindar greinar í núgildandi lögum.
 

Heimild til ráðningar:
Samkvæmt 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 annast framkvæmdastjóri viðkomandi sveitarfélags ráðningu annarra starfsmanna en þeirra sem sinna æðstu stjórnunarstöðum hjá sveitarfélaginu nema annað sé ákveðið í samþykkt eða almennum fyrirmælum viðkomandi sveitarfélags. Vissulega hafa mörg sveitarfélög sett inn í samþykktir sínar að forstöðumenn viðkomandi stofnana (skólastjórar eða skólastjórnendur í tilvikum leik- og grunnskóla) hafi heimild til ráðninga en ekki er hægt að alhæfa að slíkt sé tekið fram í samþykktum allra sveitarfélaga.

Af orðalagi 17. gr. („Skólastjórnendum er heimilt að ráða“) má ætla að búið sé að veita öllum skólastjórnendum heimild til að ráða starfsmenn til starfa í skólum sveitarfélaga. Það er eðlilegt og því hið besta mál að skólastjórnendur hafi slíkt vald en mikilvægt er að hafa í huga að ef gefa á öllum skólastjórnendum fullt vald til ráðninga starfsmanna í skólum þá er mikilvægt að breyta orðlagi sveitarstjórnarlaga til samræmis við það. KÍ gerir ekki athugasemd við að skólastjórnendum verði falið vald með lögum til að ráða starfsmenn skóla.
 

Ráðning sérfræðinga sem ekki hafa rétt til að nota starfsheitið kennari:
Af orðlagi 1. mgr. 17. gr. frumvarpsins má skilja að heimilt verði að ráða sérfræðinga í grunn- og framhaldsskóla til allt að 12 mánaða til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga án auglýsingar og án þess að málið fari fyrir undanþágunefnd. KÍ gerir alvarlega athugasemd við greinina. Þessi heimild er ekki til staðar í núgildandi lögum nema um sé að ræða sérfræðing sem kennir sérgrein sína og að kennsla nemi 240 mínútum eða minna á viku. KÍ leggst gegn því að sú heimild verði víkkuð út.

Fjölmörg dæmi eru um alvarleg brot á lögum um ráðningar og þess eru jafnvel dæmi að blekkingum sé beitt. Sem dæmi má nefna:

 • Auglýsingar sem byggja á ómálefnalegum sjónarmiðum, t.d. að auglýst sé eftir kennara sem ekki er kominn með kennsluaflslátt.
 • Ráðning einstaklinga sem ekki hafa leyfisbréf til fullrar kennslu án þess að það sé borið undir undanþágunefnd.
 • Undanþágunefnd hafa vísvitandi verið sendar rangar upplýsingar.
   

Erfitt hefur verið að taka á slíkum málum enda skortir í mörgum tilfellum viðurlög. Það skal því ítrekað að KÍ leggst alfarið gegn því að heimilt verði að ráða aðra en þá sem hafa rétt skv. þessu frumvarpi til að kalla sig kennara nema á grundvelli undanþágu undanþágunefndar eða að um sé að ræða sérfræðing sem er ráðinn tímabundið að hámarki eitt skólaár í senn til að kenna sérgrein sína, enda sé aðeins um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum eða minna á viku.
 

Lengd tímabundinnar ráðningar án auglýsingar
Í 16. gr. núgildandi laga stendur að tímabundinni ráðningu án auglýsingar megi beita sé afleysingu ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt. Nokkuð er um að starfsmenn fari í leyfi í einmitt 12 mánuði og því væri heppilegra að sá sem er ráðinn til afleysinga gæti leyst af í nákvæmlega 12 mánuði sem er einum degi meira en rúmast innan orðalagsins „skemur en 12 mánuði“. Verði orðalagið samþykkt óbreytt eins og það er í frumvarpinu væri heimilt að ráða kennara frá og með 1. ágúst 2020 til og með 30. júlí 2021 (í 364 daga) í stað frá og með 1. ágúst 2020 til og með 31. júlí 2021. Það myndi skapa óþarfa flækjur við uppgjör launa kennara m.a. vegna ávinnslu orlofs og sumarlaunahluta.
 

Samantekt
Lagt er til að 17. gr. verði orðuð með eftirfarandi hætti:

Sérstök tilvik við ráðningar í grunn- og framhaldsskóla

Kennsla skal falin kennurum sem þegar hafa ráðningu eftir því sem við verður komið. Heimilt er að ráða, án auglýsingar, kennara til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga, svo sem vegna orlofs, veikinda, fæðingarorlofs eða námsleyfis, enda sé afleysingu ætlað að standa í 12 mánuði eða skemur.

Gert er ráð fyrir að sérfræðingar sem sinna kennslu bók- og listnáms á 2.–4. hæfniþrepi og þriðja tungumáls í framhaldsskóla hafi að lágmarki þá hæfni sem krafist er við námslok á stigi 1.2. samkvæmt auglýsingu um útgáfu viðmiða um æðri menntun og prófgráður á viðkomandi fræðasviði.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að ráða sérfræðing tímabundið í tólf mánuði eða skemur til að kenna sérgrein sína, enda sé aðeins um að ræða kennslu sem nemur 240 mínútum eða minna á viku.
 

Umsögn KÍ um 18. gr.
Að gefnu tilefni telur KÍ ótækt að minnka valdsvið undanþágunefndar og fela Menntamálastofnun að veita undanþágur. Til að ná þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett um hæfni og menntun kennara þarf að vera til staðar öflugt aðhald gagnvart veitingu starfsheimilda á grundvelli undanþágu. KÍ leggur því ríkulega áherslu á að undanþágubeiðnir hljóti víðtæka, faglega og formlega meðferð hér eftir sem hingað til.
 

Umsögn KÍ um 1. mgr. 18. gr.
Ákvæðið felur í sér efnislega breytingu þrátt fyrir að fram komi í greinagerð í athugasemdum við 18. gr. frumvarpsins að ekki sé um efnislega breytingu að ræða. Í 17. gr. núgildandi laga er ekki gerð krafa um að ákvörðun um ráðningu á grundvelli þeirrar greinar sé í höndum sveitarstjórnar eða rekstraraðila í tilvikum sjálfstætt rekinna leikskóla. KÍ gerir setur sig ekki uppi á móti því að bera þurfi allar slíkar ráðningar undir framangreinda aðila enda er æskilegt að þeir fái góða yfirsýn yfir skort á kennurum en bendir á að um mikinn fjölda mála er að ræða ár hvert.
 

Umsögn KÍ um 2. og 3. mgr. 18. gr.
KÍ gerir alvarlega athugasemd við að undanþágunefnd taki ekki lokaákvörðun um veitingu undanþága.
 

Umsögn KÍ um 5. mgr. 18. gr.
KÍ er hlynnt því að upplýsingum sé safnað. Það er hins vegar ekki nóg að afla upplýsinga. Í lögum þurfa að vera viðurlög við vísvitandi brotum á lögum um ráðningar kennara.
 

Umsögn KÍ um 6. mgr. 18. gr.
Skilja má 1. mgr. 17. gr. frumvarpsins á þann veg að heimilt sé að ráða sérfræðing annan en kennara óháð ráðningarhlutfalli til allt að árs til að sinna kennslu án þess að auglýsa starfið. Er það mikil breyting frá núgildandi lögum þar sem sú undanþága gildir almennt aðeins um tímabundna ráðningu kennara sem hefur leyfisbréf á viðkomandi skólastigi og sérfræðinga sem kennir kennslugrein sína í 240 mínútur eða skemur á viku.

KÍ gerir alvarlega athugasemd við að heimilt verði að ráða aðra en kennara t.d. sérfræðinga til afleysinga án auglýsingar og án þess að ráðningin fari fyrir undanþágunefnd að því undanskildu að KÍ getur fallist á að heimilt sé að ráða sérfræðing tímabundið og aldrei til meira en eins árs í senn til að sinna kennslu á sérgrein sinni í 240 mínútur eða skemur á viku án auglýsingar og án þess að skylt sé að ráðningin fari fyrir undanþágunefnd. KÍ er fyrirmunað að skila hvernig orðalagið „og aðra sérfræðinga í 1. mgr. 17. gr. gat ratað inn í frumvarpið og er afar mikilvægt að þau orð falli út.
 

Umsögn KÍ um 7. mgr. 18. gr.
Eðlilegra væri að undanþágunefnd tæki ákvörðun um undanþágur og að málsaðili gæti skotið ákvörðun hennar til ráðherra. KÍ mótmælir því að Menntamálastofnun taki ákvörðun um hvort veita skuli undanþágur.
 

Umsögn KÍ um 8. mgr. 18. gr.
Eins og að framan greinir lítur KÍ svo á að undanþágunefnd eigi að taka ákvörðun um veitingu undanþága en ekki Menntamálastofnun. Það væri því eðlilegt að undanþágunefnd veitti heimild til lausráðningar ef við á.
 

Athugasemd um stöðu kennaranema í launuðu starfsnámi
KÍ bendir á óljósa stöðu kennaranema í launuðu starfsnámi. Meginreglan ætti ávallt að vera sú að störf séu auglýst jafnvel þótt kennaranemar séu ráðnir, enda sé stofnað til hefðbundins ráðningarsambands við þá til kennslustarfa. Að öðrum kosti má ætla að meginreglur stjórnsýslulaga séu brotnar þar sem nemar og kennarar hafa ekki kost á að sækja um lausar stöður séu þær ekki auglýstar. Þannig verður erfitt að upplýsa hver hefði verið hæfasti umsækjandinn og jafnræðis er ekki gætt. Það er ekki síst réttlætismál fyrir nema að nemastöður séu auglýstar svo allir kennaranemar hafi kost á að sækja um þær en ekki aðeins þeir sem eru vel tengdir inn í viðkomandi skóla. Auglýsingaskyldan er einn af hornsteinum jafnræðis að því er varðar ráðningar og er m.a. ætlað að koma í veg fyrir frændhygli og að tengsl hafi áhrif á hver sé ráðinn. Þá er auglýsingaskylda líkleg til að leiða til þess að fleiri sæki um viðkomandi starf og þar með sé úr fleiri umsækjendum að velja sem eykur líkurnar á að sá hæfasti sé ráðinn. Það væri mikil afturför ef takmarka á enn frekar auglýsingaskyldu. Þess má geta að sum sveitarfélög hafa kosið að setja

ítarlegri og strangari reglur en núgildandi lög kveða á um einmitt til að auka gagnsæi og stuðla að góðum stjórnsýsluháttum.

KÍ telur þó að málefnalegt geti verið að taka upp ákvæði, svipað því sem finnst í núgildandi lögum, sbr. 3. mgr. 18. gr., um undanþágu frá ítrekaðri auglýsingaskyldu vegna ráðningar kennaranema.
 

Virðingarfyllst,
f.h. Kennarasambands Íslands

Ragnar Þór Pétursson
Formaður KÍ

Anna María Gunnarsdóttir
Varaformaður KÍ

Anna Rós Sigmundsdóttir
Lögmaður KÍ

 


Umsögn skólamálanefndar Félags framhaldsskólakennara
um frumvarp til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda
við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, þingmál 801 á 149. löggjafarþingi 2018-2019


Frumvarpið sem nú hefur verið lagt fyrir vorþing er bæði óþarft og til óþurftar. Kennarar geta nú þegar kennt á öðrum skólastigum en þeir hafa leyfisbréf fyrir og frumvarpið gerir ekkert til þess að laga atgervisflóttann úr kennarastéttinni sem er brýnasta verkefnið í menntamálum þjóðarinnar.

Ákvæði í frumvarpsdrögunum um menntun og hæfni kennara verða beinlínis til þess að gjaldfella fagmenntun í landinu og bera í sér grundvallar stefnubreytingu í menntamálum þjóðarinnar. Stjórnvöld hafa boðað stórsókn í menntamálum, framfarir, nýsköpun og þróun. Slík sókn ætti að fela í sér metnað til þess að efla kennara í starfi, styðja á allan hátt við starfsþróun og alvöru samkeppni um vel menntað og hæft fólk í kennslu allra greina. Í staðinn bendir frumvarp menntamálaráðuneytisins til þess að ekki verði gripið til alvöru aðgerða við kennaraskorti og að kröfur um fagmenntun verði minnkaðar. Slíkt getur ekki skoðast öðruvísi en meiriháttar stefnubreyting í menntamálum sem gengur í berhögg við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar.

Skólamálanefnd Félags framhaldsskólakennara skorar á Allsherjar- og menntamálanefnd að fresta afgreiðslu þessa frumvarps og boða þess í stað til almennrar umræðu um það hvernig skólakerfi þjóðin vill.

Að öðru leyti lýsir Skólanefnd Félags framhaldsskólakennara við fullum stuðningi við alla liði í umsögn Félags framhaldsskólakennara sem send var á nefndasvið Alþingis þann 30. apríl 2019.
 

Fyrir hönd skólamálanefndar Félags framhaldsskólakennara,

Guðjón Hreinn Hauksson, framhaldsskólakennari,
formaður skólamálanefndar
og varaformaður Félags framhaldsskólakennara

 


Umsögn frá Kennarafélagi Menntaskólans á Akureyri
um þingmál 801, lagafrumvarpið menntun, hæfni og ráðning kennara og skólastjórnenda
við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla á 149. löggjafarþingi 2018-2019

 

Stjórn Kennarafélags Menntaskólans á Akureyri varar eindregið við því að svokallað kennarafrumvarp verði gert að lögum í óbreyttri mynd.

Meginmarkmið þessa frumvarps eru tvö:

Í fyrsta lagi er því haldið fram að flæði kennara milli skólastiga hafi ekki tekist vegna ágalla á gildandi lögum. Umræddur ágalli er talinn vera 21. grein laganna en samt sem áður liggur fyrir ársgömul staðfesting Umboðsmanns Alþingis þess efnis að greinin sé fullgild og tryggi til þess bærum kennurum full réttindi milli skólastiga. Nú liggur sömuleiðis fyrir álit sérfræðinga frá Landslögum sem staðfestir réttindi kennara milli skólastiga enn frekar. Það er því engin ástæða til að breyta lögum um menntun kennara til að tryggja kennurum starfsöryggi milli skólastiga. Það er fyrir hendi í lögunum. Vandinn liggur ekki í núgildandi lögum heldur í því að við ráðningar er farið á svig við lögin.

Seinna meginmarkmiðið er að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar með því að fjölga hæfum kennurum í skólum landsins. Hvernig má vera að það markmið náist með því að minnka menntunarkröfur til kennara og þar með veikja faglegan grundvöll starfsins? Í núgildandi stjórnarsáttmála segir „Mikilvægt er að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum.“ Þetta er ekki leiðin til þess.

Um þessar mundir sinna þúsundir kennara öðrum störfum en kennslu þar sem hærri laun og betri starfsaðstæður eru í boði. Nærtækast væri að laða þetta fólk til kennslu á ný með aðgerðum sem virka. Aðgerðir í stórsókn ráðherra um launað starfsnám og námsstyrk á leik- og grunnskólastigi hafa þegar skilað árangri því nemendum í kennaranámi hefur fjölgað. Því má ljóst vera að eina leiðin sem virkar til að fjölga hæfum kennurum er að bæta kjör þeirra og starfsaðstæður.

 

 

UMSÖGN FÉLAGS FRAMHALDSSKÓLAKENNARA
um frumvarp til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda
við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla

 

Félag framhaldsskólakennara varar við framlögðu frumvarpi sem dregur verulega úr menntunar- og gæðakröfum til kennara á öllum skólastigum, dregur úr mikilvægri sérhæfingu sem gerð er krafa um í núgildandi lögum og flækir ráðningarferli verulega þar sem kröfur og þarfir eru augljóslega mismunandi milli skólastiga.

Sagt er að markmiðið með frumvarpinu sé að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar með því að fjölga hæfum kennurum í skólum landsins. Þúsundir menntaðra kennara sinna nú öðrum störfum í þjóðfélaginu fyrir hærri laun og betri starfsaðstæður og vandséð að breytt útgáfa leyfisbréfa til kennslu muni laða hæfa kennara að nýju til starfa í kennslu.

21. grein núgildandi laga heldur fyllilega og dugar fyrir heimild kennara til kennslu á aðliggjandi skólastigi og tryggir réttindi og starfsöryggi kennara eins og reifað er af Umboðsmanni Alþingis og í meðfylgjandi álitsgerð um gildi greinarinnar frá Landslögum.

Félag framhaldsskólakennara óskar eftir því að afgreiðslu frumvarpsins verði að minnsta kosti frestað fram á næsta löggjafarþing og látið reyna á 21. grein núgildandi laga og breytt ákvæði um starfsréttindi í kjarasamningum kennara áður en lög eru keyrð í gegn í andstöðu við vilja og faglegt mat framhaldsskólakennara.

Þegar gildandi lög nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla voru samþykkt, var orðið brýnt að skerpa á kröfum um kennaramenntun. Þótti við hæfi að gera ýtrustu kröfur til kennara á öllum skólastigum til að tryggja gæði menntunar í landinu og var kennara¬námið lengt úr þremur árum í fimm. Við skilgreiningu laganna var lögð áhersla á að líta til aukinnar menntunar, meiri færni og dýpri þekkingar, bæði í faggrein og kennslufræðum. Vert er að minna á að frá árinu 1998 hefur útgáfa leyfisbréfa til kennslu í framhaldsskóla verið bundin við tilteknar faggreinar. Furðu sætir að draga úr þessum kröfum nú þegar mikilvægt er að skapa og viðhalda forskoti í menntun þjóðarinnar.

Menntunarskilyrði til að öðlast starfsheiti og starfsréttindi grunn- og framhaldsskólakennara voru aukin árið 2008. Með þeim lögum var kennaramenntun færð nær því sem við þekkjum í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Lögin voru sett í góðri sátt við kennarasamtökin á Íslandi. Í ljósi sögunnar getur ekki talist ráðlegt að draga nú úr menntunarskilyrðum né breyta lögunum án sáttar við þær stéttir sem lögin ná til. Vert er að geta þess að í nágrannalöndunum er útgáfa leyfisbréfa bundin við tiltekin skólastig og alls staðar áhersla á sérhæfingu hvers skólastigs.

Eitt megineinkenni kennarastarfsins við upphaf 21. aldar er að ólíkum viðfangsefnum á verksviði kennara fjölgar jafnt og þétt um leið og kröfur um fagþekkingu og sífellda aðlögun hennar að breytingum, jafnt á fræðasviðum og í samfélaginu, hafa vaxið. Allir geta gúgglað en kennarans er að yfirfæra og tengja, sannreyna, íhuga og gagnrýna. Tæknibreytingar hafa áhrif á menntun og atvinnulíf en rannsóknir sýna að störf sem verða unnin á næstu áratugum krefjast sérhæfingar og góðrar menntunar. Þar mun gott skólakerfi með sérhæfðum kennurum vera í lykilhlutverki.

Aðgerðir til að koma í veg fyrir kennaraskort eru ein stærsta áskorun íslenskra stjórnmála en ekki verður séð hvernig kennurum fjölgar þótt leyfisbréfið verði eitt á ólíkum skólastigum. Aðgerðir sem stjórnvöld grípa til mega ekki draga úr gæðum náms og kennslu né verða til þess að fagmennsku og hæfni kennara verði fórnað. Aðgerðaráætlun mennta- og menningarmálaráðherra mun vonandi verða til þess að laða fleiri að kennaranámi. En ekki er fjallað um framhaldsskólakennara í þeim tillögum enda hefur nýliðun meðal framhaldsskólakennara farið vaxandi undanfarið og ástæðar er einföld: betri aðbúnaður um starfið, fjöl¬breyttir möguleikar á endurmenntun og hærri launasetning framhaldsskólakennara sem ávannst í kjarasamningi frá 2014.
 

