is / en / dk


Rannsóknasjóður KÍ var stofnaður í apríl 2019 samkvæmt samþykkt á 8. þingi KÍ vorið 2018. Markmið sjóðsins er að veita styrki til rannsókna sem styðja við skólastarf og dagleg störf félagsmanna Kennarasambands Íslands (KÍ) í skólum, þróa nýja fræðiþekkingu sem félagsmenn KÍ hafa þörf fyrir og stuðla að auknum gæðum í skólastarfi.
 

VIÐMIÐ UM AUGLÝSINGAR OG MAT Á UMSÓKNUM

Stjórn sjóðsins gerir tillögur að reglum um markmið og hlutverk sjóðsins, áherslusvið, auglýsingar á umsóknum, viðmið um mat á umsóknum og upplýsingar um þá fjármuni sem eru til úthlutunar hverju sinni.

 • Nefndin úthlutar styrkjum. Í mati á umsóknum skal fara eftir því hversu vel verkefnin þjóna markmiðum sjóðsins, sbr. 2. gr.
 • Heimilt er að veita styrki úr sjóðnum til einstaklinga og hópa en gerð er krafa um að umsækjandi sé virkur félagsmaður í KÍ og geti sýnt fram á faglega hæfni til þeirra rannsókna sem sótt er um.
 • Tryggt skal vera að verkefni sem hljóta styrk hafi gildi fyrir skólastarf og störf félagsmanna.
 • Lögð er áhersla á víðtæka miðlun niðurstaðna til að tryggja þekkingu stéttarinnar á verkefnum og möguleika til að nýta niðurstöður í daglegu skólastarfi.
 • Styrkþegar skulu gera grein fyrir ráðstöfun styrkfjárins innan árs frá móttöku þess og fer lokagreiðsla styrks ekki fram fyrr en lokafurð hefur borist.
 • Rannsóknasjóðurinn tekur ekki þátt í kostnaði vegna tölvu- eða tækjakaupa.

 

SKÓLAÁRIÐ 2019 - 2020

Skólaárið 2019-2020 eru áherslusvið samkvæmt 8. grein reglna Þróunarsjóðs KÍ og skulu beinast að:

 • Daglegu starfi félagsmanna, viðfangsefnum sem spretta úr daglegri önn skólastarfsins.
 • Breytilegu hlutverki menntunar.
 • Nýjum viðfangsefnum, áherslum og starfsaðferðum.
   

Heildarstyrkupphæð er, samkvæmt 8. þingi KÍ 2018, 5 milljónir og er hámarksstyrkupphæð 1,5 milljón samkvæmt ákvörðun sjóðsstjórnar.

Umsóknarfrestur er til 20. maí 2019 og skal úthlutunum lokið 1. júní.

 

1. gr.
Sjóðurinn heitir Rannsóknasjóður Kennarasambands Íslands og starfar með því skipulagi og markmiðum sem segir í reglum þessum. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.
 

2. gr.
Markmið sjóðsins er að veita styrki til rannsókna sem styðja við skólastarf og dagleg störf félagsmanna Kennarasambands Íslands (KÍ) í skólum, þróa nýja fræðiþekkingu sem félagsmenn KÍ hafa þörf fyrir og stuðla að auknum gæðum í skólastarfi.
 

3. gr.
Stjórn sjóðsins er skipuð sex einstaklingum. Þar af einum starfandi fræðimanni í háskóla sem er tilnefndur sameiginlega af Menntavísindasviði HÍ, Háskólanum á Akureyri og Listaháskóla Íslands. Skólamálanefndir félaga kennara og stjórnenda tilnefna einn sameiginlegan fulltrúa af þeim fulltrúum sem sitja í skólamálaráði fyrir hvert skólastig, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla þ.e.a.s. samtals þrjá fulltrúa. Fagráð tónlistarskóla tilnefnir einn fulltrúa af þeim fulltrúum sem sitja í skólamálaráði. Varaformaður KÍ er formaður sjóðsnefndar.
 

4. gr.
Hlutverk stjórnar sjóðsins er að gera tillögur til stjórnar KÍ um áherslusvið rannsókna sem hafa forgang hverju sinni með hliðsjón af skólastefnu KÍ, auglýsa áherslusvið og umsóknir, meta umsóknir, úthluta styrkjum og að hafa eftirlit með framkvæmd rannsókna sem sjóðurinn styrkir.
 

5. gr.
Tekjur sjóðsins eru framlög frá KÍ eftir því sem þing KÍ ákveða hverju sinni og aðrar tekjur er sjóðnum kunna að hlotnast.
 

6. gr.
Rétt til að sækja um styrk í sjóðinn hafa virkir félagsmenn KÍ sem einnig hafa greitt félagsgjöld til KÍ síðastliðna sex mánuði áður en umsóknarfresti lýkur.
 

7. gr.
Stjórn sjóðsins auglýsir eftir umsóknum með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara áður en umsóknarfresti lýkur og úthlutar úr sjóðnum.

