is / en / dk


Alþjóðasamband kennara (EI) er málsvari þeirra sem starfa við menntastofnanir hvarvetna í heiminum hvort heldur þeir eru kennarar eða aðrir starfsmenn menntastofnana á öllum skólastigum. Þar sem það er stærsta bandalagið í heimi (Global Union Federation, GUF) og það eina sem hefur náð fótfestu í öllum heimshornum sameinar EI kennara og aðra starfsmenn menntastofnana og kemur á framfæri sameiginlegri sýn þeirra á menntastefnu, kennarastarfið, starfsskilyrði og tengd málefni.

EI hefur að leiðarljósi grundvallarreglur um lýðræði, mannréttindi og félagslegan jöfnuð. Það er óháð ríkisstjórnum og stofnunum ríkjabandalaga og ekki undir áhrifum eða stjórn stjórnmálaafla, annarra hugmyndafræðilegra afla eða trúarhópa. Alþjóðasambandið stendur vörð um réttindi allra kennara og starfsmanna menntastofnana og berst fyrir því að allir njóti góðrar menntunar.

EI er málsvari verkalýðsréttinda og styður við þróun sjálfstæðra og lýðræðislegra samtaka kennara, háskólafólks við kennslu og vísindaiðju sem og annarra starfsmanna menntastofnana. Samtökin vinna að því að skapa einhug og efla samvinnu. Þau berjast gegn (neikvæðri) mismunun í menntun og í samfélaginu almennt og hvetja til samstöðu starfsmanna menntastofnana í öllum löndum heimsins. Eftir átján ára vinnu við stefnumörkun á þingum sínum og ráðstefnum, bæði alþjóðlegum og svæðisbundnum, hefur Alþjóðasamband kennara ákveðið að leggja fram heildstæða stefnu í menntamálum. Þessi stefna felur í sér þá lykilþætti sem tilvera EI grundvallast á og endurspeglar þau markmið í menntamálum sem samræmast hefðum um starfsemi samtakanna.

Stefnan er í beinni andstöðu við hina þröngu notagildishugmynd að menntun felist í því að kenna nemendum verkkunnáttu sem miðar að því að þeir verði starfsmenn á afmörkuðum sviðum samfélagsins. Áhersla er lögð á víðara sjónarhorn um menntun er tekur tillit til samfélagslegra og alþjóðlegra gilda sem og þátta er varða menningu, lýðræði, efnahagslegar þarfir og umhverfissjónarmið. EI leggur áherslu á að menntun sé mannréttindi og almannagæði og geri fólki á öllum aldursskeiðum kleift að fá sem mest út úr lífinu og öðlast skilning á sjálfu sér, hlutverki sínu og tengslum við aðra. Menntun er einnig lykill að því að miðla, greina og nýta þekkingu og reynslu og hún gegnir meginhlutverki í sköpun nýrrar þekkingar með rannsóknum og nýsköpun. Hlutverk hennar er víðtækara en vélræn notagildishugsunin endurspeglar, sem margir forsprakkar markaðs- og þjónustuhyggju leggja áherslu á.

Þessi stefnuyfirlýsing byggir á hugmyndafræði og grunngildum EI og endurspeglar grundvallarsjónarmið og kröfur kennarasamtaka um allan heim. Það er sannfæring EI að góð menntun sé mannréttindi, stjórnvöld beri ábyrgð á frjálsum menntunarmöguleikum fyrir alla á jafnræðisgrundvelli sem og þjóðfélagslegu jafnrétti, góðri kennaramenntun og virðingu fyrir kennarastarfinu. Yfirlýsingin nær einnig til viðfangsefna sem þarfnast úrlausnar og vinna þarf skipulega og ötullega að.

 
 
 
ÍTAREFNI

Tengt efni