Félag framhaldsskólakennara gerir eftirfarandi athugasemdir við frumvarp til laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, 149. löggjafarþing 2018-2019. Þingskjal 1262 - 801. mál. Stjórnarfrumvarp.

 

HÆFNIVIÐMIÐ, 3.-4.GREIN
Í frumvarpinu eru sett fram almenn hæfniviðmið sem eiga að gilda við ráðningar og um menntun kennara, vera skilyrði fyrir leyfisbréfi og matsgrunnur. En þau eru þannig úr garði gerð í frumvarpinu að hvorki er hægt að fylgja þeim eftir né mæla með formlegum kvörðum. Hvernig á t.d. að meta hvort kennari hafi velferð að leiðarljósi í starfi sínu, sbr. 4. grein, b-lið? Hvernig á að meta almenna hæfni nýs kennara skv. 4. grein, töluliðum a-e, ef hann hefur enga kennslureynslu?

Óvenjulegt er að binda almenn hæfniviðmið í lög og löngu búið að sannreyna hæfni kennara með því að brautskrá þá úr kennaranámi. Löng hefð er fyrir faglegu trausti sem er tryggt með kröfu um kennaramenntun skv. lögum 87/2008.

Kennarar fylgja settum siðareglum og hæfniviðmið þessi eru síst til þess fallin að auka virðingu fyrir starfinu eða laða kennara að. Hæfniviðmið í lögum tíðkast ekki á Norðurlöndunum og ekki hefur verið sett fram sú hugmynd að lögfesta hæfniviðmið annarra starfsstétta, s.s. lækna eða lögfræðinga svo dæmi séu tekin.

 

SÉRHÆFÐ HÆFNI KENNARA, 5. GREIN
Kröfur til menntunar kennara mega síst vera lakari á Íslandi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í frumvarpinu er því miður dregið úr kröfum til sérhæfðrar menntunar og er veruleg hætta á að það halli á sérgreinakennslu í framhaldsskólum, verði það að lögum. Í greininni er fjallað um þá sérhæfingu sem kennari þarf að búa yfir til kennslu í framhaldsskóla. Þar er gerður greinamunur á kennslu fyrsta þreps áfanga (byrjunaráfanga) og 2. til 4. þreps áfanga. Vegna kennslu efri þrepa er þess í öllum tilfellum krafist að viðkomandi hafi að lágmarki grunnháskólagráðu til kennslu í bóklegum greinum. En vegna kennslu fyrsta þreps áfanga er einungis gerð sú krafa að viðkomandi hafi sérhæfingu sem nemur 90 einingum í kennslugrein sem samsvarar einu og hálfu námsári.

Vegna kennslu þriðja tungumáls skal viðkomandi hafa að lágmarki lokið námi á stigi 1.2 í háskóla sem er BA-gráða. Nær allir kenndir áfangar í þriðja tungumáli framhaldsskóla eru fyrsta þreps áfangar á meðan danska og enska er almennt kennd á 2. þrepi. Þversögnin felst því í að einungis 90 eininga sérhæfingu þarf til kennslu þeirra greina sem í framhaldsskóla eru aðallega kenndar á efri þrepum á meðan gerð er krafa um BA-gráðu vegna kennslu þriðja tungumáls sem er nær einungis kennt á fyrsta þrepi.

Samkeppnishæfni í raungreinum og tækni er lykill að velferð til framtíðar, tungumálakunnátta er mikilvæg á alþjóðavettvangi, móðurmál og félagsgreinar styrkja sjálfsmynd okkar og velferð í samfélagi. Mikilvægt er sem aldrei fyrr að kennarar í framhaldsskólum búi yfir djúpri og haldgóðri menntun í sinni sérgrein og er engan veginn fullnægjandi að íslenskukennarar og raungreinakennarar í framhaldsskólum geti mögulega haft einungis eins og hálfs árs nám að baki í þeirri grein sem þeir kenna.

 

KENNARARÁÐ, 7. GREIN
Aðkoma kennara sjálfra að fyrirhuguðu kennararáði er mun minni en aðkoma þeirra að núverandi mats- og undanþágunefnd. Þar eiga kennarar nú 5 fulltrúa af 12 en fá 3 af 11 í kennararáði. Það er ekki heillavænleg þróun. Með kennararáði fer forræði frá þeim sem hafa sérhæft sig í því að mennta kennara. Kennarar munu þá hafa minna um það að segja en áður hver þróun inntaks kennaranáms verður. Kennarar sjálfir eru best til þess fallnir af öllum sérfræðingum að fjalla um nám, kennslu og menntun.

Hlutverk kennararáðs (7. grein, 1.-6. töluliður) er m.a. að veita ráð um hvernig meta skuli sérhæfingu kennara við ráðningu. Óljóst er hvernig að þessu verður staðið og óljóst hvaða formlega umboð kennararáð fer með.

 

LEYFISBRÉF OG FLÆÐI MILLI SKÓLASTIGA, 8.-9. GREIN
Í frumvarpinu er sett fram hugmynd um að eitt leyfisbréf gildi fyrir alla kennara, óháð sérhæfingu á skólastigi eða í faggrein, með þeim rökum að það verði til þess að fleiri velji sér kennslu sem ævistarf, laun kennara muni hækka og starfsöryggi þeirra verði tryggt, starfi þeir á aðliggjandi skólastigi. Á það skal bent að í núgildandi lögum er einmitt gert ráð fyrir að kennarar kenni á aðliggjandi skólastigi að gefnum forsendum.

Eins og reifað er í greinargerð Umboðsmanns Alþingis nr. 9624/2018 og áliti Gríms Sigurðssonar hjá lögfræðistofunni Landslögum þarf framhaldsskólakennari sem ræður sig til kennslu sinnar faggreinar í 8. til 10. bekk grunnskóla ekki að sækja um leyfi undanþágunefndar. Það þýðir að hann er jafnsettur lögunum og grunnskólakennari, enda fellur menntun hans og skilyrði fyrir ráðningu að 21. grein núgild¬andi laga nr. 87/2008 þar sem segir: „Leyfisbréf framhaldsskólakennara veitir honum heimild til kennslu á sérsviði sínu í 8.-10. bekkjum grunnskóla.“ Það er ekkert því til fyrirstöðu að ráða annan hvorn ótímabundið og skýrt að ekki þarf að leita heimildar undanþágunefndar.

Í áliti Umboðsmanns Alþingis nr. 9624/2018 er fjallað um launasetningu framhaldsskólakennara sem kennir í grunnskóla á grundvelli 21. greinar núgildandi laga. Þar bendir Umboðsmaður á að um launasetningu kennara í grunnskólum gildi kjarasamningur Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nánari ákvarðanir um launasetningu eru til umfjöllunar hjá samstarfsnefnd samningsaðila. Ekkert í lögum eða reglugerðum kemur í veg fyrir að framhaldsskólakennarar í grunnskólum eða grunnskólakennarar í framhaldsskólum séu launasettir að jöfnu. Það er viðfangsefni samningsaðila og þarf ekki lagabreytingu til. Félag framhaldsskólakennara hefur t.d. gert kjarasamning við Fjölmennt þar sem kennarar eru jafnt launasettir óháð því hvort þeir hafi leyfisbréf til kennslu í leik-, grunn- eða framhaldsskóla.

Félag framhaldsskólakennara telur ekkert í núgildandi lögum koma í veg fyrir að starfsöryggi og jafnræði kennara sem starfa á aðliggjandi skólastigum sé tryggt.

 

RÁÐNINGAR, 11. GREIN
Það er afar óljóst í frumvarpinu hvernig fara á með forgang umsækjanda til ráðningar. Lögverndun starfsheitis kennara felur í sér forgang þegar ráðið er í starf til kennslu.

Tökum sem dæmi:
Umsækjandi 1: Kennari með B.Ed. próf en 90 eininga sérhæfingu í stærðfræðikennslu grunnskólanemenda.
Umsækjandi 2: Stærðfræðingur með meistaragráðu í stærðfræði án kennsluréttinda.

Hvorn skal ráða? Samkvæmt 11. grein frumvarpsdraganna skal umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið kennari og hafa þá sérhæfingu sem tilgreind er í auglýsingu. Á grundvelli þess ber að ráða þann sem hefur leyfisbréf til kennslu, s.s. þann sem hefur minni fagmenntun. Þessi stærðfræðingur gæti mögulega orðið fyrirtaks kennari, bætt við sig 60 einingum í kennslufræði og öðlast full starfsréttindi. Margir okkar bestu framhaldsskólakennara hófu sinn kennsluferil einmitt svona.

 

AUGLÝSINGAR, 12. GREIN
Í 12. grein segir að mennta- og menningarmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga muni gefa sameiginlega út leiðbeiningar um verklag við ráðningar kennara og stjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla. Óljóst er hvað þetta felur í sér.

 

SÉRSTÖK TILVIK VIÐ RÁÐNINGAR Í GRUNN- OG FRAMHALDSSKÓLA, 17. GREIN
Gert er ráð fyrir að sérfræðingar sem sinna kennslu í framhaldsskólum uppfylli skilyrði um sérhæfingu. Byggir slíkt á veikum grunni samkvæmt orðalagi greinarinnar og er viðbúið að kærumálum muni fjölga talsvert þegar umsækjendur eru metnir á grundvelli sérhæfingar annars vegar og leyfisbréfs hins vegar. Hvert verður gildi lögverndunar starfsheitisins ef stjórnendum er í sjálfsvald sett hvort þeir ráða kennara eða sérfræðing til starfa?

 

AÐ LOKUM
Menntun framhaldsskólakennara er gjörólík menntun leik- og grunnskólakennara. Framhalds-skólakennarar eru fyrst og fremst sérfræðingar í sinni kennslugrein, með u.þ.b. 60 til 120 einingar í kennslufræðum og nálgast kennsluna á gjörólíkum forsendum en þegar um kennslu yngri barna er að ræða. Að mati Félags framhaldsskólakennara verður að taka tillit til sérstöðu stéttarinnar, því kennsla 18 ára ungmenna á lítið skylt við kennslu 8 ára barna þar sem uppeldisþáttur starfsins er veigameiri.

Frumvarp til nýrra laga um menntun kennara er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda sem miðar að því að auka nýliðun og fjölga kennaranemum meðal leik- og grunnskólakennara. Aðgerðir um launað starfsnám og námsstyrk á þessum tveimur skólastigum hafa þegar skilað árangri. En hvað varðar tillögu um eitt leyfisbréf svo ólíkra fagstétta sem leik- grunn- og framhaldsskólakennarar eru, er vandséð hvernig hún ætti að auka nýliðun. Bætt kjör og starfsaðstæður eru greinilega það sem virkar.

Félag grunn- og leikskólakennara og stjórnendafélög þeirra styðja hugmyndir um eitt leyfisbréf. Félag framhaldsskólakennara setur sig ekki upp á móti því að eitt leyfisbréf verði gefið út til kennslu í leik- og grunnskóla á forsendum þeirra kennara sem telja það skref til framfara. Hugsanlega er það nærtækt, þar sem mögulega má sjá fyrir sér að fyrsta námsár háskólanna verði eins fyrir þessi skólastig með sérhæfingu á síðari stigum, en sameiginlegir þræðir í menntun framhaldsskólakennara við menntun og kennslu yngri nemenda eru vandfundnir. Það er mikilvægt að hafa í huga að flestir framhaldsskólakennarar velja sér kennslu sem atvinnu að loknu sérgreinanámi og hafa oftar en ekki starfað um skeið við sína sérgrein utan skólakerfisins, meðan t.d. grunn- og leikskólakennarar sérhæfa sig í kennslufræði og stefna strax í upphafi náms síns á kennslu.

Það er umhugsunarefni ef Alþingi ætlar að samþykkja lög um menntun heillar starfsstéttar þvert á vilja hennar. Stétt framhaldsskólakennara stendur sameinuð að baki þeirri skoðun að með því að leggja að jöfnu leyfisbréf framhaldsskólakennara og kennara barna á grunn- og leikskólaaldri sé um að ræða afturför í fagmennsku kennara í framhaldsskólum landsins. Hún byggir fyrst og fremst á sérhæfingu hverrar kennslugreinar þar sem djúp þekking á viðfangsefninu er frumforsenda góðs kennara. Um þessar mundir sinna þúsundir menntaðra kennara á Íslandi öðrum störfum fyrir hærri laun og betri starfsaðstæður en starfandi kennurum bjóðast í grunn- og leikskólum. Það liggur í augum uppi að heilladrýgra væri að laða þetta fólk sem nú þegar hefur lokið námi til kennslu með aðgerðum sem ekki rýra gæði náms og draga úr nauðsynlegri sérhæfingu og hafa aðgerðir stjórnvalda sem fela í sér bætt kjör þegar sýnt að það virkar.

Meðfylgjandi er álit Gríms Sigurðssonar hjá lögfræðistofunni Landslögum þar sem færð eru rök fyrir því að 21. grein núgildandi laga og varðar heimildir kennara til kennslu á aðliggjandi skólastigum dugar og tryggir bæði réttindi og starfsöryggi kennara sem uppfylla skilyrði greinarinnar um menntun.

Launasetning verður ekki ákvörðuð af hálfu löggjafans, það er viðfangsefni samningsaðila og einfalt viðfangsefni næstu kjarasamninga að vinna að því. Ég árétta að mikil andstaða er við frumvarpið innan raða okkar félagsmanna, tæplega 700 framhaldsskólakennarar hafa skorað á ráðherra að falla frá þessum hugmyndum (var á https://listar.island.is/Stydjum/46) og kennarafélög 15 framhaldsskóla hafa ályktað formlega gegn frumvarpinu (sjá meðfylgjandi).


Reykjavík, 30. apríl 2019
Fyrir hönd stjórnar Félags framhaldsskólakennara,

Guðríður Eldey Arnardóttir formaður

 


 

UMSÖGN FÉLAGS FRAMHALDSSKÓLAKENNARA
um frumvarp til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda
við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla

Þegar gildandi lög nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla voru samþykkt, var orðið brýnt að skerpa á kröfum um kennaramenntun. Þótti við hæfi að gera ýtrustu kröfur til kennara á öllum skólastigum til að tryggja gæði menntunar í landinu og var kennaranámið lengt úr þremur árum í fimm. Við skilgreiningu laganna var lögð áhersla á að líta bæði til aukinnar menntunar, meiri færni og dýpri þekkingar bæði í faggrein og kennslufræðum. Vert að minna á að frá árinu 1998 hefur útgáfa leyfisbréfa til kennslu í framhaldsskóla verið bundin við tilteknar faggreinar. Félag framhaldsskólakennara varar því við hugmyndum í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum sem rýra menntunar- og gæðakröfur til kennara og draga úr sérhæfingu.
 

Menntunarskilyrði til að öðlast starfsheiti og starfsréttindi grunnskólakennara og framhaldsskólakennara voru aukin árið 2008 í samræmi við tillögur starfshóps um framtíðarskipan kennaramenntunar. Með þeim lögum var kennaramenntunin færð nær því sem við þekkjum í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Lögin voru sett í kjölfar samráðs og í góðri sátt við kennarasamtökin á Íslandi.

Við stöndum frammi fyrir stærri samfélagsbreytingum á næstu áratugum en nokkru sinni fyrr. Eitt megineinkenni kennarastarfsins við upphaf 21. aldar er að ólíkum viðfangsefnum á verksviði kennara fjölgar jafnt og þétt um leið og kröfur um fagþekkingu og sífellda aðlögun hennar að breytingum jafnt á fræðasviðum og í samfélaginu hafa vaxið. Tæknibreytingar hafa áhrif á menntun og atvinnulíf en rannsóknir sýna að störf sem verða unnin á næstu áratugum krefjast sérhæfingar og góðrar menntunar. Þar mun gott skólakerfi með sérhæfðum kennurum leika lykilhlutverk. Allir geta gúgglað en kennara er að dýpka þekkinguna, yfirfæra og tengja, sannreyna, íhuga og gagnrýna. 

Aðgerðir til að koma í veg fyrir kennaraskort eru ein stærsta áskorun íslenskra stjórnmála. En þær mega ekki draga úr gæðum náms og kennslu né verða til þess að fagmennsku og hæfni kennara verði fórnað. Aðgerðaráætlun mennta- og menningarmálaráðherra um fjölgun kennara mun vonandi verða til þess að laða fleiri nemendur í leik- og grunnskólakennaranám. En hafa ber í huga að ekki er fjallað um framhaldsskólakennara í þeim tillögum enda hefur nýliðun meðal framhaldsskólakennara farið vaxandi á undanförnum misserum og ástæðan er betri launasetning framhaldsskólakennara sem ávannst í kjarasamningi frá 2014.
 

Félag framhaldsskólakennara gerir eftirfarandi athugasemdir við frumvarpsdrög mennta- og menningarmálaráðherra um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, dagsett 22. febrúar 2019:
 

Hæfniviðmið, 1.-5.grein

Í frumvarpinu eru sett fram almenn hæfniviðmið sem eiga að gilda við ráðningar og um menntun kennara, vera skilyrði fyrir leyfisbréfi og matsgrunnur. En þau eru þannig úr garði gerð í frumvarpinu að hvorki er hægt að fylgja þeim eftir né mæla með formlegum kvörðum. Hvernig á t.d. að meta hvort kennari hefur velferð að leiðarljósi í starfi sínu, sbr. 4. grein, b-lið? Hvernig á að meta almenna hæfni nýs kennara skv. 4. grein, töluliðum a-e, ef hann hefur enga kennslureynslu?

Óvenjulegt er að binda almenn hæfniviðmið í lög og löngu er búið að sannreyna hæfni kennara með því að brautskrá þá úr kennaranámi. Löng hefð er fyrir faglegu trausti sem er tryggt með kröfum um kennaramenntun skv. lögum 87/2008.

Kennarar fylgja settum siðareglum og hæfniviðmið þessi eru ekki til þess fallin að auka virðingu eða laða fólk til starfsins. Hæfniviðmið í lögum tíðkast ekki á Norðurlöndunum og ekki hefur verið sett fram sú hugmynd að lögfesta hæfniviðmið annarra starfsstétta, s.s. störf lækna eða lögfræðinga svo dæmi séu tekin.
 

Kennararáð, 7. grein

Aðkoma kennara sjálfra að fyrirhuguðu kennararáði er minni en aðkoma þeirra að núverandi mats- og undanþágunefnd. Þar eiga kennarar nú 5 fulltrúa af 12 en fá 3 af 11 í kennararáði. Það er ekki heillavænleg þróun. Með kennararáði fer forræði frá þeim sem hafa sérhæft sig í því að mennta kennara. Kennarar munu þá hafa minna um það að segja en áður hver þróun inntaks kennaranáms verður. Kennarar sjálfir eru best til þess fallnir af öllum sérfræðingum að fjalla um nám, kennslu og menntun.

Hlutverk kennararáðs (7. grein, 1.-7. töluliður) er m.a. á að veita ráð um hvernig meta skuli sérhæfingu kennara við ráðningu. Óljóst er hvernig að þessu verður staðið.
 

Sérhæfð hæfni, 5. grein

Kröfur til menntunar kennara mega síst vera lakari á Íslandi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í frumvarpinu er því miður dregið úr kröfum til sérhæfðrar menntunar og er veruleg hætta á að það halli á sérgreinakennslu í framhaldsskólum verði það að lögum. Vegna kennslu fyrsta þreps áfanga í framhaldsskólum þarf þá einungis 90 einingar í kennslugrein í stað 120 eininga áður. Það mun án efa hafa neikvæðar afleiðingar á það þekkingarsamfélag sem við viljum tilheyra.

