is / en / dk


Í kjarasamningi Félags grunnskólakennara (FG) og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) var árið 2014 samið um framlag í sérstakan sjóð sbr. bókun í samningi aðila.

Frá og með gildistöku samkomulags þessa verði iðgjald sem nemur 0,1% af heildarlaunum félagsmanna lagt á sérstakan reikning þar til ákvörðun hefur verið tekin um framtíðarráðstöfin þess.


Ársfundur FG árið 2015 ákvað að setja á fót Fræðslu- og kynningarsjóð FG sem hefði eftirfarandi grunnmarkmið:

 • A - Styrkja menntunarátak starfandi félagsmanna FG með leyfisbréf til grunnskólakennslu til að afla sér fyrstu meistaragráðu.
 • B - Útgáfu á fræðslu- og kynningarefni um nýja strauma og stefnur í málefnum kennara og efni sem ætlað er að styrkja kennara í starfi.
 • C - Styrkja rannsóknir, ritgerðasmíði eða útgáfu á efni sem styrkir og bætir starf og starfsaðstæður kennara, auk þess að hafa jákvæð áhrif á kennarastarfið. Auglýsa skal eftir styrkþegum og verkefnum.
 • D - Styrkja og efla starf trúnaðarmanna.
 • E - Styrkja almennt fræðslu- og kynningarstarf félagsins og svæðafélaga þess.
   

Samráðsfundir stjórnar og svæðaformanna FG samþykkja styrki og upphæð þeirra. Að auki skuli skýrslur um ráðstöfun styrkja lagðar fyrir árs- og aðalfundi félagsins.
 

Um sjóðinn

STJÓRN
Stjórn sjóðsins skal skipuð á samráðsfundi félagsins og skulu tveir stjórnarmenn FG og tveir svæðaformenn FG tilnefndir. Að auki situr formaður félagsins í stjórn og er jafnframt formaður stjórnar. Stjórnin starfar skv. reglum þessum og ákvörðunum árs- og aðalfunda FG. Allar styrkúthlutanir skulu lagðar fyrir samráðsfund stjórnar og svæðaformanna FG til staðfestingar. Ákvarðanir stjórnar sjóðsins er varða styrkúthlutanir eru endanlegar gagnvart félagsmönnum.

Stjórn er heimilt að nota allt að 90% af fé sjóðsins til að styrkja menntunarátak FG til fyrstu meistaragráðu. Reglur þessar og styrkupphæðir skulu endurskoðaðar minnst árlega af stjórn og lagðar fyrir ársfund félagsins.
 

A. MENNTUNARÁTAK FG - fyrsta meistaragráða
Félag grunnskólakennara styrkir félagsmenn sem vilja sækja sér viðbótarmenntun sem lýkur með meistaragráðu.* Þetta á ekki við þá sem ljúka 5 ára námi til meistaragráðu og leyfisbréfs grunnskólakennara.

Styrkþegar skulu einnig uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 1. Ljúka námi til meistaragráðu við íslenskan háskóla 1. maí 2014 eða síðar. Um sé að ræða fyrstu meistaragráðu sem viðkomandi aflar sér t.d. M.Ped, M.Ed, MA, MS. Má nefna í því sambandi nýtt sérsniðið nám fyrir starfandi grunnskólakennara hjá HÍ, sjá hér.
 2. Hafa leyfisbréf til kennslu í grunnskóla, vera félagsmaður FG í samfellt 6 mánuði áður en sótt er um og í a.m.k. 50% starfi þann tíma.
   

Umsóknarfrestur og styrkúthlutun
Umsóknarfrestur um styrki er til 1. mars og 1. september ár hvert og eru styrkir veittir í kjölfarið í apríl og október. Úthlutað verður í fyrsta skipti 1. september 2016 og verður opnað fyrir umsóknir 1. maí sama ár.
 

Styrkupphæð
Samráðsfundir stjórnar og svæðaformanna FG samþykkja styrki og upphæð þeirra og ræðst styrkupphæð af fjárhagsstöðu sjóðsins og fjölda umsókna á hverjum tíma. Fyrst um sinn er gert ráð fyrir að styrkurinn verði 2-300.000 kr. pr. styrkþega.
 

Með styrkumsókn skulu fylgja eftirfarandi gögn:

 1. Afrit af leyfisbréfi.
 2. Afrit af námsferli og meistaraskírteini.
 3. Afrit af nýjustu vinnuskýrslu viðkomandi / staðfesting á 6 mánaða samfelldu starfi í aðdraganda umsóknar.
   

Reynist umsóknir ófullnægjandi getur sjóðsstjórn óskað eftir frekari gögnum og upplýsingum. Umsókn er gild í 1 ár frá því að hún berst.

Sótt er um styrkinn rafrænt á Mínum síðum hjá Kennarasambandi Íslands. Fyrsta afgreiðsla umsókna verður í október 2016.

 

B, C, D OG E
Stjórn sjóðsins skal árlega setja fram á ársfundi félagsins markmið sjóðsins vegna eftirfarandi liða (B-E) til lengri og skemmri tíma til samþykktar. Í fyrsta skipti skulu markmið sjóðsstjórnar lagðar fyrir ársfund félagsins árið 2016 vegna:

B - Útgáfu á fræðslu- og kynningarefni um nýja strauma og stefnur í málefnum kennara og efni sem ætlað er að styrkja kennara í starfi.

C - Styrkja til rannsókna, ritgerðasmíði eða útgáfu á efni sem styrkir og bætir starf og starfsaðstæður kennara, auk þess að hafa jákvæð áhrif á kennarastarfið. Auglýsa skal eftir styrkþegum og verkefnum.

D - Eflingu starfs trúnaðarmanna.

E - Almenns fræðslu- og kynningarstarf félagsins og svæðafélaga þess.

 

*Þetta ákvæði nær ekki til leiðbeinenda.

 

Tengt efni