is / en / dk

Öryggistrúnaðarmaður er kosinn af samstarfsmönnum sínum, óháð stéttarfélagi, til að sinna vinnuverndarstarfi innan vinnustaðar (þar sem fjöldi starfsmanna er tíu eða fleiri). Hans helsta hlutverk er að fylgjast með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað séu í samræmi við vinnuverndarlögin og reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum og taka þátt í gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað (áhættumats).

Upplýsingar um hlutverk, réttindi og skyldur:

Getur verið hvaða starfsmaður sem er á vinnustað fyrir utan stjórnendur.

Er kosinn af öllum starfsmönnum á vinnustaðnum nema stjórnendum, óháð stéttarfélagi, að jafnaði til tveggja ára. Kosning skal fara fram með skriflegri atkvæðagreiðslu.

Ef starfsmenn eru færri en tíu skal atvinnurekandi stuðla að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustað í samstarfi við starfsmenn og félagslegan trúnaðarmann.

Þar sem starfsmenn eru tíu eða fleiri skal atvinnurekandi tilnefna af sinni hálfu einn öryggisvörð og starfsmenn skulu kjósa einn öryggistrúnaðarmann.

Þar sem starfsmenn eru 50 eða fleiri skal stofna öryggisnefnd. Starfsmenn kjósa tvo öryggistrúnaðarmenn og stjórnendur tilnefna tvo öryggisverði.

Atvinnurekandi skal tilkynna Vinnueftirlitinu um tilnefningu öryggisvarða og kosningu öryggistrúnaðarmanna.

Þeir sem undirbúa kosningu öryggistrúnaðarmanna skulu tilkynna stjórn viðkomandi stéttarfélags um kosninguna.  

Vinnur fyrir alla starfsmenn á vinnustaðnum.

Tekur þátt í gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað (skv. lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006).

Í því felst þátttaka í gerð áhættumats og áætlunar um heilsuvernd þar sem meðal annars kemur fram áætlun um forvarnir.

Auk þess skal öryggistrúnaðarmaður, ásamt öryggisverði, fara í eftirlitsferðir um vinnustaðinn svo oft sem þurfa þykir og sérstaklega gæta þess að:

  1. vélar og tæknibúnaður, hættuleg efni og starfsaðferðir stofni ekki lífi og heilsu starfsmanna í hættu,
  2. öryggisbúnaður og persónuhlífar séu til staðar í góðu ástandi eins og til er ætlast og að starfsmenn noti þann búnað eða hlífar sem eru til staðar,
  3. ekki viðgangist ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi á vinnustaðnum,
  4. starfsmönnum sé kynnt sú áhætta sem er á vinnustaðnum að því er varðar öryggi þeirra og heilsu,
  5. vinnuslys, óhöpp og atvinnusjúkdómar séu skráð,
  6. starfsmenn fái nauðsynlega fræðslu og þjálfun,
  7. til sé neyðaráætlun,
  8. leitað sé eftir umsagnar Vinnueftirlits ríkisins ef umtalsverðar breytingar eru gerðar hjá fyrirtækinu. 

Óheimilt er að segja öryggis trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess.

Ef atvinnurekandi þarf að fækka við sig starfsmönnum skal trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni (skv. lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938). 

Atvinnurekandi skal sjá til þess að öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir fái hæfilegan tíma miðað við verkefnasvið til þess að gegna skyldum sínum.

Atvinnurekandi skal veita þeim fyrirfram og tímanlega hlutdeild í skipulagningu að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustaðnum og sjá til þess að þeir geti komið sjónarmiðum á framfæri varðandi framkvæmd vinnuverndarstarfsins.

Öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum skal skýrt frá öllum vinnuslysum, óhöppum og atvinnusjúkdómum sem eiga sér stað í fyrirtækinu. Enn fremur skulu þeim kynntar mælingar og rannsóknir á hollustuháttum og öryggi og skýrt frá þeim bilunum eða aðstæðum sem upp koma og þýðingu geta haft fyrir aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustað. Þá skal kynna þeim ábendingar og fyrirmæli Vinnueftirlitsins sem varða fyrirtækið (skv. reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006).

Í reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, nr. 920/2006, V. kafla. 19. gr. kemur fram:
„Atvinnurekandi skal sjá til þess að öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir fái hæfilegan tíma miðað við verkefnasvið til þess að gegna skyldum sínum“.
Þetta hefur verið túlkað þannig að menn eigi rétt á að vinna þessi störf í vinnutíma.

Atvinnurekandi skal sjá um að öryggistrúnaðarmenn fái viðeigandi fræðslu og þjálfun með því að sækja námskeið um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Atvinnurekandi skal greiða kostnað við þjálfun og skal þjálfunin fara fram á vinnutíma (skv. reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum).

Vinnueftirlitið heldur slík námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn.

Öryggistrúnaðarmenn vinna að vinnuverndarmálum en ekki kjaramálum. Vinnuverndin fjallar um allt sem snýr að öryggi og heilbrigði starfsmanna. Vinnuumhverfið er allt hér undir svo og samskipti og vellíðan starfsmanna.


ÖRYGGISTRÚNAÐARMENN - skjal á pdf.

 

Tengt efni