Menntunarkröfur vegna kennslu 3. tungumáls eru óbreyttar og áfram er krafist bakkalárgráðu. Flestir 3. tungumálsáfangar í framhaldsskólum eru þó á 1. þrepi. Má því teljast sérkennilegt að gera meiri kröfur um fagmenntun vegna kennslu 3. tungumáls en vegna kennslu í ensku og dönsku.

Samkeppnishæfni í raungreinum og tækni er lykill að velferð inn í framtíðina, tungumálakunnátta er mikilvæg á alþjóðavettvangi, móðurmál og félagsgreinar styrkja sjálfsmynd okkar sem samfélags. Mikilvægt er sem aldrei fyrr að kennarar í framhaldsskólum búi yfir djúpri og haldgóðri menntun í sinni sérgrein og er engan vegin fullnægjandi að íslenskukennarar og raungreinakennarar í framhaldsskólum geti mögulega haft einungis eins og hálfsárs nám að baki í þeirri grein sem þeir kenna.
 

Leyfisbréf, 8.-9. grein

Í frumvarpinu er sett fram hugmynd um að eitt leyfisbréf gildi fyrir alla kennara, óháð sérhæfingu á skólastigi eða í faggrein, með þeim rökum að það verði til þess að fleiri velji sér kennslu sem ævistarf, laun kennara muni hækka og starfsöryggi þeirra verði tryggt starfi þeir á aðliggjandi skólastigi. Á það skal bent að í núgildandi lögum er einmitt gert ráð fyrir að kennarar kenni á aðliggjandi skólastigi að gefnum forsendum.

Eins og reifað er í áliti Umboðsmanns Alþingis nr. 9624/2018 þarf framhaldsskólakennari sem ræður sig til kennslu sinnar greinar í 8. til 10. bekk grunnskóla ekki að sækja um leyfi undanþágunefndar. Það þýðir að hann er jafnsettur lögunum og grunnskólakennari, enda fellur menntun hans og skilyrði fyrir ráðningu að 21. grein núgildandi laga nr. 87/2008. Þar segir:

Leyfisbréf framhaldsskólakennara veitir honum heimild til kennslu á sérsviði sínu í 8.-10. bekkjum grunnskóla.
Það er ekkert því til fyrirstöðu að ráða annan hvorn ótímabundið í starf og tryggja báðum starfsöryggi.

Í þessu sama áliti Umboðsmanns Alþingis nr. 9624/2018 er fjallað um launasetningu framhaldsskólakennara sem kenna í grunnskóla á grundvelli 21. greinar núgildandi laga. Þar bendir Umboðsmaður á að um launasetningu kennara í grunnskólum gildi kjarasamningur Félags grunnskólakennara og Sambands Íslenskra sveitarfélaga. Nánari ákvarðanir um launasetningu eru til umfjöllunar hjá samstarfsnefnd samningsaðila. Ekkert í lögum eða reglugerðum kemur í veg fyrir að framhaldsskólakennarar í grunnskólum, eða grunnskólakennarar í framhaldsskólum, séu launasettir að jöfnu. Það er viðfangsefni samningsaðila og þarf ekki lagabreytingu til. Félag framhaldsskólakennara hefur t.d. gert kjarasamning við Fjölmennt þar sem kennarar eru jafnt launasettir óháð því hvort þeir hafi leyfisbréf til kennslu í leik- grunn- eða framhaldsskóla.
 

Ráðningar, 11. grein

Það er afar óljóst í frumvarpinu hvernig farið er með forgang til ráðninga. Lögverndun starfsheitis kennara felur í sér forgang þegar ráðið er í starf til kennslu.

Tökum sem dæmi:
Umsækjandi 1: Kennari með B.Ed. próf en 90 eininga sérhæfingu í stærðfræðikennslu grunnskólabarna.
Umsækjandi 2: Stærðfræðingur með meistaragráðu í stærðfræði án kennsluréttinda.

Hvorn skal ráða?
Samkvæmt 11. grein frumvarpsdraganna SKAL umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið kennari og hafa þá sérhæfingu sem tilgreind er í auglýsingu. Á grundvelli þess ber að ráða þann sem hefur leyfisbréf til kennslu, þann sem hefur langtum minni fagmenntun. Þessi stærðfræðingur gæti mögulega orðið fyrirtaks kennari, bætt við sig 60 einingum í kennslufræði og öðlast full starfsréttindi. Margir okkar bestu framhaldsskólakennara hófu sinn kennsluferil einmitt svona.
 

Auglýsingar, 12. grein

Þar segir að Mennta- og menningarmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga muni gefa sameiginlega út leiðbeiningar um verklag við ráðningar kennara og stjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla. Óljóst er hvað þetta felur í sér.
 

Sérstök tilvik við ráðningar í grunn- og framhaldsskóla, 17. grein

Orðalag greinarinnar þar sem gert er ráð fyrir að sérfræðingar sem sinna kennslu í framhaldsskólum uppfylli skilyrði um sérhæfingu. byggir slíkt á veikum grunni samkvæmt orðalagi greinarinnar og er viðbúið að kærumálum muni fjölga umtalsvert þegar umsækjendur eru metnir á grundvelli sérhæfingar annars vegar og leyfisbréfs hins vegar. Hvert verður gildi lögverndunar starfsheitisins en stjórnendum er í sjálfsvald sett hvort þeir ráða kennara eða sérfræðing til starfa?
 

Undanþáguheimild, 18. grein

Þar segir m.a. „Skólastjórnendum er ekki skylt að leita til Menntamálastofnunar sé um að ræða tilvik sem falla undir 15. gr. þessara laga.“ Ekki er ljós tilgangurinn með þessari málsgrein.

Þá þarf að skoða hvort með greininni er opnað á jafnréttháa ráðningu faglærðs án kennsluréttinda á móti kennara með leyfisbréf.
 

Greinargerð

Menntun framhaldsskólakennara er gjörólík menntun leik- og grunnskólakennara. Þeir eru fyrst og fremst sérfræðingar í sinni kennslugrein með u.þ.b. 60 til 120 einingar í kennslufræðum og nálgast kennsluna á gjörólíkum forsendum en þegar um kennslu yngri barna er að ræða. Að mati Félags framhaldsskólakennara verður að taka tillit til sérstöðu stéttarinnar, því kennsla 18 ára ungmenna á lítið skylt við kennslu 8 ára barna þar sem uppeldisþáttur starfsins er veigameiri.

Frumvarp til nýrra laga um menntun kennara er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda sem miðar að því að auka nýliðun meðal leik- og grunnskólakennara. Félag framhaldsskólakennara fagnar framtakinu og telur fjölmörg atriði til þess fallin að auka veg kennarastarfsins. Stjórnvöld eru auk þess að sýna í verki vilja sinn til stórsóknar í menntamálum. En hvað varðar tillögu um eitt leyfisbréf svo ólíkra fagstétta sem leik- grunn- og framhaldsskólakennarar eru, telur Félag framhaldsskólakennara að tillagan sé beinlínis til þess fallin rýra gæði menntunar á framhaldsskólastigi.

Félag grunnskólakennara og Félag leikskólakennara og stjórnendafélög þeirra styðja hugmyndir um eitt leyfisbréf. Félag framhaldsskólakennara setur sig ekki upp á móti því að eitt leyfisbréf verði gefið út til kennslu í leik- og grunnskóla á forsendum þeirra kennara sem telja það framfaraskref. Það er ekki hlutverk framhaldsskólakennara að hafa skoðun á því hvernig hugmyndir um eitt leyfisbréf leik- og grunnskóla ríma við inntak náms þeirra og eðli starfsins. Mögulega er það nærtækt þar sem auðveldlega má hugsa sér að fyrsta námsár háskólanna verði eins fyrir bæði skólastigin með sérhæfingu á síðari stigum, en sameiginlegir þræðir í menntun framhaldsskólakennara við menntun og kennslu yngri nemenda eru vandfundnir. Það er mikilvægt að hafa í huga að flestir framhaldsskólakennarar velja sér kennslu sem atvinnu að loknu sérgreinanámi meðan t.d. grunnskólakennarar sérhæfa sig í kennslufræði og kennslu sérgreina sinna á grunnskólastigi.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir Alþingi ef til stendur að samþykkja lög um menntun heillar starfsstéttar þvert á vilja hennar. Stétt framhaldsskólakennara stendur sameinuð að baki þessari afstöðu og þeirri skoðun að með því að leggja að jöfnu leyfisbréf framhaldsskólakennara og kennara yngri barna sé um að ræða afturför í fagmennsku framhaldsskólans sem byggir fyrst og fremst á sérhæfingu.

Félag framhaldsskólakennara biðlar því til mennta- og menningarmálaráðherra að áfram verði gefin út sérstök leyfisbréf framhaldsskólakennara þar sem kröfur um inntak menntunar þeirra verði óbreyttar.
 

Reykjavík, 8. mars 2019
Fyrir hönd stjórnar Félags framhaldsskólakennara
Guðríður Eldey Arnardóttir formaður

 

Félag framhaldsskólakennara mun skila inn endurskoðaðri umsögn um málið komi til þess að þessi drög verði lögð fram sem frumvarp.

 


 

Umsögn um frumvarp til nýrra laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda
við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla

Undirritaður formaður Félags stjórnenda leikskóla (FSL) fyrir hönd stjórnar FSL skilar umsögn um frumvarp um breytingar á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldskóla nr. 87/2008.

Efni þessa bréfs er unnið í samstarfi stjórnar, samninga- og skólamálanefndar FSL.
 

Við sjáum m.a. eftirtalda möguleika í þessum tillögum:

 • Geta haft áhrif á samstarf og sveigjanleika milli skólastiga og aukið samstarf þeirra.
 • Mun skýra stöðu og samræma launasetningu skólastjóra samrekinna skóla.
 • Geta aukið fjölbreytni í starfsmannahópum. Gæti breikkað/aukið fagmennsku kennara að vinna með kennurum með ólíkan bakgrunn.
 • Getur haft áhrif á fjölgun kennaranema.
   

Áhyggjur Félags stjórnenda leikskóla snúa einna helst að:

 • Allt kennaranám getur orðið einsleitt og mun taka mið af fjöldanum. Leikskólakennaranemar eru að taka áfanga sem eingöngu miða að aldri og kennslufræði grunnskólans og fá þeir þau skilaboð að yfirfæra og aðlaga efnið að leikskólanum. Talin er hætta á að þessum atvikum fjölgi og að leikskólafræðin verði undir í kennslu. Háskólarnir hafa sjálfir bent á þessa hættu sem mun grafa undan fagmennsku og faglegri ímynd kennara á öllum skólastigum.
 • Í tilllögunum er gert ráð fyrir lítilli uppeldis- og kennslufræði leikskólans og teljum við nauðsynlegt að hækka lágmarkið miðað við ábendingar háskólanna í 90-120 ECTS einingar.
 • Í dag eru grunnskólar að sækja í vel menntaða og hæfa leikskólakennara til kennslu í grunnskólum. Við teljum að starfsaðstæður eins og þær eru í dag muni auka á að leikskólakennarar fari yfir í grunnskólann. Færa þarf starfsaðstæður þessara skólagerða nær hvert öðru til að taka á þessum aðstöðumun. Undirbúningstímar, starfsdagar, kennsluskylda, tími til starfsþróunar og fjöldi skipulagsdaga eru stærstu atriðin sem þarf að samræma til að gera leikskólann samkeppnishæfan um kennara.
   

Sigurður Sigurjónsson
Formaður Félags stjórnenda leikskóla

 


 

Umsögn Félags leikskólakennara um frumvarp til nýrra laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda
við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla

Félag leikskólakennara hefur fengið til umsagnar frumvarp til nýrra lag um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Í frumvarpinu er gerð grundvallar breyting á inntaki kennaranáms og tekin upp hæfniviðmið. Hæfniviðmiðunum er svo skipt niður í almenna hæfni og sérhæfða hæfni

Mikil ábyrgð er því lögð að háskólana hvað varðar inntak námsins. Félag leikskólakennara hefur áhyggjur af því að leikurinn sem námsleið verði undir í inntaki menntunar kennara með sérhæfingu á leikskólastigi.

Almennt varðandi leyfisbréf þvert á skólastig telur Félag leikskólakennara að bæði tækifæri og ógnanir geti fylgt slíkum breytingum. Ávallt þurfi að gæta að kennslufræði leikskóla. Leikurinn sem námsleið er hornsteinn leikskólastarfs og hann þarf að vera hafður að leiðarljósi í námi kennara. Verði breytingarnar að veruleika er möguleiki á því að nám í leikskólafræðum þar sem nemar útskrifast með leyfisbréf þvert á skólastig laði að fleiri nemendur. Á hinn bóginn er einnig möguleiki á því að leikskólakennarar leiti frekar á önnur skólastig vegna ólíkra starfsaðstæðna og vinnuskipulags.

Það er því mikilvægt að sveitarfélögin bæti til muna starfsaðstæður leikskólakennara, samræmi starfskjör, fjölgi undirbúningstímum, og samræmi starfs- og vinnutíma kennara þvert á skólastig.
 

Fyrir hönd stjórnar Félags leikskólakennara,
Haraldur F. Gíslason formaður

 

Umsögn FL á PDF-formi

 


 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Sölvhólsgötu 4, 101 Reykjavík

Reykjavík, 25. febrúar 2019
 

Efni bréfs: Umsögn um frumvarp til nýrra laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
 

Undirritaðir formenn, Skólastjórafélags Íslands og Félags grunnskólakennara, fagna framkomnu frumvarpi um breytingar á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldskóla nr. 87/2008.

Breytingar þessar eru viðbragð við vanda og ágalla á gildandi lögum nr. 87/2008. Eitt meginmarkmið þeirra laga var að auka samfellu milli skólastiga, færa þau nær hvert öðru og stuðla að því að strax í leikskóla hæfist undirbúningur að samfellu í skólastarfi þar sem eitt skólastig tæki við af öðru. Í greinargerð með frumvarpi laganna frá árinu 2008 kemur fram sú fyrirætlan að gildissvið leyfisbréfa leik-, grunn- og framhaldsskólakennara verði útvíkkuð til aðliggjandi skólastiga þannig að viðkomandi kennari hafi einnig heimild til að kenna ákveðnum aldursflokkum eða á sérsviði sínu. Tilgangurinn var að þannig yrði stuðlað að ákveðnum sveigjanleika milli skólastiga. Markmiðum um sveigjanleika og samfellu milli skólastiga hefur ekki verið náð. Kennarar sem valið hafa að starfa á aðliggjandi skólastigi á grundvelli sérstakrar heimildar annað en leyfisbréf þeirra tilgreinir, hafa verið ráðnir til kennslu sem leiðbeinendur og starf þeirra auglýst árlega. Hefur þetta m.a. haft í för með sér að heimild þeirra til að kenna á aðliggjandi skólastigum hefur ekki verið viðurkennd við ráðningar sem hefur leitt til þess að þeir búa við ófullnægjandi starfsöryggi. Hæfir og reynslumiklir kennarar hafa kosið að láta af störfum sem leiðbeinendur því ekki hefur verið unnt að greiða þeim laun í samræmi við stöðu þeirra, auk þess sem starfsöryggi þeirra hefur verið óviðunandi.

Mikilvægt er að tryggja starfsöryggi kennara á öllum skólastigum og auka samfellu milli skólastiga, færa þau nær hvert öðru og stuðla að því að strax í leikskóla hefjist undirbúningur að samfellu í skólastarfi þar sem eitt skólastig tekur við af öðru. Framkomið frumvarp mun ekki einungis auka við réttindi og starfsöryggi kennara heldur virka sem hvatning til aukinnar starfsþróunar kennara og aukins flæðis milli skólastiga. Þá mun framkomið frumvarp einnig leiða til aukins fjölbreytileika í menntakerfinu. Gildandi lög hafa ekki stuðlað að þessu eins og áform voru um og því er hið nýja frumvarp fagnaðarefni.

Í dag eru gerðar viðameiri kröfur til kennara en áður í okkar samfélagi. Framkomið frumvarp gengur út frá skilgreindum hæfniviðmiðum kennara, almennum fyrir alla kennara og sérhæfðum fyrir mismunandi hópa kennara. Nýtt lögverndað starfsheiti verður því „kennari“. Einstakir kennarar geta síðan stýrt starfsþróun sinni með þeim hætti að þeir eiga greiða leið á milli skólastiga. Kennarar geta bætt við og breytt sérhæfingu sinni á starfsferlinum. Sami kennari getur hæglega sérhæft sig til kennslu á mörgum skólastigum, t.d. með því að auka við nám sitt, hvenær sem er á starfsævinni.

Formaður SÍ og formaður FG fagna því að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennslu með þeirri skilgreindu hæfni, sem leik-, grunn- og framhaldsskólakennarar þurfa að búa yfir. Breytingarnar munu án efa leiða til meiri sveigjanleika og flæðis kennara milli skólastiga og verða hvatning til aukinnar starfsþróunar, auk þess sem gæði menntunar og fjölbreytileiki verður meiri. Í framkomnu frumvarpi felst viðurkenning á hæfni og störfum kennara og faglegu sjálfstæði þeirra. Gera má ráð fyrir að fyrrnefndar breytingar leiði til skólaþróunar á öllum skólastigum og aukinnar nýliðunar kennara.

Með von um að frumvarpið verði að lögum á yfirstandandi vorþingi.
 

Virðingarfyllst,
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, og Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands.

 

*Umsögnin var send á samráðsgátt stjórnvalda 25. febrúar 2019. 

Umsögnin FG og SÍ á PDF-formi

 

 

Pistlar

 


 

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands
NÝ LÖG UM MENNTUN OG RÁÐNINGU KENNARA - FYRRI HLUTI

Í þessum pistli, og þeim næsta, verða til umræðu þær breytingar sem felast í nýjum lögum um menntun og ráðningu kennara og stjórnenda. Fyrri pistillinn fjallar um aðdraganda breytinganna og helstu atriði þeirra. Seinni pistillinn, sem birtist í næstu viku, fjallar um ýmis áhrif sem reikna má með að lagabreytingin hafi á skólastarf og innleiðingu laganna. Þá verður rætt sérstaklega um áskoranir sem fylgja lögunum.
 

HVERS VEGNA ER VERIÐ AÐ BREYTA LÖGUNUM?
Upp úr aldamótum var orðið ljóst að kennarastarfið væri að breytast. Þær kröfur sem gera þyrfti til kennara væru mun fjölbreyttari en áður. Þessum áskorunum þyrfti að mæta með markvissum hætti, sérstaklega hvað varðar menntun kennara. Mikil stefnumótunarvinna hófst í kjölfarið sem meðal annars snerist um breytt inntak kennarastarfsins.
 

HVAÐA TILLÖGUR KOMU FRAM UM BREYTINGU Á KENNARAMENNTUN?
Stofnaður var starfshópur í menntamálaráðuneytinu undir forystu Sigurjóns Mýrdals um framtíðarskipan kennaramenntunar. Hann lagði til níu breytingar á menntun kennara. Sumar þeirra hafa komist til framkvæmda, aðrar ekki. Í nokkurri einföldun voru tillögurnar þessar: 1) að kennaranám yrði 5 ára háskólanám, 2) að menntun starfsmenntakennara yrði aukin mjög, 3) að hið sama gilti um leikskólakennara í þessum efnum og aðra kennara, 4) að menntun skólastjórnenda yrði skilgreind og efld, 5) að kennsluréttindanám yrði fjölbreytt og að kennarar flæddu í auknum mæli milli skólastiga, 6) að þjálfun kennaraefna yrði aukin, t.d. með starfsári á vettvangi, 7) að skilgreind yrðu viðmið um inntak og starfshætti í kennara og stjórnendanámi, 8) að stofnað yrði kennslu-/kennararáð sem væri samstarfsvettvangur fagaðila, 9) að tryggð yrði stöðug símenntun kennara.
 

