is / en / dk


Kennarasamband Íslands (KÍ) kt. 501299-3329, Laufásvegi 81, 101 Reykjavík leggur áherslu á að virða réttindi og vernda persónuupplýsingar einstaklinga. KÍ ber ábyrgð á vinnslu og meðferð persónuupplýsinga sem unnið er með í starfsemi KÍ og telst því ábyrgðaraðili.

Persónuverndarstefna KÍ tekur aðeins til einstaklinga en ekki lögaðila. Persónuverndarstefna KÍ og söfnun persónuupplýsinga er í samræmi við gildandi persónuverndarlöggjöf á Íslandi á hverjum tíma. Heimild KÍ fyrir vinnslu persónuupplýsinga byggist almennt á laga- og samningsskyldu og vernd brýnna hagsmuna félagsmanna og KÍ.
 

PERSÓNUUPPLÝSINGAR
Persónuupplýsingar eru upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling. Einstaklingur telst persónugreinanlegur ef unnt er að greina hann beint eða óbeint t.d. með auðkennum eins og nafni, kennitölu eða netfangi.

Dæmi um viðkvæmar persónuupplýsingar eru upplýsingar um heilsufar, stéttarfélagsaðild og þjóðerni.
 

DÆMI UM VINNSLU KÍ Á PERSÓNUUPPLÝSINGUM
Þegar félagsmaður KÍ hefur störf sem veitir honum aðild að KÍ sendir launagreiðandi upplýsingar um viðkomandi félagsmann í skilagreinum í bókunarmiðstöð KÍ (BIK). Upplýsingar sem launagreiðandi sendir eru:

 • Nafn
 • Kennitala
 • Starfshlutfall
 • Iðgjöld
 • Aðildarfélag
   

Þessar upplýsingar eru keyrðar inn í félagatal KÍ. Í félagatali KÍ eru félagsmenn settir í hópa s.s. aðildarfélag, starfsheiti, fagfélag, félagsstörf og eru þessir hópar síðan notaðir til að hafa samband við viðkomandi félagsmenn. Nánari upplýsingum um félagsmenn svo sem heimilisfang, þjóðerni, hjúskaparstaða og fjölskyldunúmer er bætt við með samkeyrslu við Þjóðskrá.

Persónuupplýsingum er safnað með því að senda nýjum félagsmönnum bréf heim þar sem óskað er eftir að fá sendar upplýsingar í tölvupósti á felagaskra@ki.is um netfang, starfsheiti og vinnustað. Starfsmaður félagaskrár safnar þessum upplýsingum ef þær skila sér ekki frá félagsmanni s.s. á heimasíðum skóla og hjá launagreiðendum.

Einnig er persónuupplýsingum safnað á „Mínum síðum“ á innri vef KÍ s.s. netfangi, bankaupplýsingum, símanúmerum. Á Mínum síðum gefst félagsmönnum kostur á að breyta upplýsingum eins og heimilisfangi, símanúmeri, netfangi og bankaupplýsingum. Einnig er hægt að senda skilaboð til félagaskrár í gegnum „Mínar síður“ s.s. um breytt aðildarfélag, starfsheiti og vinnustað.

Þessar upplýsingar eru notaðar til að halda utan um réttindi félagsmanna í sjóðum KÍ og eru forsenda þess að hægt sé að afgreiða umsóknir. Sjóðir KÍ eru:

 • Endurmenntunarsjóðir aðildarfélaga KÍ
 • Sjúkrasjóður KÍ
 • Orlofssjóður KÍ
 • Vinnudeilusjóður KÍ
   

Þegar félagsmaður hefur samband við KÍ t.d. vegna umsókna í sjóði KÍ eða vegna kjaramála gæti farið fram frekari söfnun persónuupplýsinga s.s. tölvupóstar, upplýsingar um styrki úr sjóðum KÍ, upplýsingar um leigu orlofshúsnæðis í gegnum KÍ, ljósmyndir og lýsing af umgengni um orlofshúsnæði, keypt gjafabréf, læknisvottorð, upplýsingar úr ráðningasamningi, uppsagnarbréfi, áminningu, launaseðlum og öðrum starfstengdum upplýsingum sem félagsmaður lætur af hendi. Í sumum tilvikum senda aðrir slíkar upplýsingar til KÍ á grundvelli laga eða umboðs frá viðeigandi félagsmanni. Félagsmaður getur synjað um að veita slíkar persónuupplýsingar en það gæti leitt til þess að KÍ, aðildarfélög þess og sjóðir geti ekki afgreitt umsóknir, veitt honum viðeigandi þjónustu eða brugðist við fyrirspurnum frá honum.