Auglýsing skal birt á heimasíðu KÍ og send með tölvupósti til þeirra félagsmanna sem hafa samþykkt að vera á póstlista KÍ. Stjórn sjóðsins skal hafa lokið afgreiðslu umsókna fyrir 1. júní hvert ár. Heimilt er að ákveða að tiltekin áhersluatriði hafi forgang við úthlutun styrkja enda sé þess getið í auglýsingum.
 

8. gr.
Upphæð og fjöldi styrkja getur verið breytileg milli ára og eru ákveðin af stjórn sjóðsins ár hvert. Heimilt er að ákvarða breytingar eftir að umsóknarfresti lýkur og áður en ákvörðun um úthlutun fer fram. Stjórn sjóðsins ákveður hvaða umsóknir hljóta styrk og er heimilt að synja hluta eða öllum umsóknum. Ákvörðun stjórnar sjóðsins er endanleg.

Styrkir úr Rannsóknasjóði Kennarasambands Íslands skulu veittir til vel skilgreindra rannsókna er stuðla að sterkari tengslum milli þekkingar sem byggð er á reynslu og reynslu sem byggð er á rannsóknum og að aukinni þátttöku stéttarinnar í rannsóknastarfi.

Rannsóknirnar skulu beinast að:

 • Daglegu starfi félagsmanna, viðfangsefnum sem spretta úr daglegri önn skólastarfsins.
 • Breytilegu hlutverki menntunar.
 • Nýjum viðfangsefnum, áherslum og starfsaðferðum.
   

9. gr.
Með umsókn samþykkir umsækjandi að hljóti hann styrk muni KÍ fá endurgjaldslaust afrit af rannsókn/afurð/verkefni í fullri lengd og að KÍ verði heimilt að birta og vitna til þeirra upplýsinga sem þar koma fram endurgjaldslaust.
 

10. gr.
Umsóknum skal skilað á rafrænu formi á Mínum síðum á vef KÍ.
 

11. gr.
Samþykktur styrkur er að jafnaði greiddur út í tveimur hlutum Fyrri hlutinn 30% er greiddur þegar rannsóknaráætlun liggur fyrir og sá seinni 70% við lokaskil rannsóknar til sjóðsstjórnar.

Skuldbinding sjóðsins gagnvart verkefni fellur niður ef verkefni er ekki lokið innan tveggja ára frá því að styrkur er veittur. Verði brestur á að ráðist sé í verkefni, tefjist framkvæmd þess úr hófi eða komi önnur skilyrði sem styrkveiting kann að vera bundin ekki fram innan eðlilegra tímamarka getur stjórn sjóðsins fellt styrkveitingu niður. Ef sýnt þykir að styrkfé hafi ekki verið eða verði nýtt í þeim tilgangi sem ætlað var getur stjórn sjóðsins fyrir hönd KÍ krafist þess að sjóðnum verði endurgreiddur styrkur í heild eða að hluta. Áður en ákvörðun samkvæmt 1. eða 2 mgr. er tekin skal styrkþega gefinn kostur á að lýsa viðhorfi sínu til málsins.
 

12. gr.
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið.
 

13. gr.
Sjóðsnefnd gerir tillögur til stjórnar KÍ um áherslusvið rannsóknarverkefna sem hafa forgang hverju sinni með hliðsjón af skólastefnu KÍ, auglýsir áherslusvið og umsóknir, metur umsóknir, úthlutar styrkjum og hefur eftirlit með framkvæmd verkefna.

Nefndin setur reglur um markmið og hlutverk sjóðsins, áherslusvið, auglýsingar á umsóknum, viðmið um mat á umsóknum og upplýsingar um þá fjármuni sem eru til úthlutunar hverju sinni. Stjórn KÍ staðfestir starfsreglur sjóðsins.

Breytingar á reglum sjóðsins taka ekki gildi fyrr en stjórn KÍ hefur samþykkt þær.

 

 • Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður KÍ, formaður sjóðstjórnar.
 • Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor við HÍ, fulltrúi Háskólastigsins.
 • Alma Oddgeirsdóttir, í stjórn FS, fulltrúi framhaldsskólastigsins.
 • Hjördís Albertsdóttir, varaformaður FG, fulltrúi grunnskólastigs.
 • Hulda Jóhannsdóttir, varaformaður FSL, fulltrúi leikskólastigsins.
 • Ingunn Ósk Sturldóttir, varaformaður FT, fulltrúi tónlistarskóla.

Varamenn í stjórn: 

 • Ragnar Þór Pétursson, fyrir KÍ
 • Guðjón H. Hauksson, fyrir framhaldsskólastig
 • Magnús J. Magnússon, fyrir grunnskólastig
 • Sveinlaug Sigurðardóttir, fyrir leikskólastig
 • Sigrún Grendal, fyrir tónlistarskólann

 

 

 

 

Tengt efni