HVER VAR NIÐURSTAÐA MÁLÞINGS KENNARAHÁSKÓLANS?
Á stóru málþingi um framtíð kennaramenntunar í Kennaraháskólanum í maí 2008 voru málefni kennaramenntunar krufin sem og tengsl hennar við háskólann. Meginniðurstaða málþingsins var þessi:

„Kennarar framtíðar skulu menntaðir til að takast á við fjölbreytt, dagleg viðfangsefni skólastarfs á faglegan og farsælan hátt. Þeir skulu ekki síður vera menntaðir til að leiða framtíðarþróun skólastarfs hver á sínu sviði. Þetta skal gert í nánum tengslum við umhverfið þ.m.t. væntanlegan starfsvettvang með áherslu á hæfni til að eiga í samstarfi við ólíka aðila innan og utan skólans.“

Í kjölfarið tók til starfa hópur sem skoða átti hvert inntak fimm ára kennaranáms ætti að vera. Þar var kallað eftir skýrari mynd af þeim hæfnikröfum sem gera ætti til kennara. Ein af tillögum starfshópsins var þessi:

„Skilgreind verði hæfniviðmið sem litið verði á sem almenn leiðarljós í kennaramenntun. Þau feli í sér þekkingu og færni til að skipuleggja kennslu sem hæfir ólíkum nemendum, rannsaka eigið starf, eiga samskipti við ólíka aðila, að vinna með samskipti, að leggja rækt við jákvæð viðhorf og mikilvæg gildi og hæfni til að vera leiðtogar á sviði kennslu og skólastarfs.“
 

HVER ERU ÞESSI HÆFNIVIÐMIÐ?
Árið 2009 voru samin hæfniviðmið fyrir kennara. Þau drógu að verulegu leyti dám af umræðunni á málþinginu árið áður. Hér eru þau samandregin:

1.  Búa yfir þekkingu og færni til að skipuleggja nám og námsumhverfi sem hæfir ólíkum einstaklingum í fjölbreyttu samfélagi.

a.  Búa yfir þekkingu og skilningi á sögulegu, félagslegu og menningarlegu gildi menntunar og skólastarfs.
b.  Hafa frumkvæði og vera skapandi í skipulagi náms og námsumhverfis.
c.  Geta aðlagað nám og námsumhverfi á þann vega að nemendur (börn, ungmenni og fullorðnir) geti unnið sjálfstætt og með öðrum.
d.  Hhafa gott vald á viðfangsefni sínu í kennslu.

2.  Geta átt samskipti við ólíka aðila og unnið með samskipti í skólastarfi.

a.  Hafa á valdi sínu fjölbreyttar leiðir í samskiptum sínum við þá aðila sem tengjast skólastarfi; nemendur, foreldra, samkennara og annað fagfólk
b.  Vera fyrirmyndir í samskiptum og búa yfir hæfni til að styrkja félags- og samskiptafærni nemenda.

3.  Leggja rækt við jákvæð viðhorf og mikilvæg gildi.

a.  Hafa þekkingu og færni til að vinna með siðferðileg og félagsleg gildi s.s. sanngirni, heiðarleika, réttsýni, víðsýni, lýðræði og mannréttindi.
b.  Vera færir um að meta samfélagsleg gildi menntunar og setja í samhengi við hlutverk hvers skólastigs.

4.  Vera leiðandi á sviði uppeldis, náms og menntunar.

a.  Hafa fræðilega þekkingu í uppeldis og menntunarfræði ásamt færni til að beita henni við skipulag og stjórnun.
b.  Hafa yfirsýn yfir markmið og skipulag skólastarfs.
c.  Vera færir um að beita þekkingu sinni og ígrunda, þróa og rannsaka eigið starf og starfshætti.
d.  Hafa forsendur til að endurnýja starfshætti sína og stuðla að betri árangri með því að gera rannsóknir á eigin starfi og nýta rannsóknir annarra.
 

OF METNAÐARFULL VIÐMIÐ?
Þótt liðinn sé áratugur frá samningu þessara hæfniviðmiða er ljóst að um mjög metnaðarfull viðmið er að ræða. Hér er gerð krafa um að þörfum ólíkra nemenda sé mætt, víðtækt samstarf og forystuhlutverk í skólasamfélaginu – auk þess sem kennarinn skal byggja starf sitt á mikilvægum siðferðilegum gildum. Þó er erfitt að sjá hvort einhverju gæti verið ofaukið og líklega er þetta bæði sanngjörn og réttmæt lýsing á hinu flókna hlutverki kennarans í nútímanum.
 

HVAÐ ÞARF TIL SVO KENNARI HAFI VALD Á VIÐFANGSEFNUM SÍNUM?
Eitt viðmiðanna segir að kennari skuli hafa gott vald á viðfangsefnum sínum í kennslu. Þar sem viðfangsefni geta verið býsna ólík þurfa kröfur til kennara að geta verið fjölbreyttar og ólíkar. Hversu mikla stærðfræði þarf kennari að hafa lært til að geta kennt öðrum stærðfræði? Hversu mikla siðfræði þarf kennari að hafa lært til að kenna lífsleikni? Þarf minni málfræðiþekkingu til að kenna minni börnum íslensku?
 

ERU FIMM ÁR NÓG?
Spurningin um sérhæfingu verður þeim mun meira aðkallandi í ljósi hinna metnaðarfullu almennu markmiða. Það er hægur vandi að færa rök fyrir því að fimm ára námstími í háskóla dugi hvergi nærri til svo vel megi leggja rækt við almennu markmiðin ein og sér. Að einhverju leyti má svara slíkum rökum þannig að þótt fimm ára kennaranám sé vissulega kjarni kennarastarfsins þá sé það kannski fyrst og fremst hlutverk þess að flétta saman, með bæði hagnýtum og akademískum aðferðum, ýmsa þræði í aðdraganda námsins og þann veruleika sem bíður að námi loknu. Að háskólanám kennarans hafi m.a. þann tilgang að draga fram ákveðna þætti í góðri, almennri undirstöðumenntun og gefa nemandanum tækin sem þarf til að halda áfram að læra eftir að í starfið er komið. Þetta gildi bæði um hið almenna svið og hið sérhæfða enda geti annað háskólanám auðveldlega fléttast saman við nám kennaranemans og orðið öflugur forði þekkingar og reynslu.
 

HVAÐ FELST Í KENNARAMENNTUNARLÖGUNUM 2019?
Með lagabreytingunni nú er gerð tilraun til að smíða hæfniramma utan um kennarastarfið. Sá rammi á að vera leiðarljós við menntun og starfsþróun kennara og vera skilyrði þess að fólk fái vottun sem kennarar í formi leyfisbréfs. Í lögunum er gerður greinarmunur á almennri hæfni kennara og sérhæfðri. Skilgreind eru tiltekin lágmörk almennrar og sértækrar hæfni og geta því skólar og nemendur raðað saman fimm ára kennaranámi á fjölbreyttan hátt.
 

HVER ER HIN ALMENNA HÆFNI KENNARA?
Hin almenna hæfni kennara, eins og henni er lýst í lögunum, er byggð á þeirri vinnu sem rædd var hér að framan. Henni er skipt í sjö þætti:

 1. Hæfni til að skapa hvetjandi námsumhverfi sem tekur mið af lýsingum á markmiði og hlutverki laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og birtist í aðalnámskrám sem settar eru á grundvelli þeirra.
 2. Hæfni til að leggja mat á stöðu og framfarir nemenda.
 3. Hæfni til að hafa í störfum sínum velferð og menntun nemenda að leiðarljósi og koma fram við þá af virðingu og fagmennsku sem byggist á lýðræði og jafnrétti.
 4. Hæfni til að vinna að jákvæðum skólabrag og öruggu skólaumhverfi og stuðla að samfélagslegri ábyrgð nemenda.
 5. Hæfni til að stuðla að farsælu og uppbyggilegu samstarfi við heimili og forsjáraðila nemenda á jafnréttisgrundvelli.
 6. Hæfni til að miðla þekkingu sinni á íslensku eftir því sem við á.
 7. Hæfni til að vera faglegur leiðtogi sem leggur sig fram um að skapa umbótamiðað lærdómssamfélag, taka ábyrgð á eigin starfsþróun og vinna að henni alla starfsævina.

Tryggt skal að a.m.k. 60 einingar í háskólanámi kennara hnitist um þessi markmið. Ekkert er því þó til fyrirstöðu að það sé meira.
 

HVER ER SÉRHÆFÐ FÆRNI KENNARA?
Styr hefur staðið um það hvernig skilgreina eigi sérhæfða færni kennara. Niðurstaða laganna er sú að á hverju skólastigi skuli tryggt að kennaranemar hafi sérhæft sig í viðfangsefnum þess skólastigs eins og þau eru skilgreind í aðalnámskrá. Lágmarkið er misjafnt. Þannig veitir starfsréttindapróf réttindi til kennslu á viðkomandi sviði í framhaldsskóla og grunnskóla. Skólastjórar skulu sérhæfa sig í skólaþróun, rekstri og stjórnsýslu (án þess að getið sé um viðmið í einingafjölda). Í leik- og grunnskóla og á fyrsta hæfniþrepi framhaldsskóla skal sérhæfing ekki vera minni en 90 háskólaeiningar á viðkomandi námssviði. Framhaldsskólakennsla á 2.-4. þrepi krefst fyrstu háskólagráðu í greininni. Það gerir einnig kennsla þriðja tungumáls í framhaldsskóla.

Gert er ráð fyrir því að kennarar geti aukið sérhæfingu sína hvenær sem er á ferlinum og þannig orðið gjaldgengir á fleiri en eitt skólastig eða á fleiri en einu námssviði - eða dýpkað sig á einu tilteknu sviði, sem gæti til dæmis verið lífsleikni eða lestrarkennsla.

Skólastjórnendur bera síðan ábyrgð á að tryggja að sú færni sé til staðar sem skólastarfið kallar á. Í auglýsingum geta þeir gert kröfur umfram hið lagalega lágmark, t.d. með því að óska eftir kennara í framhaldsskóla með meistaragráðu í námsgrein eða leikskólakennara með verulega sérhæfingu í útikennslu.
 

HVERNIG BREYTIST HÆFNIRAMMINN MEÐ TÍMANUM?
Á grundvelli hinna nýju laga skulu háskólar þróa kennaranám sem uppfyllir skilyrði laganna. Þeir eru hvattir til að gera það á fjölbreyttan hátt og að hafa í huga hinn síbreytilega veruleika, t.d. hvað varðar upplýsingabyltinguna. Til að mæta þörfum fyrir grundvallarbreytingar í framtíðinni skal stofna kennararáð sem hefur það m.a. að hlutverki að reyna að auka veg kennarastarfsins og kennaramenntunar og fylgjast með alþjóðlegri þróun til að vera ráðherra til ráðgjafar um þær breytingar sem gera þarf á lagarammanum til að mæta hinum síkvika veruleika.

Lögin hafa því m.a. það hlutverk að skapa ramma utan um veruleika sem er í sífelldri þróun. Þeim er ætlað að vera nægilega sterkur rammi til að tryggja gæði menntunar en um leið nægilega sveigjanlegur til að halda ekki aftur af nauðsynlegum breytingum.
 

HVAÐ ER MT GRÁÐA?
Gert er ráð fyrir því að opnað verði fyrir það fljótlega að kennaranemar velji hve rannsóknamiðuð áhersla þeirra sé í náminu og að hægt verði að ljúka réttindanámi með nýrri gráðu, MT (Master of Teaching). Kennarar sem það kjósa þurfa að bæta við sig rannsóknarmiðuðu námi til að hefja síðar doktorsnám, kjósi þeir það. Kjósi þeir það ekki minnkar umfang lokaverkefnis og umfang annars náms eykst á móti. Samhliða þessu má búast við aukinni áherslu á hagnýtingu námsins með möguleika á starfsnámi á fimmta ári sem þegar er komið til framkvæmda.
 

HVAÐ MEÐ ELDRI LEYFISBRÉF?
Eldri starfsréttindi eru í fullu gildi og teljast ígildi sérhæfðrar færni á því skólastigi sem leyfisbréfin voru gefin út á í upphafi.
 

HVERS VEGNA ERU ÓLÍKAR MENNTUNARKRÖFUR GERÐAR TIL KENNARA INNAN FRAMHALDSSKÓLANS?
Framhaldsskólinn nýtur ákveðinnar sérstöðu að því leyti að hann hefur ekki aðeins tvö aðliggjandi skólastig (það hefur grunnskólinn líka) heldur er nám í framhaldsskóla beinlínis skilgreint þannig að það geti farið fram á þremur ólíkum skólastigum. Nám í framhaldsskóla getur skipst á fjögur hæfniþrep. Hæfniþrepin eru skilgreind út frá námi nemendanna og eru raunar ekki háð skólastiginu sem slíku. Fyrsta þrepið á framhaldsskólinn sameiginlegt með grunnskólanum og þar er einkum miðað að almennri menntun. Á hæfniþrepum 2 og 3 eykst áhersla á sérhæfingu. Nám á fjórða hæfniþrepi fer í einhverjum tilvikum fram innan framhaldsskólanna og er þá um að ræða nám sem samsvarar grunnnámi á háskólastigi.

Samkvæmt námskrám er gert ráð fyrir því að „þorri nemenda“ hafi lokið fyrsta hæfniþrepi í grunnskóla og lögin gera því ráð fyrir sömu lágmarksmenntunarkröfum til kennara sem kenna nám á fyrsta hæfniþrepi, óháð því á hvoru skólastiginu námið er tekið. Að sama skapi er gert ráð fyrir því að framhaldsskólakennari eigi nú greiða leið að kennslu í grunnskóla af sömu ástæðu.

Enn aðrar menntunarkröfur eru síðan gerðar til framhaldsskólakennara í greinum sem leiða til starfsréttinda. Þeirri spurningu er því enn ósvarað hvort flytja skuli slíkt kennaranám í auknum mæli upp á háskólastig eins og hugmyndir voru um í upphafi. Það bíður væntanlega kennararáðs að ræða það í samstarfi við hagaðila og stjórnvöld.
 

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands

Seinni pistillinn, sem birtist í næstu viku, fjallar um ýmis áhrif sem reikna má með að lagabreytingin hafi á skólastarf og innleiðingu laganna.

 


 

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara
EITT LEYFISBRÉF OG FRAMHALD MÁLSINS

Nú á lokametrunum samþykkti Alþingi ný lög um menntun og ráðningu kennara þrátt fyrir ýmsa agnúa á þeim. Frumvarpið sem varð að lögum hlaut meðmæli leik- og grunnskólakennara en var hins vegar harðlega gagnrýnt af framhaldsskólakennurum sem og lykilaðilum sem hafa komið að menntun framhaldsskólakennara í háskólasamfélaginu.

Helstu áhyggjur framhaldsskólakennara lúta að því að í stað þriggja leyfisbréfa sem áður voru bundin við tiltekin skólastig verður frá og með næstu áramótum gefið út eitt leyfisbréf með starfsheitinu „kennari“ sem gildir á öllum skólastigum. Alþingi hafði síðasta orðið í málinu eins og vera ber og hlaut frumvarpið brautargengi góðs meirihluta Alþingis án mótatkvæða. Nú verður framhaldsskólasamfélagið að vinna með þessa niðurstöðu og beygja sig undir lýðræðislega niðurstöðu löggjafans.

Málið hefur reynt á stjórn KÍ þar sem ágreiningur hefur verið þar innandyra um málið frá fyrsta degi. Til bráðabirgða tók hins vegar gildi ákvæði um áframhaldandi vinnu við að slípa til helstu agnúa nýrra laga og mun mennta- og menningarmálaráðherra skipa starfshóp lykilaðila í þeirri von að á næstu mánuðum takist að mynda sátt innan KÍ um ný lög sem taka gildi 1. janúar 2020.

En sá starfshópur sem velst saman og fjallar um væntanleg lög verður að vera hæfur til þess að fjalla málefnalega, faglega og lausnamiðað um framgang málsins. Verði sömu leikmenn inni á þeim velli er ekki að vænta sáttar í málinu. Undirrituð mun stíga til hliðar í þeirri vinnu og fela varaformanni Félags framhaldsskólakennara að halda um taumana fyrir hönd framhaldsskólakennara, með þeirri áskorun að stjórnir annarra aðildarfélaga KÍ geri slíkt hið sama og skipi til verka fólk sem kemur ferskt og ósárt að samningaborðinu.
 

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara
Greinin var birt á Vísi 21. júní 2019


 

Jón Ingi Gíslason, formaður Kennarafélags Reykjavíkur:
EITT LEYFISBRÉF KENNARA ER ALVÖRU HAGSMUNAMÁL! 

1.  Eitt leyfisbréf fyrir alla kennara er áræðið skref sem mun koma öllum til góða. Hvers vegna?

Þegar námi lýkur færðu leyfisbréf til kennslu. Þú ert kennari. Enginn veit þó hvernig kennari þú verður né hvernig þú munt þróa þína starfsmenntun og reynslu. Það mun ferilskráin þín endurspegla ár frá ári og áratugi fram í tímann. Því er núverandi fyrirkomulag barn síns tíma. Framtíðarskólinn verður borinn uppi af kennurum sem sérhæft hafa sig á ótal vegu bæði með námi og reynslu. Þegar auglýst er eftir kennara er auglýst eftir tilgreindri hæfni, menntun og reynslu. Þá reynir á ferilskrána þína, ekki gamalt leyfisbréf sem ekkert segir um núverandi stöðu þína og hæfni sem kennari.
 

2.  Mun faggreinaþekking framhaldsskólans eða grunnskólans verða minni við breytinguna?

Nei öðru nær. Hún gæti aukist og svo mun hún verða víðari. Skólastjóri auglýsir eftir þeirri þekkingu, reynslu og hæfni sem hann vantar í sinn skóla. Þetta er gert í dag í grunnskólanum. Þá kemur ferilskráin til skjalanna og skólastjórinn velur þann kennara sem uppfyllir þær kröfur sem þörf er á í tiltekna stöðu. Það er því líklegra að þar sem óskað er eftir mikilli faggreinaþekkingu geti kennarar eflt sig mun meira en nú er krafist til að standa öðrum framar við starfaauglýsingu þar sem áherslan er mikil á faggrein/faggreinar.
 

3.  Allir kennarar munu við gildistöku laga fá leyfisbréf á þessi 3 skólastig. Hvað þýðir það í raun?

Jú starfsréttindin, sem auk þess verða lögvernduð, eru einfaldlega mun meira virði. Mun víðtækari réttindi þýðir tvennt. Aukin virðing fyrir starfinu og verðmæti til launa því ótvírætt meira. það er einmitt það sem íslenskir skólar sem bornir eru uppi af kennurum þurfa. Þannig verður stéttin sterkari, kennaranámið fýsilegra til muna og margir þeir sem réttindi hafa en starfa utan skólanna munu skilar sér til kennslu á ný.
 