Aðgengi að persónuupplýsingum er stýrt í tölvukerfum KÍ. Leitast er við að aðgengi að upplýsingum sé í samræmi við þá afgreiðslu sem er í gangi hverju sinni og að þeir sem ekki koma að afgreiðslu sjóða eða erinda hafi ekki aðgang að öðrum gögnum en nauðsynleg eru. Þjónustuaðilar KÍ hafa aðgang að upplýsingum á grundvelli vinnslusamninga sem gerðir eru um þá þætti vinnslunnar sem hver þjónustuaðili sér um.
 

TILGANGUR MEÐ SÖFNUN PERSÓNUUPPLÝSINGA
KÍ safnar persónuupplýsingum m.a. til að:

 • Reikna út réttindi félagsmanna.
 • Nýta launaupplýsingar til að skoða launaþróun og til að geta gert launasamanburð milli aðildarfélaga.
 • Auðvelda samskipti við félagsmenn.
 • Uppfylla lög um bókhald og skil til skattyfirvalda.
 • Geta greitt út styrki úr sjóðum.
 • Geta veitt þjónustu sjóða KÍ og aðildarfélaga KÍ.
 • Tryggja eignir og öryggi félagsmanna KÍ.
 • Auðvelda hagsmunagæslu félagsmanna.
 • Geta framkvæmt kosningar.
   

GEYMSLA PERSÓNUUPPLÝSINGA
KÍ geymir persónuupplýsingar þann tíma sem nauðsynlegt er hverju sinni svo hægt sé að uppfylla ofangreindan tilgang vinnslu.
 

AFHENDING PERSÓNUUPPLÝSINGA TIL ÞRIÐJA AÐILA
KÍ miðlar persónuupplýsingum til þriðja aðila í þeim tilkvikum sem það er skylt skv. lögum, ef um er að ræða aðila sem er að veita KÍ þjónustu (vinnsluaðilar) og þegar verið er að sækja réttindi félagsmanna.

Í þeim tilvikum þegar upplýsingar eru sendar til vinnsluaðila gerir KÍ vinnslusamning við viðkomandi aðila.

KÍ selur ekki persónuupplýsingar.
 

NOTKUN Á VAFRAKÖKUM
Vefur KÍ, www.ki.is, nýtir sér vafrakökur (e. web cookies) til að bæta virkni hans og hjálpa stjórnendum vefsins að greina notkun hans.

Það er stefna KÍ að nota vafrakökur með ábyrgum hætti.

Allar persónuupplýsingar sem kunna að verða til við notkun á kökum verða meðhöndlaðar og unnið með þær í samræmi við persónuverndarlög. Persónuupplýsingar verða ekki varðveittar lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu.

Vafrakökur eru smáar textaskrár geymdar í þeim vafra sem er notaður hverju sinni og eru almennt notaðar til að fá vefsvæði til að virka eða til að starfa betur og skilvirkar. Vafrakökur geyma t.d. kjörstillingar notanda, sjá til þess að hann þurfi ekki að skrá sig inn í hvert skipti sem hann heimsækir vefinn og afla upplýsinga um notkun vefsins til að auðvelda stjórnendum hans vefgreiningar með það að markmiði að bæta upplifun notenda hans.
 

VEFUR KÍ NOTAR EFTIRFARANDI VAFRAKÖKUR
_gat, _gid, _ga: Vafrakökur sem notaðar eru af Google Analytics til að greina umferð um vefinn. Upplýsingarnar eru notaðar til að skoða hvaða vefhlutar eru notaðir meira en aðrir og bæta þjónustu vefsins við notendur hans.

nmsmart: Vafrakökur sem notaðar eru af Siteimprove til að greina umferð um vefinn. Upplýsingarnar eru notaðar til að skoða hvernig vefurinn er notaður til þess að hægt sé að bæta þjónustu vefsins við notendur hans.

fr: Facebook Pixel vafrakakan er notuð til að betrumbæta auglýsingarnar sem KÍ sendir frá sér og tryggja að þær séu markvissari og áhugaverðari fyrir notendur vefsins.

Joomlasessid: Þessi vafrakaka er notuð þegar vefurinn er settur upp í Joomla vefkerfinu. Hún er notuð fyrir skráningu á vefinn og er meðal annars til þess að notandinn þurfi ekki að skrá sig inn á milli síðna sem hann er að vinna í á vefnum. JoomlasessionId er sér auðkenni fyrir hverja heimsókn á vefinn.

Hægt er að eyða öllum vafrakökum sem vafri geymir. Leiðbeiningar um það fyrir Internet Explorer eru hér (https://support.microsoft.com/en-gb/help/17442/win...) og Google Chrome hér (https://support.google.com/chrome/answer/95647?co=...).

