is / en / dk

Félagslegur trúnaðarmaður er trúnaðarmaður félagsmanna stéttarfélagsins á vinnustað (þar sem fjöldi félagsmanna er fimm eða fleiri). Hans hlutverk er aðallega að fylgjast með að farið sé eftir ákvæðum kjarasamninga og að réttur starfsmanna sé í hvívetna virtur á vinnustaðnum. Hann er tengiliður stéttarfélags og vinnustaðar og starfar í þágu félagsmanna stéttarfélagsins.

Upplýsingar um hlutverk, réttindi og skyldur:

Skal vera félagsmaður KÍ.

Er kosinn af félagsmönnum KÍ á vinnustaðnum. Ef félagsmenn á vinnustað tilheyra fleiri en einu aðildarfélagi KÍ kjósa þeir sem tilheyra sama aðildarfélagi sér sinn félagslegan trúnaðarmann. Hjá FS, FSL og SÍ gildir þó:

 • Félagsmenn í Félagi stjórnenda í framhaldsskólum (FS) kjósa sér ekki félagslega trúnaðarmenn.
 • Aðalmenn í samráðsnefnd Félags stjórnenda leikskóla (FSL) eru trúnaðarmenn leikskólastjóra. Félagsmenn FSL geta valið sér þann fulltrúa í nefndinni sem þeir vilja að sé sinn trúnaðarmaður.
 • Formenn svæðafélaga Skólastjórafélags Íslands (SÍ) eru trúnaðarmenn grunnskólastjóra á hverju svæði.

Ef félagsmenn á vinnustað eru 5 til 49 skal kjósa einn félagslegan trúnaðarmann en tvo ef félagsmenn eru 50 eða fleiri. Ef félagsmenn eru færri en 5 á vinnustað geta þeir skráð tengilið hjá KÍ til að fá sendar upplýsingar o.þ.h. 

Kjörtímabil félagslegs trúnaðarmanns er tvö ár. Nauðsynlegt að tilkynna kjörið til yfirmanns og stéttarfélags á þar til gerðum eyðublöðum sem finna má á vef KÍ, www.ki.is.

Vinnur fyrir félagsmenn síns aðildarfélags KÍ á vinnustaðnum.

Er tengiliður KÍ og vinnustaðar. Fylgist með að farið sé eftir ákvæðum kjarasamninga og að réttur starfsmanna sé í hvívetna virtur á vinnustaðnum, einkum orlof, vinnuvernd, öryggi og hollustuhættir.

Yfirmanni ber að gefa trúnaðarmanni upplýsingar ef staða losnar á vinnustaðnum eða ef ráðgert er að bæta við starfsmanni. Jafnframt skal láta honum í té upplýsingar um ráðningarkjör og hverjir sækja um starfið (skv. lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986). Í þessu felst upplýsingaskylda yfirmanna til trúnaðarmanna og mikilvægt hlutverk trúnaðarmanna í eftirliti með framkvæmd laga nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Skal sjá um undirbúning og framkvæmd kosningar öryggistrúnaðarmanna skv. reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum.

Sér um atkvæðagreiðslur meðal félagsmanna á vinnustað, s.s. um kjarasamninga og boðun verkfalls.

Kemur fræðslu, kynningarefni og skilaboðum á framfæri við félagsmenn á vinnustaðnum.

Veitir upplýsingar um kjarasamninga, réttindi og skyldur. Aðstoðar félagsmenn við að koma málum í réttan farveg.

Vísar ágreiningsmálum og málum sem ekki hljóta úrlausn innan vinnustaðarins til stéttarfélagsins. Er áheyrandi í starfsmannasamtölum ef viðkomandi kennari og/eða skólastjórnandi óskar eftir því sem „hlutlaus þriðji aðili“. Mjög mikilvægt er að trúnaðarmaður sé viðstaddur samtal ef áminning eða uppsögn er í uppsiglingu.

Trúnaðarmaður skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hefur valist til þessa trúnaðarstarfs. Sé trúnaðarmaður valinn úr hópi starfsmanna sem ráðnir eru með uppsagnarfresti skal hann að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni (skv. lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938).

Á vinnustaðnum skal trúnaðarmanni veitt aðstaða til þess m.a. að eiga einkaviðræður við samstarfsmenn sína, halda með þeim fundi í kaffitímum eða við lok vinnudags, þar sem því verður við komið, veita honum aðgang að síma o.s.frv. (sbr. lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986).

Trúnaðarmaður á rétt til að rækja skyldur sínar í vinnutíma enda geri hann yfirmanni sínum grein fyrir erindi sínu hverju sinni. Í öllum tilvikum skal tilkynna yfirmanni stofnunar með eðlilegum fyrirvara um slíkar fjarvistir (skv. lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986).

Trúnaðarmönnum er heimilt að sækja þing, fundi, ráðstefnur og námskeið á vegum stéttarfélagsins í allt að eina viku einu sinni á ári án skerðingar á reglubundnum launum (skv. samkomulagi fjármálaráðherra og BHM/aðildarfélaga og samkomulagi menntamálaráðherra og KÍ, frá 1989).

Kennarasamband Íslands og viðkomandi aðildarfélag sjá um upplýsingagjöf, fræðslu og stuðning fyrir félagslega trúnaðarmenn KÍ.

Verkferli Starfsmönnum ber að snúa sér til trúnaðarmanns með umkvartanir sínar. Ber trúnaðarmanni að rannsaka málið þegar í stað er umkvartanir berast eða hann hefur ástæðu til að ætla að gengið sé á rétt starfsmanna eða stéttarfélags á vinnustöð hans af hálfu vinnuveitanda.

Komist trúnaðarmaður að þeirri niðurstöðu að umkvartanir eða grunur hafi við rök að styðjast ber honum að krefja vinnuveitanda eða umboðsmann hans um lagfæringu.

Trúnaðarmaður skal gefa starfsmönnum á vinnustöðinni svo og stéttarfélagi er í hlut á skýrslu um kvartanir starfsmanna jafnskjótt og við verður komið.

Enn fremur gefur hann sömu aðilum skýrslu um hvað vinnuveitandi hafi brotið af sér við starfsmenn og stéttarfélag þeirra svo og hvaða lagfæringar hafi fengist fram (skv. lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986).

Gott er að hafa eftirfarandi í huga:

Skipulag

Trúnaðarmaður ber ekki ábyrgð á framkvæmd vinnuverndarstarfs

 • Hann tekur þátt í skipulagi og framkvæmd vinnuverndarstarfs eins og öðrum starfsmönnum er einnig skylt að gera.
 • Atvinnurekandi ber ábyrgð á að koma vinnuverndarstarfinu á, framkvæmd þess og eftirfylgni.  

Úrskurðir

Trúnaðarmaður er ekki dómari

 • Hann hlustar, miðlar upplýsingum og aðstoðar viðkomandi við að leita úrlausnar.
 • Hann er hlutlaus þriðji aðili.  

Upplýsingagjöf

 • Trúnaðarmaður á hvorki að vita allt né geta svarað öllu strax
 • Hann aflar upplýsinga til að gefa svör og/eða vísar viðkomandi á þann sem getur gefið svör. 

Samstarf

 • Trúnaðarmaður vinnur í samstarfi við yfirmenn, samstarfsmenn, aðra trúnaðarmenn og öryggisverði. Félagslegur trúnaðarmaður starfar einnig með formönnum og starfsmönnum KÍ.
 • Hver og einn sinnir trúnaðarmannastarfinu eftir bestu getu. 


FÉLAGSLEGIR TRÚNAÐARMENN - skjal á pdf

 

 

Tengt efni