4.  Eftirsóknarverður sveigjanleiki verður loks í skólakerfinu öllu

Sveigjanleikinn mun bæta allt skipulag, minnka gamaldags miðstýrða „kassahugsun“ þar sem kennarar eru flokkaðir í hólf sem fæstir passa í. Menntun framtíðar er þróunarverkefni sem breytist í sífellu. Menntun framtíðar er því ekki í miðstýrðum hólfum heldur í sveigjanlegum skapandi skólum þar sem faglegt sjálfstæði kennara er miðpunktur skólastarfsins. Eina hættan við frekari úrvinnslu þessa frumvarps/reglugerðar er að reynt verði að þrengja að sveigjanleikanum með einhverjum miðstýrðum fagkröfum. Best er að sleppa algerlega slíkum kröfum. Krafan um hæfni, reynslu og menntun mun birtast í auglýsingu um starfið. Þar munu kennarar framtíðarinnar leggja fram sína ferilskrá til sönnunar því hversu vel þeir uppfylla kröfur sem settar eru fram.
 

5.  Kennsla og menntun nemenda mun taka stórt skref upp til nýrra sigra í skólakerfinu. Af hverju?

Jú kennarar verða í sífellu að bæta styrk sinn með starfsþróun og endurmenntun. Sveigjanleikinn og víðari reynsluheimur kennara á öllu skólastigum gerir skólana betri. Nýjum þörfum nemenda yrði betur mætt en nú er. Brottfall úr framhaldsskóla myndi lækka og betur væri hægt að mæta sérstökum vandamálum sem síbreytilegur nútími býður ætíð upp á. Í dag eru það ýmis vandamál sem koma með ógnarhraðri innreið samfélagsmiðla, geðræn úrlausnarefni og flóknari foreldrasamskipti. Hvað verður það svo á morgun? Það veit enginn. Allavega verður ekki um það lært í aldagömlum faggreinum háskólanna. Það koma nefnilega tímar og það koma ráð. Störf nútímans verða ekki nema að litlu leyti til þegar grunnskólanemendur sem nú læra að lesa klára sína skólagöngu.

 


 

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara:
KÆRU ÞINGMENN!

Nýtt frumvarp til laga um menntun kennara gerir ráð fyrir útgáfu eins leyfisbréfs til kennslu í leik- grunn- og framhaldsskóla.

Forysta leik og grunnskólakennara styðja breytingarnar en framhaldsskólakennarar ekki. Fyrir því höfum við talið fram ýmis rök, ekki hvað síst að menntun og starf framhaldsskólakennara er æði frábrugðið menntun og starfi kennara yngri nemenda.

Framhaldsskólakennarar eru fyrst og fremst sérfræðingar í tilteknum kennslugreinum og mikilvægt að þeir búi yfir djúpri þekkingu á því fagi sem þeir miðla. Það er grundvöllurinn að öflugu skólastarfi í framhaldsskóla. Framhaldsskólakennarar koma margir hverjir til starfa með reynslu og tengsl á vinnumarkaðnum til viðbótar við sérgrein sína og réttindanám.

Ég vil taka það skýrt fram að mennta og menningarmálráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, hefur sýnt kennurum mikla alúð og velvild og við finnum fyrir stuðningi hennar við starf okkar og aðstæður. En verði nýtt frumvarp að lögum er það í fyrsta sinn sem löggjafinn samþykkir svo róttækar breytingar í óþökk þeirrar stéttar sem lögin ná til.

Mín tillaga er einfaldlega sú að um sinn verði gefið út eitt leyfisbréf til kennslu í leik- og grunnskóla en starfsheitið framhaldsskólakennari verði áfram skilyrt við lágmarks grunnmenntun í grein að viðbættri kennslufræði.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að breyta frumvarpinu með þeim hætti og skapa þannig sátt um málið. Grunnskólakennarar hafa margir sérhæfingu í tilteknum greinum upp að ákveðnu marki og sem fyrr geta þeir bætt við sig sérhæfingu til að fá leyfisbréf til kennslu í framhaldsskóla.

Ég biðla til Alþingis að reka ekki í gegn svo róttæka lagabreytingu þegar sérfræðingarnir sjálfir sem lögin ná til telja það óráð og afturför til fortíðar.
 


 

Hjördís Albertsdóttir, varaformaður Félags grunnskólakennara og formaður skólamálanefndar FG:
REIPTOG ÚRELTRA OG NÝRRA TÍMA

Í samráðsgátt stjórnvalda liggja nú drög að frumvarpi um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara og stjórnenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Meginbreyting frumvarpsdraganna felur í sér að starfsheitið „kennari“ verði lögverndað og gildi aðeins um þá sem uppfylli sérstakar menntunarkröfur. Hingað til hefur hver sem er mátt kalla sig kennara en starfsheiti kennara á hverju skólastigi fyrir sig, leikskólakennari, grunnskólakennari og framhaldsskólakennari, hafa verið lögvernduð.

Ég fagna þeirri umræðu sem orðið hefur um málið í samráðsgáttinni, á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Skólamálaumræðan á að vera lifandi og sýnileg og langar mig því að leggja nokkur orð til umræðunnar.
 

Kennari eða kennari?
Grundvallarhlutverk kennarans er hið sama óháð aldri nemenda og því námsefni sem kennt er. Í lögverndun kennaraheitisins felst viðurkenning á starfi allra kennara, hvort sem viðfangsefni þeirra er leikur, tónlist eða stærðfræði. Með skilgreindum hæfnikröfum er kennarastarfið gert að sjálfstæðu fagi með skilgreint grundvallarhlutverk í samfélaginu.

Það þarf að horfa á kennarastarfið með langtímaþróun menntakerfisins í huga. Eitt leyfisbréf felur í sér, auk almennra hæfniskrafna til kennara, einstaklingsmiðaða færni kennarans sem hann þróar í námi sínu og starfi. Kennarar geta því með starfsþróun sinni aukið við færni á þeim sviðum sem hennar er mest þörf hverju sinni. Hefðbundin mörk skólastiga gætu orðið minni hindrun í vegi nauðsynlegra breytinga.

Þessari breytingu á leyfisbréfum þurfa þó að fylgja raunverulegar aðgerðir. Með aukinni samkeppnishæfni kennaramenntunar og kennarastarfsins opnast gríðarlegir möguleikar til hagsbóta fyrir skólastarf í landinu. Kennarar munu hafa breiðari vettvang til að láta hæfileika sína njóta sín. Einnig munu þá skólastjórnendur hafa stóraukið val, og stóraukna ábyrgð, til að velja til starfa kennara með ákjósanlega dreifingu hæfileika fyrir viðkomandi skólasamfélag.
 

Gamli tíminn vs. nýi tíminn
Öllum breytingum fylgja einhver vandamál og einhverjar áhættur. Gleymum því þó ekki að það á líka við um óbreytt ástand. Vandamálin eru ekkert endilega skárri þótt maður sé búinn að venjast þeim.

Öllu máli skiptir þó að málið sé skoðað í stóru samhengi og engar töfralausnir eru á vanda menntakerfisins. Íslenskir nemendur verðskulda framúrskarandi menntakerfi. Til þess að menntakerfi okkar geti orðið í röð þeirra fremstu þarf metnaðarfulla breytingu á kerfi, hugarfari og forgangsröðun.

Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Kallað er eftir stórfelldum breytingum, jafnt í áherslum og kennsluháttum, til að undirbúa nemendur undir framtíð í síbreytilegu nútímasamfélagi. Það verður að horfa til þess að með nýjum lögum fylgja breytingar. Nýtt frumvarp er ekki lagt fram til að lögin aðlagi sig að úreltu kerfi. Við stígum inn í óráðna framtíð og eitt leyfisbréf kennara er fyrsta skrefið í rétta átt.

 

Greinin birtist á Vísi 4. mars 2019.

 


 

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara
HROSSKAUP Í MENNTAMÁLUM

Nú liggur fyrir í samráðsgátt stjórnvalda nýtt frumvarp til laga um menntun kennara. Þar er gert ráð fyrir einu leyfisbréfi vegna kennslu í leik- grunn- og framhaldsskólum. Þetta á meðal annars að auka sveigjanleika til kennslu á milli skólastiga og draga úr kennaraskorti.

Framhaldsskólakennarar styðja ekki þessar breytingar og telja mikla afturför frá núgildandi lögum. Verulega er dregið úr kröfu um sérhæfingu í faggreinum sem er grundvallarforsenda faglegs skólastarfs í framhaldsskólum.

Hafa verður í huga að menntun framhaldsskólakennara er ólík menntun leik- og grunnskólakennara. Í flestum tilfellum ákveða framhaldsskólakennarar að leggja fyrir sig kennslu á síðari stigum náms síns, jafnvel eftir að grunngráðu eða meistaragráðu í tilteknu fagi er lokið.

Framhaldsskólakennari með meistaragráðu í tiltekinni grein þarf þannig að bæta við sig 60 einingum í uppeldis- og kennslufræði til að fá leyfisbréf sem framhaldsskólakennari. Inntak námsins er aðallega sérhæfing í kennslugrein og minni áhersla á kennslufræði. Eðlilega er ekki samanburðarhæft hvort um er að ræða kennslu 18 ára nemenda eða 8 ára.

Verði nýtt frumvarp um menntun kennara að lögum er veruleg hætta á að það halli á sérgreinakennslu í framhaldsskólum. Vegna kennslu fyrsta þreps áfanga í framhaldsskólum þarf þannig einungis 90 einingar í kennslugrein í stað 180 eininga áður.

Það eru allir sammála um að skilin á milli skólastiga eru ekki klippt og skorin. Sveiganleiki til að kenna á aðliggjandi skólastigum er nauðsynlegur enda gera núgildandi lög ráð fyrir slíku. Í 21. grein núgildandi laga um menntun kennara er td. fjallað um að framhaldsskólakennarar hafi full réttindi til að kenna sína sérgrein í efstu bekkjum grunnskólans. Grunnskólakennarar að sama skapi geta kennt grunnáfanga framhaldsskóla að því gefnu að þeir hafi að lágmarki 120 einingar í sérhæfðri kennslugrein. Í þeim tilfellum þarf ekki að sækja um leyfi til undanþágunefndar eins og reyndar Umboðsmaður Alþingis hefur þegar staðfest með áliti sínu. Þeir eiga því rétt á ótímabundinni ráðningu og ekkert lagalegt því til fyrirstöðu að launasetja þá með sama hætti og aðra kennara með leyfisbréf á viðkomandi skólastigi.

Það er því engin ástæða til að breyta núgildandi lögum undir yfirskini sveigjanleika og starfsöryggis kennara.

Þótt hrossum sé smalað í rétt og opnað milli hólfa fjölgar þeim ekki. Ef við ætlum að draga úr kennaraskorti verður einfaldlega að bæta starfsumhverfi kennara og gera laun þeirra samkeppnishæf. Flóknara er það nú ekki og mun eitt leyfisbréf á hópinn engu breyta þar um.

 


 

Guðjón H. Hauksson, framhaldsskólakennari og varaformaður Félags framhaldsskólakennara:
STÓRSÓKN Í MENNTAMÁLUM?

Iðulega hafa stjórnvöld það markmið að efla íslenskt skólakerfi. Núverandi ríkisstjórn kynnir í sínum stjórnarsáttmála stórsókn í menntamálum enda lítur hún á menntun sem kjarnann í nýsköpun til framtíðar. Ríkisstjórnin nefnir framhaldsskólann sérstaklega í sáttmálanum og ætlar að tryggja þessu skólastigi „frelsi og fjármagn til eigin stefnumótunar“. Einnig vill hún „kanna kosti sveigjanlegra skólaskila“.

FRUMVARP Á LEIÐ FYRIR ÞING

Nú liggur fyrir frumvarp um breytingar á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008. Markmið með þessum lagabreytingum eru sögð vera þau að búa til sveigjanleika og samfellu fyrir kennara milli skólastiga og fjölga hæfum kennurum og styrkja þannig samkeppnishæfni þjóðar.
 

EITT LEYFISBRÉF EKKI FORSENDA FYRIR SVEIGJANLEIKA

Í greinargerð er rakið hvernig fyrirætlan núgildandi laga frá 2008 var að gildissvið leyfisbréfa yrðu „útvíkkuð til aðliggjandi skólastiga þannig að viðkomandi kennari hafi einnig heimild til að kenna ákveðnum aldursflokkum eða á sérsviði sínu“. Ráðuneytið telur hins vegar að markmiðum „um sveigjanleika og samfellu milli skólastiga“ hafi ekki verið náð. (Sjá greinargerð í samráðsgátt).

Grein 21. í núgildandi lögum fjallar einmitt um gildissvið leyfisbréfa og þar kemur mjög skýrt fram að leyfisbréf kennara á hverju skólastigi veitir fullan rétt til kennslu á aðliggjandi skólastigi að uppfylltum menntunarkröfum. Ráðuneytið hefur meira að segja lýst því til Umboðsmanns Alþingis að engin málefnaleg sjónarmið séu fyrir því að gera „greinarmun á starfsréttindum, ráðningarréttindum eða starfsskyldum“ kennara sem uppfylla 21. grein laganna. Undanþágunefnd á því ekki að þurfa að fjalla um mál kennara sem uppfylla skilyrði til ráðningar og þeir eiga að njóta sömu réttinda til fastráðninga. Í síðustu málsgrein 21. greinar er getið um heimild ráðherra til að setja nánari fyrirmæli um útgáfu leyfisbréfa í reglugerð. Slíkt hefur ekki verið gert og þessi grein laganna hefur hvorki verið virkjuð né útfærð sem ætti að vera hreint formsatriði.

Ef dæmi eru um að full réttindi hafi ekki fylgt ráðningum milli skólastiga er ráðuneyti menntamála í lófa lagið að taka af tvímæli með reglugerð um þessa grein laganna. Sveigjanleikinn og samfellan fyrir kennara milli skólastiga er því greið samkvæmt lögum nú þegar og ekki þörf á einu leyfisbréfi kennara.
 

FJÖLGUM KENNURUM Á RÉTTUM FORSENDUM

Látið er liggja að því að það að tryggja frjálst flæði kennara milli skólastiga geti stuðlað að því að fjölga kennurum. En það sárvantar kennara inn í skólana, ekki á milli þeirra! Í því liggur vandinn!

Skorturinn er sárastur í leikskólanum. Skoðum hann aðeins: Frá árinu 2009 hafa verið gefin út rúmlega 3000 leyfisbréf til leikskólakennara. Árið 2015 kenndu 1758 af þeim við leikskóla sem er rétt um þriðjungur þeirra sem starfa við kennslu og umönnun á þessu skólastigi (Sjá úttekt Ríkisendurskoðunar). Af hverju starfa þessir 1.250 leikskólakennarar ekki í leikskólum? Formaður Félags leikskólakennara hefur skilað inn greinargerð um eitt leyfisbréf kennara og helstu áhyggjur hans snúa að því að leikskólakennarar muni mögulega vilja leita fyrir sér á öðrum skólastigum (Sjá greinargerð formannsins). Hann óttast sem sagt enn meiri flótta úr stéttinni!

Skorturinn í grunnskólanum er sömuleiðis hrópandi og þá verður sú staðreynd enn nöturlegri að minna en helmingur þeirra, sem hafa menntað sig til grunnskólakennslu, starfar við kennslu í grunnskólum og um 40% starfandi kennara hafa oft hugleitt að hætta kennslu. (Sjá skýrslu)

Eina ástæðan fyrir því að ekki ríkir kennaraskortur í framhaldsskólanum er sú að hann var nú nýverið styttur um eitt ár með tilheyrandi minna námsframboði og uppsögnum kennara. Fjöldi uppsagna þar væri þó mun meiri ef framhaldsskólakennarar væru ekki orðnir gamlir upp til hópa og láta því af störfum. Eftir tvö til þrjú ár verður líklega farið að bera á kennaraskorti þar líka vegna þess að nýliðun er nánast engin.

Formaður KÍ birti nýverið samantekt á efni frumvarpsins á vef Kennarasambands Íslands. Þar bendir hann á að hugsanlegur flótti kennara milli skólastiga, sem eitt leyfisbréf geti leyst úr læðingi, kunni að „afhjúpa veikleika í starfsaðstæðum og kjörum og þrýsta þannig á um umbætur”. Ef staðreyndirnar sem nefndar eru hér fyrir ofan afhjúpa ekki óásættanlegar starfsaðstæður og slæm kjör kennara, hvað gerir það þá? Hvers vegna vill fólk ekki fara í kennaranám? Hvers vegna ræður fólk með kennaranám sig ekki til kennarastarfa? Hvers vegna sækja starfandi kennarar í önnur störf? Það skyldi þó ekki vera að pottur sé brotinn?
 

ÓÞARFT FRUMVARP

Það er sem sagt hvorki tilefni né nauðsyn á nýjum lögum. Sveigjanleiki og flæði milli skólastiga er tryggt með lögunum frá 2008 og ný lagasetning mun lítil eða engin áhrif hafa á samkeppnishæfni kennarastarfsins.

Hvers vegna eru starfskjör kennara ekki bætt svo um munar? Ástæðan fyrir kennaraskortinum í landinu er einföld. Kjör og starfsaðstæður stéttarinnar eru ekki samkeppnishæf. Þarna þarf að taka á málum en ekki eyða tíma og fjármunum í leyfismál sem þegar eru í ágætum farvegi.
 

SÉRHÆFING KENNARA ER LYKILATRIÐI

Í samantekt sinni kemur formaður KÍ inn á sérhæfðu viðmiðin sem erfitt hefur reynst að ná samstöðu um við undirbúning frumvarpsins. Það er ekki að undra vegna þess að það er einmitt sérhæfingin sem er einn af grundvallarþáttum í starfskenningu hvers kennara.

Fagleg sjálfsmynd kennarans byggist einna helst á sérsviði hans, því sem hann er færastur í. Hvert skólastig miðast við þroska hvers aldurshóps og kennarar hafa löngum sérhæft sig í ákveðnum aldurshópum. Það átta sig allir á því að þriggja ára barn, níu ára barn, 14 ára unglingur og 18 ára ungmenni þurfa gerólíka nálgun og viðfangsefni í sínu námi. Góð menntun byggir á því að fá bestu hugsanlegu kennarana fyrir þetta ólíka fólk.

Lögin frá 2008 viðurkenna þessa sérhæfingu kennara á þremur skólastigum en gefa fullan kost á því að kennarar, sem hafa forsendur til þess, njóti réttinda til að kenna á nærliggjandi skólastigum.
 

HVERNIG ÆTLAR ÞJÓÐIN AÐ MENNTA BÖRNIN SÍN?

Fram að þessu eru það helst framhaldsskólakennarar sem lýst hafa andstöðu sinni við hugmyndir ráðuneytisins um breyttan lagaramma. Þeir hafa þráfaldlega bent á að núverandi lög búa til greiða leið fyrir flæði kennara til aðliggjandi skólastiga og hafa einnig hvatt ráðuneytið til þess að koma ákvæðum 21. greinarinnar í framkvæmd.

En áhyggjur framhaldsskólakennara núna snúast þó mest um minni og óljósari menntunarkröfur til faggreinakennara. Ef frumvarpið verður að lögum verður hægt að ráða kennara með mun lakari undirbúning til kennslu faggreina í skólum landsins. Kennarar munu ekki lengur þurfa að hafa lokið jafnmörgum einingum til að geta kennt á efri þrepum í framhaldsskóla og til þess að geta kennt grein á fyrsta þrepi í framhaldsskóla. Í því sambandi má nefna að kjarnagreinar á fyrsta þrepi voru við styttingu framhaldsskólans færðar til grunnskólans þar sem kröfur um fagmenntun eru enn minni.