Notendur vefsins geta stillt vafra sína þannig að þeir láti vita af vafrakökum eða hafni þeim með öllu.
 

RÉTTINDI OG FYRIRSPURNIR/BEIÐNIR
Einstaklingar hafa ákveðin réttindi varðandi persónuupplýsingar sínar. Einstaklingar hafa eftirfarandi réttindi varðandi persónuupplýsingar sínar:

 • Aðgangsréttur og flutningsréttur: Réttur til að fá afrit af persónuupplýsingum sem KÍ vinnur um viðkomandi auk upplýsinga um hvaða persónuupplýsingar eru skráðar og hvernig er unnið með þær. Frá því eru undantekningar.
 • Leiðrétting: Réttur til að fá persónuupplýsingar viðkomandi leiðréttar / uppfærðar ef við á.
 • Réttur til eyðingar / til að gleymast: Réttur til að láta eyða persónuupplýsingum um viðkomandi ef upplýsingarnar eru ekki lengur nauðsynlegar í þágu þess tilgangs sem þeirra var upphaflega aflað í.
 • Réttur til takmörkunar á vinnslu: Réttur til að biðja um að vinnsla sé takmörkuð í ákveðnum aðstæðum t.d. ef viðkomandi telur vinnslu upplýsinganna ólögmæta.
 • Réttur til að andmæla vinnslu: Réttur til að andmæla vinnslu þegar vinnslan byggist á almannahagsmunum eða lögmætum hagsmunum þess sem vinnur með upplýsingarnar. Þú getur t.d. óskað eftir að láta taka þig út af póstlista markspósts KÍ og aðildarfélaga þess.
 • Réttur til að leggja fram kvörtun hjá eftirlitsyfirvaldi (Persónuvernd): Réttur til að leggja fram kvörtun í tengslum við persónuupplýsingar til Persónuverndar.
   

Hægt er að senda fyrirspurnir og beiðnir varðandi ofangreint með því að senda tölvupóst á netfangið personuvernd@ki.is eða með því að senda bréfpóst til: Kennarasambands Íslands, v. persónuverndar, Laufásvegi 81, 101 Reykjavík.

Heimilt getur verið að hafna beiðnum um aðgang að persónuupplýsingum eigi t.d. eitthvert eftirfarandi atriða við:

 • Brýnir hagsmunir annarra vega þyngra en að veita aðganginn.
 • Ef beiðni er augljóslega tilefnislaus eða óhófleg, einkum vegna endurtekningar.
 • Ef vinnsla fer aðeins fram í þágu vísinda, sagnfræði, í tölfræðilegum tilgangi eða vegna skjalavistunar í þágu almannahagsmuna, að svo miklu leyti sem réttindin geri það ómögulegt eða hamli því verulega að ná markmiðum með vinnslunni.
 • Vegna þjóðaröryggis, landvarna, almannaöryggis.
 • Til að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsiverð brot eða fullnægja refsiviðurlögum.
 • Vegna annarra mikilvægra markmiða sem þjóna almannahagsmunum, t.d. vegna gjaldeyrismála, fjárlaga, skattamála, lýðheilsu og almannatrygginga.
 • Til að tryggja vernd viðkomandi, brýna almannahagsmuni eða grundvallarréttindi annarra.
 • Vegna einkaréttarlegra krafna.
 • Til að fullnægja ákvæðum laga um þagnarskyldu.
 • Um er að ræða vinnuskjöl sem notuð eru við undirbúning ákvarðana og hefur ekki verið dreift til annarra, að því marki sem nauðsynlegt er til að tryggja undirbúning málsmeðferðar.
   

Komi upp ágreiningur um meðferð persónuupplýsinga er unnt að senda kvörtun til Persónuverndar.
 

ÁBYRGÐ Á PERSÓNUVERNDARSTEFNU
Stjórn KÍ ber ábyrgð á gerð persónuverndarstefnu KÍ. Öllum þeim sem hafa aðgang að persónuupplýsingum hjá KÍ, aðildarfélögum þess og sjóðum, þ.m.t. kjörnum fulltrúum, starfsmönnum og þjónustuaðilum ber að vinna skv. persónuverndarstefnunni.

KÍ stuðlar að því að þessari stefnu sé framfylgt með ráðstöfunum í samræmi við störf og ábyrgð viðkomandi kjörinna fulltrúa, starfsmanna og þjónustuaðila.

Tilkynna skal um frávik og veikleika vegna persónuverndar til persónuverndarfulltrúa eða til næsta yfirmanns sem skal koma upplýsingum á framfæri við persónuverndarfulltrúa án tafar.

 

 

Tengt efni