is / en / dk

 

SAMÞYKKTIR OG REGLUR STARFSÞRÓUNARSJÓÐS FSL

 

1.  UM SJÓÐINN, MARKMIÐ OG SJÓÐSSTJÓRN
 

1.1  Um sjóðinn
Sjóðurinn heitir Starfsþróunarsjóður Félags stjórnenda leikskóla (FSL). Starfsemi sjóðsins byggir á ákvæðum kjarasamninga Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags stjórnenda leikskóla (FSL) (bókun 1 frá 1. maí 2014).

1.2  Markmið sjóðsins
Markmið sjóðsins er að styrkja FSL til að efla faglega starfsþróun skólastjórnenda. Með faglegri starfsþróun er átt við að félagsmenn FSL viðhaldi og auki sérfræðiþekkingu á sviði stjórnunar, náms og kennslu. Einnig þá sem sinna trúnaðarstörfum fyrir félagið til að styrkja stöðu þeirra sem starfa í umboði Kennarasambands Íslands.

1.3  Stjórn sjóðsins
Stjórn Félags stjórnenda leikskóla fer með stjórn sjóðsins. Starfsmaður FSL sér um daglegan rekstur sjóðsins og ráðsstöfun tekna hans. Stjórn skal staðfesta afgreiðslu umsókna í sjóðinn og skal sú afgreiðsla færð í fundargerð.

Ákvörðun stjórnar telst lögmæt ef meirihluti stjórnarmanna greiðir henni atkvæði.

 
2.  AÐILD AÐ SJÓÐNUM OG UMSÓKNIR
  2.1  Aðild að sjóðnum
Aðild að sjóðnum eiga félagsmenn FSL sem greitt er fyrir í sjóðinn á grundvelli kjarasamnings.
 
3.  STYRKHÆF VERKEFNI OG STYRKFJÁRHÆÐ
 

3.1  Styrkhæf verkefni
Verkefni á vegum stjórnar, nefnda eða svæðafélaga FSL er falla undir markmið sjóðsins um að efla faglega starfsþróun félagsmanna eru styrkhæf. Undir þetta getur fallið verkefni s.s. fræðslufundir, ráðstefnur, námskeið o.fl. fyrir félagsmenn. Einnig þá sem sinna trúnaðarstörfum fyrir félagið til að styrkja stöðu þeirra sem starfa í umboði Kennarasambands Íslands.

Stjórn getur ákveðið að styrkja einstaka félagsmenn til framhaldsnáms. Ákvörðun um fyrirkomulag og upphæð er tekin á fundi stjórnar og reglur settar í upphafi hvers árs.

3.2  Styrkfjárhæð
Reglur og styrkfjárhæðir eru endurskoðaðar af sjóðsstjórn árlega og skal taka mið af stöðu sjóðsins hverju sinni. Stjórn sjóðsins skal leitast við að efla og hvetja til starfsþróunar félagsmanna FSL um allt land.

Aldrei eru greiddir hærri styrkir en sem nemur framlögðum reikningum / staðfestingum. 

 
4.  AFGREIÐSLA UMSÓKNA OG FRAMKVÆMD STYRKVEITINGA
 

4.1  Afgreiðsla umsókna
Starfsmaður FSL afgreiðir umsóknir samkvæmt samþykktum og reglum þessum og í samræmi við ákvarðanir sjóðsstjórnar þegar fullnægjandi gögn hafa borist sjóðnum. Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á rekstri og sker úr um vafaatriði um styrkhæfi umsókna.

4.2  Umsóknir
Umsóknum skal skila til skrifstofu FSL á þar til gerðu umsóknarblaði.

4.3  Frágangur umsókna
Vanda skal frágang umsókna, rökstyðja hvernig styrkurinn nýtist til faglegrar starfsþróunar félagsmanna FSL og auki sérfræðiþekkingu á sviði stjórnunar, náms og kennslu.

4.4  Við mat á umsóknum
Meta skal umsóknir með hliðsjón af markmiðum sjóðsins og teljast til faglegar starfsþróunar innan FSL og nýtast félagsmönnum í starfi.

4.5  Greiðslur
Styrkir eru greiddir út í einu lagi samkvæmt framvísun kvittana fyrir kostnaði, staðfestingu um dagskrá og þátttöku.

Umsækjandi ber ábyrgð á að skila inn tilskildum gögnum til sjóðsins. Stjórn sjóðsins áskilur sér rétt til þess að óska eftir frumritum reikninga.

Styrkir úr sjóðnum eru greiddir út eins fljótt og auðið er. Forsenda greiðslu er að starfsmaður eða stjórn sjóðsins hafi samþykkt umsókn og að greiðslustaðfesting og umbeðin gögn séu móttekin.

 
5.  TEKJUR SJÓÐSINS
 

5.1  Framlag vinnuveitanda
Launagreiðandi greiðir 0,35% af heildarlaunum félagsmanna Félags stjórnenda leikskóla í starfsþróunarsjóð félagsins. Það fjármagn sem greitt hefur verið skv. bókun 1 frá 1. maí 2014 inn á bankareikning skal verða stofnfé Starfsþróunarsjóðs FSL. Frá 1. janúar 2016 er gjald þetta greitt ársfjórðungslega skv. útreikningum launagreiðanda.

5.2  Vaxtatekjur
Sjóðurinn er ávaxtaður á þann hátt sem fjárvörsluráð KÍ telur hagkvæmastan á hverjum tíma.

 
6.  REKSTUR SJÓÐSINS OG ENDURSKOÐUN
 

6.1 Ársreikningur
Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið.

Reikningar skulu endurskoðaðir líkt og aðrir sjóðir FSL.

Yfirlit og uppgjör sjóðsins skal vera hluti af árskýrslu Félags stjórnenda leikskóla.

   


 

 

Tengt efni