Til þess að meta hæfni kennara er fyrirhugað að stofna sérstakt kennararáð sem heyrir undir Menntamálastofnun. Þá verða lagðar af tvær fjölskipaðar nefndir, undanþágunefnd og matsnefnd. Það færir vald á eina hendi og dregur úr þátttöku og samábyrgð hagaðila eins og háskóla, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands. Er hér verið að ráðast í dýra yfirbyggingu til að skera úr um þau óljósu hæfniviðmið sem sett eru í frumvarpinu? Á það að ná fleiri kennurum til starfa í skólum landsins? Er þetta stórsóknin í menntamálum?

Árið 2014 var birt úttekt á stærðfræðikennslu í níu framhaldsskólum landsins. Niðurstöðurnar vöktu mikla athygli því þær sýndu fram á að framhaldsskólar skiluðu nemendum ekki nægilega undirbúnum til háskólanna. Það sýndi sig að kennarar höfðu oft ekki nægilega menntun til að kenna þessa kjarnagrein en einnig var sýnt fram á að stór hluti nemenda hafði „ekki nægan undirbúning til þess að geta tekist á við venjulega byrjunaráfanga í stærðfræði í framhaldsskólum“ (Sjá má skýrsluna hér).

Sama ár og þessar niðurstöður voru birtar fyrirskipaði þáverandi menntamálaráðherra styttingu námstíma til stúdentsprófs og færði byrjunaráfanga í stærðfræði til grunnskólanna þar sem kennarar með stærðfræðimenntun eru enn þá færri! Stórsókn í menntamálum?

Hvert ætlar þjóðin sér í skólamálum? Þessu þarf að svara skilmerkilega áður en ákvarðanir eru teknar sem fela í sér meiriháttar stefnubreytingu og hættu á sjálfsmarki áður en lagt er upp í stórsóknina. Ætli unga fólkið okkar keppist um kennarastarfið í framtíðinni?
 

SAMANTEKT

Frumvarpið sem nú er verið að undirbúa fyrir vorþing er bæði óþarft og til óþurftar. Kennarar geta nú þegar kennt á öðru skólastigi en þeir hafa leyfisbréf fyrir með fullum starfsréttindum og þær breytingar sem frumvarpið boðar gera heldur ekkert til þess að laga atgervisflóttann úr kennarastéttinni sem er brýnasta verkefnið í menntamálum þjóðarinnar. Ákvæði í frumvarpsdrögunum um menntun og hæfni kennara verða beinlínis til þess að gjaldfella menntun í landinu og bera í sér grundvallar stefnubreytingu í menntamálum þjóðarinnar.

Stjórnvöld hafa boðað stórsókn í menntamálum, framfarir, nýsköpun og þróun. Slík sókn ætti að fela í sér metnað til þess að efla kennara í starfi, styðja á allan hátt við starfsþróun og alvöru samkeppni um vel menntað og hæft fólk í kennslu allra greina. Í staðinn bendir frumvarpið til þess að ekki verði gripið til alvöru aðgerða til að spyrna við kennaraskorti og að kröfur um fagmenntun verði minnkaðar.

Slíkt getur ekki skoðast öðruvísi en meiriháttar stefnubreyting í menntamálum sem gengur í berhögg við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar.
 

SAMRÁÐSGÁTTIN ER OPIN

Nú þurfa kennarar, kennarafélög, faggreinafélög, stjórnendur og allir sem láta sig málið varða að láta álit sitt á þessum hugmyndum í ljós inni á samráðsgáttinni. Opið er fyrir athugasemdir til 8. mars.
 

Guðjón H. Hauksson,
framhaldsskólakennari og varaformaður Félags framhaldsskólakennara.

 

Styttri útgáfa af greininni var birt á Vísi, 28. febrúar 2019.
 

GAGNLEGT ÍTAREFNI

 


 

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands
ENN UM #LEYFISBRÉF

Menntamálaráðherra hefur nú lagt fram drög að frumvarpi um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara. Frumvarpið liggur í samráðsgátt og vonandi gefa sem flestir kennarar sér tíma til að kynna sér það og gera athugasemdir við efni þess.

Hingað til hefur umræðan auðvitað að mestu snúist um fjölda leyfisbréfa til kennslu. Hér er þó ýmislegt annað undir. Ég ætla því að gera tilraun til að ramma inn það samhengi sem þetta nýja frumvarp sprettur úr og benda á helstu atriði þess. Ég vona að í kjölfarið verði gagnrýnin og málefnaleg umræða um málið sem tekið verði mark á.
 

UPPHAFIÐ

Upphaf þessa máls má líklega rekja til 2005 þegar settur var á laggirnar starfshópur um framtíð kennaramenntunar undir forystu Sigurjóns Mýrdals. Hópurinn skilaði níu tillögum sem í nokkurri einföldun eru hér taldar upp:

 1.  Að meistaraprófs væri krafist til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskóla.
 2.  Að stefnt verði í sömu átt með starfsmenntakennslu.
 3.  Að réttindi leikskólakennara verði lögvarin eins og réttindi annarra kennara.
 4.  Að menntun skólastjórnenda verði skilgreind.
 5.  Að fjölbreyttar námsleiðir verði að kennsluréttindum og flæði aukið milli skólastiga.
 6.  Að starfsþjálfun kennaranema verði aukin (með kandídatsári).
 7.  Að sett verði viðmið um inntak og starfshætti í allri kennaramenntun.
 8.  Að stofnað verði kennsluráð sem samstarfsvettvangur hagaðila í menntakerfinu.
 9.  Að símenntun verði tryggð og fjölbreytt.
   

Sumt af þessu er þegar komið til framkvæmda. Annað hefur mátt bíða. Menntunarmál kennara hafa enda verið í mismiklum forgangi hjá menntamálaráðherrum síðustu ára. Ýmislegt var þó gert og kannski var einna stærsti áfangi þeirrar sögu stórt málþing árið 2008 um framtíð kennaramenntunar. Á málþinginu var kennarastarfið skoðað frá ýmsum hliðum í nútíð og fyrirsjáanlegri framtíð.

Þegar niðurstöður málþingsins voru dregnar saman var gróflega hægt að flokka þær í þrennt. Þær hnituðust um tengsl kennaramenntunar við samfélagið, skipulag námsins og þær hæfnikröfur sem gera ætti til kennara.
 

HÆFNIKRÖFUR

Við, sem starfað höfum við kennslu, þekkjum hvernig kröfur um hæfni hafa orðið viðameiri hluti stefnumörkunar í menntamálum. Tilhneigingin hefur verið sú að leggja áherslu á hæfni í stað einfaldari markmiða. Þetta er auðvitað ekki alveg einföld nálgun og til eru efasemdarmenn um ágæti hennar. Í stefnumörkun um framtíð kennaramenntunar á Íslandi er þetta þó sú leið sem valin hefur verið og það sést vel á frumvarpsdrögunum nú.

Þegar málþingið 2008 var dregið saman í eina efnisgrein var þetta niðurstaðan:

„Kennarar framtíðar skulu menntaðir til að takast á við fjölbreytt, dagleg viðfangsefni skólastarfs á faglegan og farsælan hátt. Þeir skulu ekki síður vera menntaðir til að leiða framtíðarþróun skólastarfs hver á sínu sviði. Þetta skal gert í nánum tengslum við umhverfið þ.m.t. væntanlegan starfsvettvang með áherslu á hæfni til að eiga í samstarfi við ólíka aðila innan og utan skólans.“
 

Í febrúar 2009 skilaði starfshópur undir stjórn Önnu Kristínar Sigurðardóttur áfangaskýrslu um inntak og áherslur í fimm ára kennaramenntun. Þar var enn ítrekuð áhersla á hæfniviðmið:

„Skilgreind verði hæfniviðmið sem litið verði á sem almenn leiðarljós í kennaramenntun. Þau feli í sér þekkingu og færni til að skipuleggja kennslu sem hæfir ólíkum nemendum, rannsaka eigið starf, eiga samskipti við ólíka aðila, að vinna með samskipti, að leggja rækt við jákvæð viðhorf og mikilvæg gildi og hæfni til að vera leiðtogar á sviði kennslu og skólastarfs.“
 

Seinna sama ár var gerð tilraun til að setja niður á blað slík viðmið. Þau kölluðust á við málþingið frá því árið áður og skiptust í fjóra meginflokka:

Kennarar skulu ...

1.  búa yfir þekkingu og færni til að skipuleggja nám og námsumhverfi sem hæfir ólíkum einstaklingum í fjölbreyttu samfélagi.

a.  búa yfir þekkingu og skilningi á sögulegu, félagslegu og menningarlegu gildi menntunar og skólastarfs.
b.  hafa frumkvæði og vera skapandi í skipulagi náms og námsumhverfis.
c.  geta aðlagað nám og námsumhverfi á þann vega að nemendur (börn, ungmenni og fullorðnir) geti unnið sjálfstætt og með öðrum.
d.  hafa gott vald á viðfangsefni sínu í kennslu.
 

2.  geta átt samskipti við ólíka aðila og unnið með samskipti í skólastarfi.

a.  hafa á valdi sínu fjölbreyttar leiðir í samskiptum sínum við þá aðila sem tengjast skólastarfi; nemendur, foreldra, samkennara og annað fagfólk.
b.  vera fyrirmyndir í samskiptum og búa yfir hæfni til að styrkja félags- og samskiptafærni nemenda.
 

3.  leggja rækt við jákvæð viðhorf og mikilvæg gildi.

a.  hafa þekkingu og færni til að vinna með siðferðileg og félagsleg gildi s.s. sanngirni, heiðarleika, réttsýni, víðsýni, lýðræði og mannréttindi.
b.  vera færir um að meta samfélagsleg gildi menntunar og setja í samhengi við hlutverk hvers skólastigs.
 

4.  vera leiðandi á sviði uppeldis, náms og menntunar.

a.  hafa fræðilega þekkingu í uppeldis og menntunarfræði ásamt færni til að beita henni við skipulag og stjórnun.
b.  hafa yfirsýn yfir markmið og skipulag skólastarfs.
c.  vera færir um að beita þekkingu sinni og ígrunda, þróa og rannsaka eigið starf og starfshætti.
d.  hafa forsendur til að endurnýja starfshætti sína og stuðla að betri árangri með því að gera rannsóknir á eigin starfi og nýta rannsóknir annarra.
 

FRUMVARPIÐ NÚ

Af ofangreindu blasir við að vinnan fram að þessu hefur að miklu leyti snúist um að skilgreina hvað felist í nútímalegu kennarastarfi. Það eru gerðar miklu viðameiri kröfur til kennara nú en áður. Á árum áður var gjarnan talið að langskólamenntun fæli sjálfkrafa í sér hæfnina til að geta kennt, að sá sem kynni gæti kennt. Með upptöku fimm ára háskólanáms kennara felst frekari viðurkenning á kennurum sem sjálfstæðri fagstétt. Í frumvarpsdrögunum er reynt að ávarpa þetta.

Að þessu leyti eru kennarar ekki einsdæmi. Fleiri fagstéttir hafa fetað þessa braut. Það er til dæmis eftirtektarvert hve stétt endurskoðenda leggur ríka áherslu á starfsþróun og símenntun. Ef henni er ekki sinnt markvisst í a.m.k. 120 klukkustundir á hverju þriggja ára tímabili þá missa menn starfsréttindin! Þetta er krafa sem endurskoðendur gera sjálfir til sín, til að tryggja hæfni og orðspor stéttarinnar.

Í þeim frumvarpsdrögum sem hér eru til umræðu er almenn hæfni kennara skilgreind eins og kallað hefur verið eftir. Gengið er út frá þeirri vinnu sem unnin hefur verið fram að þessu með sérstakri hliðsjón af núgildandi aðalnámskrám. Hin almennu hæfniviðmið kennara eiga að virka stýrandi á menntakerfið í heild. Út frá inntaki þeirra á að skipuleggja kennaramenntun, mat á skólastarfi á að byggja á þeim, útgáfa starfsréttinda er á grundvelli þeirra, þau eiga að stýra ráðningum sem og starfsþróun og símenntun. Hér er því um að ræða ramma utan um allt nám og starf kennara.
 

HIN ALMENNU HÆFNIVIÐMIÐ

Og hver eru svo hin almennu hæfniviðmið samkvæmt lögunum?

Þau lúta að fimm þáttum:

 1.  Hæfni til að skapa hvetjandi námsumhverfi sem tekur mið af markmiði og hlutverki laga um skólastigin og birtist í aðalnámskrám.
 2.  Hæfni til að hafa í störfum sínum velferð og menntun nemenda að leiðarljósi og koma fram við þá af virðingu og fagmennsku sem byggist á lýðræði og jafnrétti.
 3.  Hæfni til að vinna að jákvæðum skólabrag og öruggu skólaumhverfi og stuðla að samfélagslegri ábyrgð nemenda.
 4.  Hæfni til að stuðla að farsælu og uppbyggilegu samstarfi við heimili og foreldra á jafnréttisgrundvelli.
 5.  Hæfni til að vera faglegur leiðtogi sem leggur sig fram um að skapa umbótamiðað lærdómssamfélag, taka ábyrgð á eigin starfsþróun og vinna að henni alla starfsævina.
   

Þetta eru þeir almennu hæfniþættir sem frumvarpið gerir ráð fyrir að einkenni alla kennara, óháð kennslugrein og aldri nemenda. Það væri áhugavert að heyra frá kennurum hversu lýsandi og tæmandi þessir þættir eru að þeirra mati. Er einhverju þarna ofaukið? Vantar eitthvað? Eru þetta þættir sem eru of almennir til að vera grundvöllur fyrir krefjandi starf fagstéttar? Eru markmiðin jafnvel of háleit?

Sjálfur rek ég strax augun í eitt. Þarna er vissulega lögð áhersla á að vera faglegur leiðtogi í umbótamiðuðu lærdómssamfélagi en mér finnst að skerpa mætti á því að samstarf sé grundvallaratriði í skólastarfi framtiðar. Ekki aðeins við nemendur og foreldra heldur fyrst og fremst kollega og annað samstarfsfólk.. Ég samþykki þó að það kunni að felst í orðalagi fimmta punktarins. Ég hefði samt viljað sjá þetta sterkar dregið fram.
 

HIN SÉRHÆFÐA HÆFNI

Ég held það sé ekkert leyndarmál að það hefur reynst þrautin þyngri að skilgreina sérhæfð hæfniviðmið kennara í þessari vinnu. Sérstaklega vegna þess að ýmsir hagaðilar vilja eindregið að sé gert út frá forsendum núverandi skólastiga. Á einhverjum tímapunkti var uppi sú hugmynd að nægjanlegt væri að hafa almenn hæfniviðmið og skilgreina sérstöðuna þannig að kennari skyldi almennt hafa tök á því námsefni sem hann kenndi og þekkingu á þroska nemenda sinna. Kröfum um hæfni til kennslu í einstökum greinum eða áföngum væri þá hægt að stilla upp í reglugerðum eða með öðrum hætti. Sú leið sem varð fyrir valinu var þó að skilgreina sérstaka hæfni fyrir nokkra hópa og halda því opnu að sérhæfing gæti legið á fleiri sviðum (sem t.d. væri hægt að skilgreina í reglugerð).

Það hefur legið alveg fyrir að innan Kennarasambandsins hafa verið skiptar skoðanir um nákvæmlega þetta atriði. Stjórn KÍ stóð þó öll á því að skilgreining sérhæfðra viðmiða skyldi fyrst og fremst taka mið af áliti sérfræðinga innan háskólastigsins sem mest vit hefðu á þessum fræðum. Síðustu vikur hefur ráðuneytið unnið að útfærslum í samráði við háskólana og niðurstaðan er þessi:

Til að verða kennari þarf að hafa lokið meistaragráðu (eða hafa eldri réttindi). En auk þess gildir eftirfarandi:

Kennari með sérhæfingu á leikskólastigi hefur í háskólanámi sínu sérhæft sig í a.m.k. einu af námssviðum leikskólans í a.m.k. eina önn.

Samskonar krafa er gerð til grunnskólakennara.

Hafi kennari stundað jafngildi þriggja anna háskólanáms í listgrein eða bóklegri grein sem kennd er í framhaldsskóla getur hann kennt grunnáfanga á framhaldsskólastigi. Skiptir þá engu hvort viðkomandi kennari hafi lagt upp með að kenna á öðru skólastigi. Þó er krafist fyrstu háskólagráðu í þriðja tungumáli til kennslu þess í framhaldsskóla. Að öðru leyti er krafa um fyrstu háskólagráðu í grein almenna leiðin til að kenna list- og bóknám í framhaldsskóla eftir að grunnáföngum lýkur.

Athygli vekur að menntun tónlistarskólakennara er nú metin jafngild annarri menntun kennara í fyrsta sinn - en það hefur verið baráttumál KÍ býsna lengi. Enda uppfyllir sú menntun öll sömu skilyrði og menntun annarra kennara.

Starfsmenntakennarar í framhaldsskóla skulu ljúka starfsréttindaprófi í grein sinni og að minnsta kosti ári í uppeldis- og kennslufræði.

Skólastjórnendur skulu búa yfir hæfni í að leiða skólaþróun, við stjórnun, rekstur og stjórnsýslu - og hafa menntað sig til stjórnunarstarfa.
 

TENGSL HÆFNI OG STARFSÞRÓUNAR

Hugmyndin er sú að hér á landi sé aðeins ein kennarastétt sem þó hefur til að bera margvíslega hæfni. Hið nýja lögverndaða starfsheiti er „kennari“. Einstakir kennarar geta síðan stýrt starfsþróun sinni með þeim hætti að þeir eiga greiða leið á milli skólastiga. Kennarar geta bætt við og breytt sérhæfingu sinni á starfsferlinum. Sami kennari getur hæglega sérhæft sig til kennslu á mörgum skólastigum, t.d. með þvi að auka við nám sitt hvenær sem er a starfsævinni.

Hér vakna auðvitað strax nokkrar áhyggjur. Það gæti orðið freistandi fyrir kennaranema að fara með grunnum hætti í margt, frekar en að dýpka sig í fáu, til að eiga fleiri kosta völ. Það væri þó tvíeggjað. Slíkur kennari gæti átt erfitt uppdráttar í ráðningarferlinu gagnvart kennurum með dýpri þekkingu á viðkomandi viðfangsefnum. Og enn ber að hafa í huga að hér eru skilgreind lágmarksviðmið. Það má fastlega reikna með því að á næstu árum fjölgi mjög kennurum með meistarapróf í greinum og jafnvel doktorspróf.

Það er líka ástæða til þess að óttast flótta frá einu skólastigi til annars. Á móti þvi kemur að samkeppni milli skólastiga kann að afhjúpa veikleika í starfsaðstæðum og kjörum og þrýsta þannig á um umbætur.

Ástæða þess að þetta er ekki tæmandi lýsing sérhæfingar er sú að fyrir liggja (úr stefnumótunarvinnunni um framtíð kennaramenntunar) hugmyndir á borð við þær að sérhæfing þurfi ekki að vera einskorðuð við námsgreinar eða aldur nemenda. Þannig mætti hugsa sér kennara með sérhæfingu í geðræktarstarfi, leik, notkun upplýsingatækni, jafnréttismálum, skólaþróun, nýsköpun, frumkvöðlastarfi eða teymiskennslu. Það er algjörlega í samræmi við þá hugmynd að kennarar séu nútímaleg fagstétt að sérhæfing geti legið á stærra sviði en svo að stundaskrá nemenda sé tæmandi lýsing þess. Hér er verið að reyna að halda slíkum dyrum opnum og væntanlega yrðu það kennarar og kennaramenntunarstofnanir sem bæru mestu ábyrgðina á því að stýra kennarastarfinu í þær áttir sem aðstæður krefjast hverju sinni. Það kæmi líka til kasta kennararáðs.
 

