is / en / dk

Fjallað er um trúnaðarmenn í lögum nr. 94 frá 31. desember 1986. Þar segir:

V. kafli. Um trúnaðarmenn á vinnustöðum.

28. gr.  Á hverri vinnustöð þar sem a.m.k. fimm menn vinna er starfsmönnum heimilt að kjósa úr sínum hópi einn trúnaðarmann. Á vinnustöð þar sem fimmtíu menn eða fleiri vinna má kjósa tvo trúnaðarmenn. Trúnaðarmenn skal kjósa til tveggja ára í senn. Val trúnaðarmanna skal tilkynna vinnuveitanda og stjórn stéttarfélags þegar í stað.

  • Heimilt er að kjósa trúnaðarmenn fyrir félagssvæði eða hluta þess vegna starfsmanna á vinnustöðvum sem ekki uppfylla skilyrði um lágmarksfjölda.
  • Heimilt er einstökum félögum að semja um aðra skipan á vali trúnaðarmanna en að framan greinir.

29. gr. Trúnaðarmaður skal gæta þess að vinnuveitandi og fulltrúar hans haldi kjarasamning og réttur starfsmanna sé í hvívetna virtur, einkum um orlof, vinnuvernd, öryggi og hollustuhætti.

  • Starfsmönnum ber að snúa sér til trúnaðarmanns með umkvartanir sínar. Ber trúnaðarmanni að rannsaka málið þegar í stað er umkvartanir berast eða hann hefur ástæðu til að ætla að gengið sé á rétt starfsmanna eða stéttarfélags á vinnustöð hans af hálfu vinnuveitanda. Komist trúnaðarmaður að þeirri niðurstöðu að umkvartanir eða grunur hafi við rök að styðjast ber honum að krefja vinnuveitanda eða umboðsmann hans um lagfæringu.
  • Trúnaðarmaður skal gefa starfsmönnum á vinnustöðinni svo og stéttarfélagi, er í hlut á, skýrslu um kvartanir starfsmanna jafnskjótt og við verður komið. Enn fremur gefur hann sömu aðilum skýrslu um hvað vinnuveitandi hafi brotið af sér við starfsmenn og stéttarfélag þeirra svo og hvaða lagfæringar hafi fengist fram.
  • Trúnaðarmaður á rétt til að rækja skyldur sínar í vinnutíma enda geri hann yfirmanni sínum grein fyrir erindi sínu hverju sinni.
  •  Á vinnustaðnum skal honum veitt aðstaða til þess m.a. að eiga einkaviðræður við samstarfsmenn sína, halda með þeim fundi í kaffitímum eða við lok vinnudags, þar sem því verður við komið, veita honum aðgang að síma o.s.frv.

 30. gr. Gefa skal trúnaðarmanni upplýsingar um ef staða losnar á vinnustað hans eða í ráði er að bæta við starfsmanni. Jafnframt skal láta honum í té upplýsingar um ráðningarkjör og hverjir sækja um starfann.

  • Trúnaðarmaður skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hefur valist til þessa trúnaðarstarfs.
  • Óheimilt er að flytja trúnaðarmann í lægri launaflokk meðan hann gegnir starfi trúnaðarmanns.
  • Sé trúnaðarmaður valinn úr hópi starfsmanna sem ráðnir eru með uppsagnarfresti skal hann að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.

 

Tengt efni