is / en / dk

 

Reglur um Starfsþróunarsjóð annarra háskólamenntaðra starfsmanna í Félagi leikskólakennara

1. grein
Sjóðurinn heitir Starfsþróunarsjóður annarra háskólamenntaðra starfsmanna í Félagi leikskólakennara og starfar með því skipulagi og markmiði, sem segir í reglum þessum. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein
Markmið sjóðsins er að styrkja aðra háskólamenntaða sem starfa samkvæmt kjarasamningi Félags leikskólakennara til að sækja nám á Íslandi í menntunarfræði leikskóla sem veitir þeim leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi.

3. grein
Stjórn sjóðsins er skipuð af stjórn Félags leikskólakennara.

4. grein
Tekjur sjóðsins eru framlög launagreiðenda og vaxtatekjur. Launagreiðandi greiðir samtals 0.35% af heildarlaunum félagsmanna Félags leikskólakennara í sjóðinn.

5. grein
Rétt til að sækja um styrk hafa aðrir háskólamenntaðir sem eru í 25% starfi að lágmarki, hafa starfað samkvæmt kjarasamningi Félags leikskólakennara í a.m.k þrjá síðastliðna mánuði, hafa lokið að lágmarki 180 ECTS einingum frá viðurkenndum háskóla, með BA, BS eða B.Ed. prófi og hafa ekki leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi.

6. grein
Afgreiðsla umsókna fer fram í nóvember ár hvert. Umsóknir þurfa að berast fyrir 1. nóvember.

7. grein
Upphæð og fjöldi styrkja eru ákveðin af stjórn ár hvert, miðað við það fjármagn sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar hverju sinni.

8. grein
Ef umsóknir eru fleiri en fjármagn sjóðsins leyfir er sjóðsstjórn heimilt að draga úr gildum umsóknum.

9. grein
Sótt er um á Mínum síðum á vef KÍ. Með umsókn þarf að fylgja viðurkennd staðfesting á skólavist, staðfesting á starfsreynslu, starfshlutfalli og menntun samkvæmt 5. grein. Félagsmaður sem hlotið hefur styrk getur ekki sótt um aftur.

10. grein
Samþykktur styrkur er greiddur út eftir að umsækjandi útskrifast og hefur skilað inn afriti af leyfisbréfi sínu til kennslu á leikskólastigi á netfangið haraldur@ki.is. Hafi leyfisbréf ekki borist sjóðnum innan fimm ára fellur styrkurinn niður.

11. grein
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar sjóðsins eru endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Félag leikskólakennara ber ábyrgð á starfsemi sjóðsins.

12. grein
Breytingar á reglum sjóðsins skulu samþykktar af stjórn Félags leikskólakennara.

 

 

Tengt efni