KENNARARÁÐ

Í tillögum starfshópsins frá 2005 var kallað á stofnun kennsluráðs. Sú hugmynd er inni í lagafrumvarpinu nú. Það kallast þó kennararáð nú, en þessi hugtök hafa verið notuð jöfnum höndum hingað til í umræðunni.

Ráðherra skipar formann ráðsins og einn fulltrúa til. Kennarasambandið velur þrjá (fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla), Menntamálastofnun einn, Samband íslenskra sveitarfélaga einn og Skólameistarafélag Íslands einn. Þá eru þrír fulltrúar frá kennaramenntunarstofnunum.

Ráðið á að veita ráðgjöf um þróun og breytingar á hæfnirömmum og stinga upp á þeim breytingum sem æskilegar eru til að kerfið þróist hér með eðlilegum hætti. Það á að vakta sérstaklega þróun menntamála hér á landi og erlendis og hafa áhrif á menntun og stöðu kennara. Ennfremur á það að reyna að beita sér fyrir því að efla stöðu kennara í íslensku samfélagi.
 

ÖNNUR ATRIÐI

Í drögunum er gert ráð fyrir að Menntamálastofnun gefi út leyfisbréf og að kennsluréttindi tekin erlendis séu gild að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Hér vakna auðvitað spurningar sem vert er að velta fyrir sér. Í almennum hæfnikröfum er hvergi getið um að kennarar skuli hafa vald á íslensku máli. Það væri fróðlegt að fá fram djúpa umræðu um það atriði. Ættum við að gera slíkar kröfur og ættu þær að ná til allra kennara, kennslu allra greina eða nemenda? Hvernig er þessum málum háttað erlendis? Gilda íslensk kennarapróf í öðrum löndum?

Þá vekur athygli að drögin gera ráð fyrir tvennskonar meistaragráðu til kennsluréttinda. Nemendur geti valið að ljúka rannsóknarmiðuðu námi sem lýkur þá með formlegri meistararitgerð eða með annarskonar lokaverkefni. Kjósi nemandinn að fara seinni leiðina þarf hann að bæta við sig rannsóknarmiðuðum verkefnum til að komast í doktorsnám.
 

LEIÐBEINENDUR HVATTIR TIL NÁMS

Í drögunum er gert ráð fyrir því að leiðbeinendur sem fari í réttindanám njóti nokkuð aukinna réttinda frá því sem nú er. Þannig geti skólastjórnandi ráðið inn t.d. einstakling með háskólanám í námsgrein og haldið ráðningasambandi við hann í allt að tvö ár ef hann fer að sækja sér kennsluréttindi. Með þessu er hugmyndin sú að skapa hvata til kennaramenntunar. Hér er líka verið að mæta þeirri staðreynd að framhaldskólakennarar koma gjarnan þessa leið að kennslu.
 

AÐ LOKUM

Ég held ég hafi gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsdraganna hér að ofan. Nú hvet ég kennara til að lesa frumvarpsdrögin vandlega. Mér skilst að menntamálaráðherra taki samráðsferlið alvarlega og muni taka til náinnar skoðunar allar athugasemdir sem berast. Hugmyndin með frumvarpinu er skýr: Að búa til í landinu grunn undir eina stétt kennara sem sérhæfi sig á sem fjölbreyttastan hátt. Þá er von ráðherra sú að kennarastarfið verði meira aðlaðandi í augum ungmenna sem sjái fram á meiri möguleika og hreyfanleika en í mörgum öðrum störfum.

Í grunninn er um að ræða breytingar sem háskólasamfélagið, kennaraforystan og aðrir hagaðilar hafa verið að kalla á í meira en áratug. Hvort útfærslan sé vel heppnuð eða ekki kemur eiginlega ekki í ljós fyrr en nú í samráðsferlinu þegar (vonandi) þúsundir kennara skoða málin í kjölinn, ræða drögin og gefa síðan upplýst álit á þeim.

Þess vegna skora ég á kennara að nota samráðsgáttina, samfélagsmiðla eða hvaða vettvang sem er til að fjalla um þessar breytingar.

Umsagnarfrestur er til 8. mars.

 


 

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara
EITT LEYFISBRÉF AFTURFÖR TIL FORTÍÐAR

Greinin birtist á Vísi 13. desember 2018

Það var ekkert út í loftið sem lögum nr. 87 frá 2008 var breytt á sínum tíma en þau fjalla um menntun kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Með lögunum voru sett skýr gæðaviðmið um menntun kennara á öllum skólastigum, námið lengt í fimm ár og inntak námsins skilgreint sérstaklega.

Hvað framhaldsskólann varðar þá varð útgáfa leyfisbréfa bundin við tiltekna faggrein og leyfi til kennslu í framhaldsskóla því bundið við tilteknar kennslugreinar. Lögin voru mikið framfaraskref frá eldra kerfi sem skilgreindi ekki þá nauðsynlegu sérhæfingu sem framhaldsskólakennarar þurfa að hafa.

Innan framhaldsskólans eru kenndar á annað hundrað mismunandi greina. Bóklegar greinar í hug- og raunvísindum sem og iðn-, list- og verkgreinar. Það segir sig sjálft að í framhaldsskólanum er sérhæfing námsins orðin það mikil að megin áhersla í námi framhaldsskólakennara er fagmenntunin.

Lögunum frá 2008 var einmitt ætlað að ramma inn þá augljósu staðreynd.

Hugmyndir um eitt leyfisbréf til kennslu á skólastigunum þremur ganga því gegn núverandi lögum um menntun og ráðningu kennara og yrðu þær hugmyndir að veruleika yrði stigið stórt skref aftur á bak í menntun kennara og langt aftur fyrir árið 2008.

Félag framhaldsskólakennara hefur ályktað gegn útgáfu eins leyfisbréfs og telur það gríðarlega afturför til fortíðar m.a. í ljósi þeirra gæðaviðmiða sem sett voru um menntun framhaldsskólakennara árið 2008.

Forysta leik-, og grunnskólakennara hefur aftur á móti tekið jákvætt í slíkar hugmyndir. Það má vera að það sé raunhæft að gefa út eitt leyfisbréf til kennslu í leik-, og grunnskóla, það er annarra en mitt að svara því. En hvað framhaldsskólann varðar verður ekki séð með nokkrum hætti réttlætingu á því að hverfa frá útgáfu sérhæfðra leyfisbréfa og um leið draga úr kröfum um lágmarks fagmenntun í hverri kennslugrein.

  

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands
UMRÆÐA UM LEYFISBRÉF

Greinin birtist á Vísi 21. nóvember 2018

Umræðu um skólamál ber að fagna. Uppeldi og menntun næstu kynslóða eru, ásamt umhverfismálum, líklega mikilvægustu mál sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð. Upp á síðkastið hefur nokkuð farið fyrir umræðu um leyfisbréf í fjölmiðlum. Sú umræða hefur verið býsna einhliða af nokkrum ástæðum.

Þegar ný lög voru sett um leik-, grunn- og framhaldsskóla árið 2008 var farið í ýmsar grundvallarbreytingar á menntakerfinu okkar. Eins og nýleg skýrsla Evrópumiðstöðvar um skóla án aðgreiningar sýnir þá virðist Íslendingum farast margt betur úr hendi en grundvallar kerfisbreytingar. Á ýmsum sviðum hafa orðið verulegar framfarir í kjölfar lagabreytinganna. Annað hefur gengið brösuglega. Þar mætti nefna ný viðmið um hæfni og tengsl þeirra við námsmat. Þar má líka nefna sveigjanleika á milli skólastiga og þar með útgáfu leyfisbréfa.

Í tíu ár hefur ítrekað verið reynt að taka upp umræðu um leyfisbréf. Í tíu ár hefur það mistekist. Þegar nýr menntamálaráðherra tók við embætti var málið skoðað enn og aftur. Í stað þess að reyna enn einu sinni að taka málið upp á sömu forsendum og hingað til og höfðu engu skilað var skoðuð ný hugmynd: Eitt leyfisbréf óháð skólastigum. Þetta er ný og djörf nálgun og sumum hefur reynst auðvelt að afgreiða hana sem feilpúst án nokkurra vífilengja. Sérstaklega kann hugmyndin að virðast annarleg framhaldsskólakennurum. Nánast allar gerðir leyfisbréfa eru gefnar út á framhaldsskólastigi því þar er hefðin orðin sú að afmarka starfssvið með leyfisbréfi. Á hinum skólastigunum tveimur er þessu öðruvísi farið. Kennari sem sérhæfir sig í lestrarkennslu hefur ekkert annað leyfisbréf en kennari sem sérhæfir sig í sundkennslu eða deildarstjórn ef hann starfar í leik- eða grunnskóla.

Það eru augljós vandkvæði sem fylgja því að auka sveigjanleika og samgang milli svona ólíkra kerfa. Í námi framhaldsskólakennara hefur verið lögð meiri áhersla á fagþekkingu og í grunn- og leikskóla hefur verið lögð meiri áhersla á sterkan uppeldis- og kennslufræðigrunn. Ef grunnskólakennari fer inn í framhaldsskóla, hví skyldu gerðar minni kröfur til fagþekkingar hans en annarra kennara? Ef framhaldsskólakennari fer inn í grunnskóla, hví skyldi hann fá afslátt á uppeldis- og kennslufræði?

Í ljósi þess að fyrri tilraunir til að auka þennan sveigjanleika hafa engu skilað hefur staðið yfir samtal samtaka kennara, háskólasamfélagsins, yfirvalda og sveitarfélaga um hugmyndina um eitt leyfisbréf. Þar hefur verið leitast við að meta hvort slík hugmynd geti yfir höfuð gengið upp og með hvaða hætti væri þá hægt að tryggja faglegar kröfur og sérkenni skólastiga. Þær hugmyndir sem komið hafa fram í þeirri vinnu eru skoðaðar með mjög gagnrýnum hug. Því sem augljóslega gengur ekki upp er kastað af borðinu. Það sem lofar góðu er rýnt betur.

Það má vera að þessi leið reynist ófær, eins og allar aðrar leiðir sem hingað til hafa verið reyndar, en það liggur fyrir að eitt markmið laganna frá 2008 var að auka sveigjanleikann. Það er enda margt sem mælir með honum. Það er hins vegar alls ekki auðvelt að koma honum á. Ég geri ráð fyrir að leikskólakennaranum þyki augljóst að í neðri bekkjum grunnskóla þurfi að auka vægi leiks sem kennsluaðferðar. Ég geri ráð fyrir að grunnskólakennarinn telji að í framhaldsskólann vanti aukna áherslu á uppeldis- og kennslufræði. Ég geri líka ráð fyrir því að framhaldsskólakennarinn telji að í efri bekki grunnskóla vanti meiri faggreinaþekkingu. Mig grunar líka að allir hefðu þeir rétt fyrir sér.

Mikið hefur farið fyrir þeim sem hafna alfarið hugmyndinni um eitt leyfisbréf og telja hana grafa undan fagmennsku. Það kann að vera rétt. Kannski er ekki hægt að tryggja fagmennsku tryggilega í kerfi eins leyfisbréfs. Það er þá áhyggjuefni langt út fyrir þessa umræðu því allt skyldunám í landinu fer fram undir forsendum eins leyfisbréfs.

Minna hefur farið fyrir stuðningi við hugmyndina. Það er líklega vegna þess að hugmyndin er enn á virku umræðustigi. Samtalið fer fram undir forsendum trúnaðar. Hvorki sveitarfélögin né ríkið; né háskólarnir né kennaraforystan hafa heimild til að ræða þau opinberlega nema að mjög takmörkuðu leyti. Ég fékk raunar leyfi annarra hagsmunaaðila til að skrifa þennan pistil og hef gætt þess að ræða hér ekki þær hugmyndir að útfærslum sem til skoðunar eru. Um þær ríkir enn trúnaður. Hann mun ég virða.

Fari svo að samræðan skili endanlegri tillögu fer hún í frekara samráðsferli. Kennarasambandið mun þá hafa forgöngu um að ræða og kynna hugmyndina meðal kennara, háskólarnir ræða þær á víðum grunni í sínu baklandi og stjórnvöldum ber að kynna þær meðal almennings.

Að því loknu tæki hvert aðildarfélag KÍ sjálfstæða afstöðu til málsins og sú afstaða yrði rædd í stjórn KÍ.

Ég hef verið spurður af því af hverju ég hafi ekki lýst því yfir hvaða skoðun ég hafi almennt á hugmyndinni um eitt leyfisbréf úr því umræðan sé farin af stað. Ég hef svarað því á þrennan hátt. Í fyrsta lagi þannig að óábyrgt sé að taka afstöðu til mála út frá ófullkomnum upplýsingum. Sérstaklega ef málin eru flókin. Ég veit enn ekki hvernig útfærslan kæmi til með að líta út. Í öðru hef ég svarað því þannig að kennarasamtökin og aðrir hagsmunaaðilar verði að geta átt vettvang þar sem trúnaður ríki þar til aðilar ákveða annað. Í þriðja lagi hef ég svarað því þannig að aðeins tveir stjórnarmenn í stjórn KÍ séu kosnir í almennri atkvæðagreiðslu og það sé þeirra hlutverk að tryggja að sem flest sjónarmið komist að í umræðunni. Formaður og varaformaður KÍ verða að forðast það að taka t.d. sjálfkrafa afstöðu með hagsmunum stærstu aðildarfélaganna. Í þessu máli er mér t.d. alveg sérstaklega umhugað um stöðu tónlistarkennara sem lengi hafa barist fyrir faglegri viðurkenningu innan skólakerfisins sem og stjórnenda sem líklega myndu leika lykilhlutverk í breyttu kerfi. Þar fyrir utan er mitt hlutverk fyrst og fremst að leita sem flestra sjónarmiða svo umræðan, hvort sem það er inn á við eða út á við, geti verið fagleg og víðsýn.

Það kemur væntanlega í ljós á næstu vikum hvort hugmynd um eitt leyfisbréf er á vetur setjandi. Komi fram fullmótuð tillaga hlakka ég mjög til hinnar faglegu umræðu sem hlýtur að fylgja. Því þótt þetta mál kunni að virka tæknilegt og flókið þá snýst það um grundvallaratriði er lúta að menntun. Og við þurfum meiri menntaumræðu, ekki minni.

 


Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara
KENNARASTARFIÐ - STARF Í ÖRRI ÞRÓUN

Greinin birtist á Vísi 22. nóvember 2018

Hugmyndin um að taka upp eitt leyfisbréf kennara fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, kann að virðast róttæk en ef vel er hugað að útfærslu og markmiðum getur hún orðið skref til framfara. Segja má að markmið með upptöku eins leyfisbréfs sé að viðurkenna kennslu- og uppeldisfræði sem grunnþátt í fagmennsku kennara. Í dag er ógreinabundið leyfisbréf í leik- og grunnskóla. Kennarar kenna allar námsgreinar skólastigsins og þeir ásamt stjórnendum eru lykilmenn í að greina hæfni og áhuga hvers og eins til þess að taka að sér kennslu mismunandi námsgreina. Í framhaldsskóla er leyfið aftur á móti bundið einstökum námsgreinum. Við getum öll verið sammála um að það sé grundvallaratriði að kennarastarfið sé viðurkennt sem starf sem hvílir á góðri þekkingu á uppeldis- og kennslufræði, þekkingu á námsefninu sem verið er að kenna og rannsóknarmiðuðu skólastarfi. Í stuttu máli snýst umræðan um eitt leyfisbréf fyrir öll skólastigin í raun um að kennarar mennti sig til kennslu.

Nýjar áskoranir fylgja hverri kynslóð og skólakerfið þarf að vera í stöðugri þróun. Sífellt örari samfélagslegar breytingar kalla á aukna færni kennara til að takast á við breyttar aðstæður. Ef gera á breytingar á leyfisbréfum kennara skiptir miklu máli að þær nái til allra leyfisbréfa, óháð skólastigi. Jafnframt er mikilvægt að gera ekki greinarmun á starfsréttindum fólks eftir prófaldri. Í starfi allra kennara fléttast saman menntun, reynsla og starfsþróun. Þess vegna eru reynslumiklir kennarar órofa hluti af lærdómssamfélaginu. Öflug starfsþróun tryggir að allir kennarar hafi tækifæri til að efla sig í starfi og bæta við þekkingu sína. Bjargir á borð við styrka leiðsögn stjórnenda og vandaða starfsþróun eru gríðarlega mikilvægar svo kennarar geti sinnt starfi sínu af alúð.

Hugmyndin um útgáfu eins leyfisbréfs getur í raun stutt við þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda sem hrint var í framkvæmd árið 2008 þegar kennaranámið var lengt úr þremur árum í fimm. Með þeirri breytingu var mikilvægi uppeldis- og kennslufræði undirstrikað, á sama tíma og sérhæfing kennara var styrkt.

Útgáfa eins leyfisbréfs fyrir öll skólastigin þrjú eykur hreyfanleika í íslensku skólakerfi. Hún gæti jafnframt orðið öflugt aðhald fyrir ríki og sveitarfélög sem þurfa að líta til þess að skólastigin þrjú eru býsna ólík þegar kemur að ytri umgjörð, kjörum, vinnutíma og aðbúnaði. En fyrst og síðast er það verkefni þeirra sem að menntun koma að taka höndum saman um að auka nýliðun í stétt kennara. Breyting á útgáfu leyfisbréfa, eða önnur uppstokkun í menntakerfinu, mun aldrei skila tilætluðum árangri án róttækra aðgerða til að bregðast við viðvarandi og auknum kennaraskorti, sérstaklega á leik- og grunnskólastigi. Eigi aðgerðirnar að skila árangri verður að auka aðsókn í kennaranám, styðja betur við nýútskrifaða kennara og huga að því á öllum skólastigum að kennarastarfið verði eftirsóknarvert, skapandi, sveigjanlegt og njóti sannmælis. Það er stóra verkefnið sem blasir við. Við kennarar náum ekki árangri nema við snúum bökum saman.

Ef útfærslan um eitt leyfisbréf þvert á skólastig tekst vel, verður stigið gæfuspor í íslenskri menntasögu. Spor sem undirstrikar mikilvægi ábyrgðar okkar allra á því að íslenskir skólar verði öflugar stofnanir, skipaðar sterku fagfólki sem býr yfir færni til að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í dag og í til framtíðar.

 

 

 

Ályktanir frá kennarafélögum

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS BORGARHOLTSSKÓLA
um eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum

28. febrúar 2019

Félagar í Kennarafélagi Borgarholtsskóla mótmæla harðlega hugmyndum um eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum.

Hvert skólastig krefst sérstakrar nálgunar sem endurspeglast í menntun kennara. Nemendur eiga kröfu á bestu mögulegu menntun og hún næst með því að kennarar þeirra hafi sérþekkingu og sérhæfingu í kennslugrein og á því stigi sem þeir kenna á. Kennaranámið miðast að því að hlúa að þessari sérþekkingu og það hentar best hagsmunum nemenda að hafa sérmenntaða kennara í gegnum öll skólastig.

Kennarafélag Borgarholtsskóla skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að hætta við hugmyndir sínar um eitt sameiginlegt leyfisbréf til allra kennara.
 

Borgarholtsskóla, Reykjavík
Guðrún Guðjónsdóttir, forkona KFBHS


 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS FJÖLBRAUTASKÓLANS Í BREIÐHOLTI

29. maí 2019

Kennarafélag Fjölbrautaskólans í Breiðholti varar sterklega við hugmyndum um eitt leyfisbréf til kennara sem gildi á öllum skólastigum.

