is / en / dk

KÍ hlutast til um að á hverjum vinnustað sé kjörinn trúnaðarmaður þar sem félagsmenn þess starfa. Hér er farið yfir hlutverk og helstu verkefni félagslegra trúnaðarmanna samkvæmt þeim lögum og reglum sem um þá gilda. Þau lög eru: Lög Kennarasambands Íslands (15. gr), lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna (nr. 91/1986), lög um stéttarfélög og vinnudeilur (nr. 80/1938), lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (nr. 80/1938 ) og reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum (nr. 920/2006).
 

LYKILHLUTVERK TRÚNAÐARMANNA

 • Gæta þess að vinnuveitandi og fulltrúar hans haldi kjarasamning og að réttur starfsmanna sé í hvívetna virtur, einkum um orlof, vinnuvernd, öryggi og hollustuhætti.
 • Veita félagsmönnum og vinnuveitanda upplýsingar um kjarasamninga, réttindi og skyldur.
 • Rannsaka umkvartanir starfsmanna á vinnustað um framkvæmd kjarasamninga og/eða þegar grunur vaknar um misfellur á framkvæmd. Fara fram á lagfæringar við yfirmann þegar umkvartanir eða grunur eiga við rök að styðjast.
 • Gefa starfsmönnum og stéttarfélagi upplýsingar um umkvartanir starfsmanna um framkvæmd kjarasamninga og hvaða lagfæringar hafi fengist fram.
 • Vísa málum til stéttarfélagsins í samráði við hlutaðeigandi ef ekki tekst að leysa þau á vinnustaðnum.
 • Koma fræðslu, kynningarefni og skilaboðum frá stéttarfélagi til félagsmanna á vinnustaðnum.
 • Sækja þing, fundi, ráðstefnur og námskeið á vegum KÍ og síns aðildarfélags.
 • Þekkja lög nr. 87/ 2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum og ákvæði um auglýsingar og ráðningar hjá sveitarfélögum, ríki og skv. kjarasamningum, og að fylgjast með framkvæmd laga, auglýsinga og ráðninga á vinnustaðnum.
 • Afla upplýsinga um ef staða losnar á vinnustaðnum eða í ráði er að bæta við starfsmanni. Yfirmanni ber að láta trúnaðarmanni í té upplýsingar um ráðningarkjör og hverjir sækja um starfið samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Upplýsingaskylda yfirmanns er mikilvæg vegna eftirlitshlutverks trúnaðarmanna með framkvæmd laga um menntun og ráðningar og kjarasamninga.
 • Annast undirbúning og framkvæmd kosningar öryggistrúnaðarmanna skv. 12. gr. reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006. Félagslegir trúnaðarmenn skulu sjá um undirbúning og framkvæmd kosningar öryggistrúnaðarmanna. Í þessu felst ekki ábyrgð trúnaðarmanna á að kosning fari fram heldur eingöngu að þeir sjái um framkvæmdina. Ábyrgðin á vinnuverndarstarfi á vinnustað er hjá atvinnurekanda.
   

REGLUBUNDIN VERKEFNI

 • Skoða netpóst daglega. Áframsenda póst á netfangalista félagsmanna í skólanum og/eða hafa sérstakan stað (vegg/töflu) á kennara- eða kaffistofu fyrir gögn frá trúnaðarmanni.
 • Fylgjast með vefsíðu og fésbókarsíðu KÍ og síns aðildarfélags og upplýsa félagsmenn um það sem markvert er.
 • Kynna sig, hlutverk og verkefni trúnaðarmanns fyrir samstarfsfólki í samráði við yfirmann. Slíkt ætti að gera a.m.k. einu sinni á ári og má gera í samstarfi við öryggistrúnaðarmann/menn og trúnaðarmann/menn annarra stéttarfélaga á vinnustaðnum, ef svo ber undir.
 • Kynna sig fyrir nýliðum í starfi, stéttarfélagið og kjarasamning.
   

Eftir atvikum gæti trúnaðarmaður auk þess þurft að:

 • Sjá um atkvæðagreiðslur meðal félagsmanna á vinnustað, svo sem um kjarasamninga og boðun verkfalls.
 • Vera áheyrandi í starfsmannasamtölum ef félagsmaður og/eða yfirmaður óskar þess, sem „hlutlaus þriðji aðili“. Trúnaðarmenn eru oft beðnir um að vera viðstaddir starfsmannasamtöl svo sem vegna uppsagna, áminninga, kvartana og ýmissa samskiptamála.
 • Yfirfara gögn varðandi ágreiningsefni. Ævinlega ber að fara með upplýsingar og gögn sem trúnaðarmál.
   

Trúnaðarmenn framhaldsskóla hafa einnig eftirfarandi hlutverk:

 • Fulltrúi í stjórn félagsdeildar framhaldsskóla og e.t.v. líka fulltrúi kennara í samstarfsnefndum framhaldsskóla og tekur með þessu þátt í gerð og framkvæmd stofnanasamninga á sínum vinnustað.
 • Aðstoða félagsmenn við ýmis mál sem tengjast 11. kafla kjarasamnings um stofnanasamninga, svo sem að vísa málum til samstarfsnefndar og að fylgja málum eftir.
   

KÍ LEGGUR ÁHERSLU Á AÐ:

 • Trúnaðarmaður hlustar, miðlar upplýsingum á hlutlausan hátt og aðstoðar viðkomandi að leita úrlausnar.
 • Trúnaðarmaður á ekki að vita allt og geta svarað öllu strax. Hann aflar upplýsinga til að gefa svör og/eða vísar viðkomandi á þann sem getur gefið svör.
 • Trúnaðarmaður vinnur í samstarfi við yfirmenn, samstarfsmenn, öryggistrúnaðarmenn og öryggisnefndir, aðra trúnaðarmenn KÍ, kjörna fulltrúa KÍ og starfsfólk KÍ.
 • Hver og einn sinnir trúnaðarmannastarfinu eftir bestu getu.

 

Samantekt 2016
 

HLUTVERK OG VERKEFNI TRÚNAÐARMANNA - skjal á pdf.

 

Tengt efni