Núverandi lög eru afar vönduð og vel unnin og engin ástæða til að gera þessa afdrifaríku og miklu breytingu á starfsréttindamálum kennara í þeirra óþökk.

Eitt leyfisbréf dregur úr fagmennsku í kennslu sem er áríðandi sérfræðigrein í nútímasamfélagi. Í framhaldsskólum er enn frekar áríðandi að fullkomin fagmennska sé í fyrirrúmi í kennslu.

Við hvetjum alla hlutaðeigandi að annað hvort falla frá þessu frumvarpi eða í það minnsta fresta því og gefa meiri tíma í að vinna það af fyllstu fagmennsku.

Til þrautavara leggjum við til að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennslu í leik- og grunnskóla en starfsheitið framhaldsskólakennari verði áfram skilyrt við lágmarks grunnmenntun í grein að viðbættri kennslufræði.
 

Fjölbrautaskólanum í Breiðholti,
Þórdís Ása Þórisdóttir, formaður

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS FJÖLBRAUTASKÓLA SNÆFELLINGA
vegna hugmynda um eitt leyfisbréf kennara

 

Stjórn kennarafélags Fjölbrautaskóla Snæfellinga mótmælir harðlega þeim breytingum sem reifaðar hafa verið af yfirvöldum menntamála hér á landi og hefur ályktað eftirfarandi:

Ef tilgangur slíkra breytinga á að vera að auka flæði á milli skólastiga, er sá möguleiki þegar til staðar í 21. gr. núgildandi laga nr. 87 frá 2008 um menntun og ráðningu kennara.

Ef á að breyta menntakerfinu hér á landi með því að eitt leyfisbréf gildi fyrir öll skólastig þarf að umbylta inntaki allrar kennaramenntunar. Framhaldsskólakennarar eru alla jafna með þriggja ára háskólagráðu í faggrein (BA) hið minnsta og flestir með meistarapróf auk viðbótarnáms í kennslufræðum. Grunn- og leikskólakennarar hafa sömuleiðis alla jafna meistarapróf, að meginuppistöðu í uppeldis- og kennslufræðum með áherslu á námsgrein og aldursstig nemenda. Vegna ólíkrar sérhæfingar kennara skólastiganna og ólíkra þarfa nemenda þeirra, teljum við fráleitt að ætla kennurum að hafa hæfni til kennslu allra aldurshópa.

Það að færa skólastjórnendum völd til að ráða inn þá einstaklinga sem þeim sýnist svo framarlega sem þeir hafi leyfisbréf teljum við ekki af hinu góða. Ef grunn- eða leikskólakennari með leyfisbréf sækir t.d. um stöðu stærðfræðikennara við framhaldsskóla á móti stærðfræðingi án leyfisbréfs þá fengi réttindamanneskjan væntanlega stöðuna. Þetta yrði stórt skref aftur á bak og við erum þess fullviss að verði þessar breytingar að veruleika muni þær valda óafturkræfum skaða fyrir íslenskt samfélag.

Stjórn kennarafélags Fjölbrautaskóla Snæfellinga mótmælir þessum hugmyndum því harðlega og vonar að menntamálaráðherra endurskoði afstöðu sína. Þess er vænst að viðkvæðið: Framkvæma fyrst, spyrja svo að leikslokum verði ekki haft að leiðarljósi, því: „Dýr myndi Hafliði allur ef svo skyldi hver limur".
 

f.h. Kennarafélags Fjölbrautaskóla Snæfellinga,
Erna Guðmundsdóttir, formaður
Jakob Bragi Hannesson, trúnaðarmaður

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS FJÖLBRAUTASKÓLA SUÐURNESJA

17. desember 2018

Kennarafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja mótmælir harðlega hugmyndum um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum, þ.e. leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Félagsmenn hafa áhyggjur af því að ef af þessu verður þá muni nemendur ekki fá þá kennslu sem þeir eiga rétt á. Kennarar sem ráðist til starfa hafi ekki þá menntun og sérþekkingu á skólastiginu sem nauðsynleg er til þess að koma til móts við þarfir nemenda og veita þeim sem besta menntun.

Félagsmenn hafa áhyggjur af því að þetta verði til þess að skólar verði ekki í stakk búnir til þess að sinna hlutverki sínu eins og best er á kosið og skólastarfi muni hraka.

Kennarafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja lýsir yfir þungum áhyggjum af þeim grundvallarbreytingum á fyrirkomulagi menntunar ungdómsins sem birtist í slíkum framkomnum hugmyndum, og telur breytingarnar að öllu leyti varhugaverðar.

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS FJÖLBRAUTASKÓLANS Í GARÐARBÆ
vegna hugmynda um eitt leyfisbréf kennara

3. desember 2018

Stjórn og félagar Kennarafélags Fjölbrautaskólans í Garðabæ mótmæla hugmyndum sem komið hafa fram um eitt leyfi fyrir alla kennara á leik, grunn- og framhaldsskólastigi. Einnig tökum við heilshugar undir þær yfirlýsingar sem komið hafa fram um málið.

Við álítum að stjórnvöld og yfirvöld menntamála þurfi miklu frekar að horfa til annarra þátta í menntakerfi landsins, með það að markmiði að bæta menntun á Íslandi. Þá teljum við mikilvægt að fara í aðgerðir sem auka veg og virðingu kennarastarfsins hér á landi.

Eitt sameiginlegt leyfisbréf leysir því ekki vanda menntakerfisins á Íslandi og telur félagið að þetta muni draga úr vægi og rýra sérþekkingu og sérhæfingu hvers skólastigs.

Nýlega var nám til stúdentsprófs stytt um eitt ár og við það tapaðist ákveðin breidd í námi. Því miður. Framhaldsskólakennarar og nemendur hafa verið að aðlaga sig að þeim breytingum og sýnt mikinn sveigjanleika í því. Það er mikilvægt að kennarar fái svigrúm til þess að gera sem best úr þeirri breytingu. Nýtt og frekara umrót er því ónauðsynlegt að okkar mati.
 

Fyrir hönd Kennarafélags FG,
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, formaður

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS FLENSBORGARSKÓLANS Í HAFNARFIRÐI
vegna hugmynda um eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig

 

Kennarafélag Flensborgarskólans í Hafnarfirði mótmælir hugmyndum um að gefið verði út eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig. Kennsla á framhaldsskólastigi krefst sérhæfingar sem er ólík þeirri sem önnur skólastig krefjast. Sérhæfing fagkennara er nauðsynleg framhaldsskólum og mun breyting á leyfisbréfum rýra gildi hverskonar sérhæfingar sem kennarar hafa. Enn fremur er það álit félagsins að það eigi við um sérhæfingu allra kennara á öllum skólastigum. Með breytingum sem þessum er fullljóst að menntamálaráðuneyti forgangsraði hagsmunum skrifræðis ofar hagsmunum menntunar á Íslandi.

Þá vill félagið lýsa yfir stuðningi við ályktun félagsfundar FF sem haldin var 19. nóvember síðastliðinn sem og annarra kennarafélaga sem ályktað hafa um sama mál á síðustu dögum og vikum.
 

Fyrir hönd kennarafélags Flensborgarskólans í Hafnarfirði,
Heimir Björnsson, formaður

 


 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS FRAMHALDSSKÓLANS Í MOSFELLSBÆ
vegna hugmynda um eitt leyfisbréf til kennara áháð skólastigum

 

Félagar í Kennarafélagi Framhaldsskóla Mosfellsbæjar mótmæla harðlega hugmyndum um eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum.

Hvert skólastig krefst sérstakrar nálgunar, sem krefst sérþekkingar á hverju stigi fyrir sig. Nemendur eiga kröfu á bestu mögulegu menntun og hún næst með því að kennarar þeirra hafi sérþekkingu og sérhæfingu í kennslugrein og á því stigi sem þeir kenna á. Kennaranámið miðast að því að hlúa að þessari sérþekkingu og það hentar best hagsmunum nemenda að hafa sérmenntaða kennara í gegnum öll skólastig. Viðurkenna þarf að kennsla á öllum skólastigum krefst sérfræðiþekkingar.
Kennarafélag Framhaldsskólans í Mosfellsbæ skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að hætta við hugmyndir sínar um eitt sameiginlegt leyfisbréf til allra kennara.
 

Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ, Mosfellsbæ
Björk Ingadóttir, forkona Kennarafélagsins í Mosfellsbæ

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS KVENNASKÓLANS Í REYKJAVÍK

30. nóvember 2018

Kennarafélag Kvennaskólans í Reykjavík, Krákan, mótmælir harðlega hugmyndum um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum. Í kennaranámi eru ólíkar áherslur fyrir hvert skólastig enda þarfir nemenda hvers stigs mismunandi. Því verða leyfisbréf að miðast við markmið hvers skólastigs fyrir sig. Með hugmyndunum um eitt leyfisbréf er vegið að sérþekkingu kennara og sérhæfingu á hverju skólastigi. Auk þess eru hagsmunir nemenda ekki hafðir að leiðarljósi. Kennarafélagið mælist til þess að efni kennaramenntunarlaga um heimild kennara til að kenna í samræmi við menntun sína á aðliggjandi skólastigi komist í framkvæmd.

Kennarafélag Kvennaskólans lýsir hér með yfir fullum stuðningi við ályktun félagsfundar FF sem haldinn var 19. nóvember síðastliðinn þar sem hugmyndum um eitt leyfisbréf var mótmælt. Kennarafélagið sendir stjórn FF stuðnings- og baráttukveðjur í þeirri vinnu sem framundan er og þetta mál varðar.

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS MENNTASKÓLANS AÐ LAUGARVATNI

26. nóvember 2018

Félagsfundur Kennarafélags Menntaskólans að Laugarvatni, haldinn 26. nóvember 2018, mótmælir hugmyndum um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum, þ.e. á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Félagið telur að þessar hugmyndir séu ekki til þess fallnar að hagsmunir nemenda séu hafðir í fyrirrúmi. Vegið sé að faglegum forsendum hvers skólastigs fyrir sig og farið sé á svig við þá meginreglu framhaldsskólans að kennarar skuli hafa fagþekkingu og leyfisbréf í viðkomandi kennslunámsgrein.

Félagið telur réttara að leita annarra leiða til að koma í veg fyrir kennaraskort.

Samþykkt samhljóða á áðurnefndum fundi.

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS MENNTASKÓLANS Á EGILSSTÖÐUM

11. febrúar 2019

Kennarafélag Menntaskólans á Egilsstöðum mótmælir harðlega hugmyndum um að gefið verði út eitt leyfisbréf fyrir alla kennara.

Ólík skólastig krefjast ólíkrar nálgunar. Kennaramenntun í landinu miðast við þrj ólík skólastig. Framhaldsskólakennarar hafa nauðsynlega sérkþekkingu í sínum fögum til að kenna námsgreinar miðað við námsefni og kröfur til nemenda á framhaldsskólastigi. Það er í meira lagi undarlegt að sérþekking skipti skyndilega ekki máli.

Hagsmundir nemenda virðast ekki hafðir að leiðarljósi ef ólík menntun kennara veitir eitt leyfisbréf óháð skólastigum. Til hvers er þá sérhæfing í námi kennara?

Kennarafélag Menntaskólans á Egilsstöðum skorar á menntamálaráðhera að hætta við fyrirhugaðar breytingar varðandi eitt leyfisbréf óháð skólastigum og standa þannig vörð um menntun í landinu.
 

Menntaskólanum á Egilsstöðum,
Árni Friðriksson, formaður KFME

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS MENNTASKÓLANS Á ÍSAFIRÐI

4. desember 2018

Áskorun til mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Daggar Alfreðsdóttur.

Kennarafélag Menntaskólans á Ísafirði mótmælir harðlega hugmyndum um eitt leyfisbréf fyrir kennara óháð skólastigum.

Gildandi lög um kennaramenntun endurspegla öfugt við ofangreint að kennarar á öllum þremur skólastigunum þurfi bæði öfluga menntun í kennarafræðum og meiri sérhæfingu en eldri lög gerðu kröfu um. Kröfur um sérhæfingu hafa aukist í kennslugreinum eða á fagsviðum á öllum skólastigunum. Þá hafa kröfur til verðandi framhaldsskólakennara um kennslufræðimenntun einnig aukist. Rökin fyrir þessum breytingum voru meðal annars almenn þörf fyrir meiri menntun og sérfræðiþekkingu. Eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig er algjörlega andstætt slíkri fagþekkingu. Það er t.d. algjörlega glórulaust að okkar mati að kennarar í framhaldsskólum fari að kenna í leikskólum. Hagsmunir nemenda eru einnig fyrir borð bornir með þessari fyrirhuguðu breytingu að okkar mati.

Það er heldur ekki að sjá að þessi fyrirhugaða breyting muni ráða bót á kennaraskorti en bent skal á að 21. grein laga nr. 87 frá árinu 2008 opnar á möguleika til að nýta krafta kennara á samhliða skólastigum ef skortur er á kennurum þ.á.m. kennurum til að kenna á grunnskólastigi.

Kennarafélag MÍ skorar því á mennta- og menningarmálaráðherra að hætta við hugmyndir um eitt leyfisbréf kennara fyrir öll skólastig.
 

Menntaskólanum á Ísafirði,
Emil Ingi Emilsson, formaður KFMÍ 

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS MENNTASKÓLANS Í KÓPAVOGI
frá félögum FF og FS

23. nóvember 2018

Kennarafélag Menntaskólans í Kópavogi mótmælir hugmyndinni um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum.

Sú kennsla sem fram fer á hverju skólastigi fyrir sig er ólík og þarfir nemenda hvers stigs mismunandi. Kennaranám byggir á því að auka hæfni og getu kennarans til að kenna á hverju skólastigi fyrir sig. Það þjónar ekki hagsmunum nemenda að gefa út eitt leyfisbréf þar sem kennarar með mismunandi fagþekkingu geti kennt á öllum skólastigum. Það hlýtur að verða að horfa til þess hve mismunandi námið er á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi og miða leyfisbréfið við markmið hvers skólastigs fyrir sig. Menntakerfið skal ávallt hafa fyrst og fremst hagsmuni nemenda að leiðarljósi.

Fyrir vikið telur Kennarafélag Menntaskólans í Kópavogi hugmyndina um sameiginlegt leyfisbréf á skólastigunum þremur vera vanhugsaða og mótmælir því kröftuglega þessum áformum.

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS MENNTASKÓLANS Í REYKJAVÍK

19. nóvember 2018

Félag kennara Menntaskólans í Reykjavík mótmælir harðlega öllum hugmyndum um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum, þ.e. leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Telur félagið einkar mikilvægt að huga að þörfum og nauðsynjum hvers skólastigs fyrir sig og álítur hugmyndir um eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig gjörsamlega óverjandi ef hafa eigi hagsmuni nemenda í fyrirrúmi. Með hugmyndunum sé alvarlega vegið að faglegum forsendum hvers skólastigs fyrir sig, sem og þeim grundvallarmannréttindum nemenda að tryggja þeim bestu fáanlegu menntun á hverju skólastigi. Má benda á að almennt megi stórlega efast um færni og sérhæfingu kennara af einu skólastigi til að ráðast í kennslu á öðru. Telur Félag kennara Menntaskólans í Reykjavík því að með slíkum hugmyndum sé gróflega vikið frá öllum þeim faglegu kröfum sem fylgt hafa hverju skólastigi.

Fyrir vikið lýsir Félag kennara Menntaskólans í Reykjavík yfir þungum áhyggjum af þeim grundvallarbreytingum á fyrirkomulagi menntunar ungdómsins sem birtist í slíkum framkomnum hugmyndum, og telur breytingarnar að öllu leyti varhugaverðar.

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS MENNTASKÓLANS VIÐ HAMRAHLÍÐ
áskorun til mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Daggar Alfreðsdóttur

23. nóvember 2018

Kennarafélag Menntaskólans við Hamrahlíð mótmælir harðlega hugmyndum um eitt leyfisbréf fyrir kennara óháð skólastigum. Leikskólar, grunnskólar og framhaldsskólar eiga það sameiginlegt að þar fer fram menntun. Hún er hins vegar með afar ólíku sniði og krefst sérþekkingar á hverju stigi fyrir sig.

Kennarafélag MH krefst þess að fagleg sérhæfing verði virt. Tryggja skal að nemendur hljóti alltaf bestu mögulega menntun. Viðurkenna þarf að kennsla á öllum skólastigum krefst sérfræðiþekkingar. Eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig er aðför að fagþekkingu og sérhæfingu. Hætta er á að það leiði af sér faglega hnignun.

Eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig mun ekki bæta kennaraskort. Gríðarleg vinna var lögð í samningu laga nr. 87 frá 2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Bent skal á að 21. grein þeirra opnar á möguleika til að nýta krafta kennara á samhliða skólastigum ef skortur er á kennurum. Augljósa lausnin á kennaraskorti er hins vegar að bæta kaup þeirra og kjör.

Kennarafélag MH skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að hætta við hugmyndir um eitt leyfisbréf kennara fyrir öll skólastig.
 

Menntaskólanum við Hamrahlíð,
Guðlaug Guðmundsdóttir formaður KFMH

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAG MENNTASKÓLANS VIÐ SUND

22. nóvember 2018

Aðalfundur Sundamanna, kennarafélags í Menntaskólans við Sund haldinn 22. nóvember 2018 lýsir yfir fullum stuðningi við allt það sem fram kom í ályktun félagsfundar FF frá því mánudaginn 19. nóvember sl.. Þá lýsa Sundamenn einnig yfir fullum stuðningi við stjórn FF og sendir henni baráttukveðjur í þeirri vinnu sem hún stendur frammi fyrir í tengslum við hugmynd ráðherra um að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennara óháð skólastigum.

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS TÆKNISKÓLANS
um tillögu um útgáfu eins leyfisbréfs fyrir öll skólastig

 

Stjórn Kennarafélags Tækniskólans mótmælir harðlega þeirri tillögu að gefið verði út eitt leyfisbréf fyrir öll skólastig. Með þessum hugmyndum er vegið að sérþekkingu kennara og sérhæfingu á hverju skólastigi og er slíkt síst til þess fallið að efla skólastarfið. Hagsmunir nemenda á framhaldsskólastigi eru fyrir borð bornir með þessari tillögu þar sem ætla má að nái hún fram að ganga slakni á kröfum um sérmenntun kennara fyrir skólastigið.

Kennarafélag Tækniskólans telur því að hér sé um aðför að faglegri sérþekkingu að ræða og að hagsmunir nemenda séu hér ekki hafðir að leiðarljósi. Stjórn félagsins mælist til þess að efni kennaramenntunarlaga um heilmild kennara til að kenna í samræmi við menntun sína á aðliggjandi skólastigi komist í framkvæmd sem fyrst.
 

Fyrir hönd kennarafélags Tækniskólans,
Hlöðver Eggertsson formaður

 

 

ÁLYKTUN KENNARAFÉLAGS VERKMENNTASKÓLANS Á AKUREYRI
 

Kennarafélag VMA lýsir eindreginni andstöðu við hugmyndir um eitt leyfisbréf fyrir kennara. Verði frumvarp þess efnis að lögum er dregið verulega úr menntunar- og gæðakröfum til kennara á öllum skólastigum og úr mikilvægri sérhæfingu sem gerð er krafa um í núgildandi lögum.
 

Samþykkt á félagsfundi í kennarafélagi VMA 15. mars 2019
 

 

 

 

Tengt efni