is / en / dk

Kennarasambandið á aðild að Alþjóðasambandi kennara (EI) sem er fjölmennasta samband stéttarfélaga í heiminum. Í því eru um þrjátíu milljónir félaga úr um fjögur hundruð samtökum í um hundrað og sjötíu löndum og landsvæðum víðs vegar um veröldina. Hlutverk sambandsins er að tengja saman kennara og aðra starfsmenn menntastofnana vítt og breitt um heiminn.

Evrópudeild Alþjóðasambands kennara (ETUCE) varð til í núverandi mynd árið 2010. ETUCE samanstendur af 135 stéttarfélögum kennara í 45 löndum og í því eru 12,8 milljónir manna sem búa víðs vegar um Evrópu. Aðildarfélög ETUCE eru stéttarfélög kennara og annarra starfsmanna skóla á öllum skólastigum, frá leikskóla til starfsgreinaskóla og háskóla. Formaður KÍ, Ragnar Þór Pétursson, situr í stjórn sambandsins.

KÍ á enn fremur aðild að Norrænu kennarasamtökunum (NLS) sem eru samstarfsvettvangur norrænna stéttarfélaga kennara á öllum skólastigum. Eitt meginhlutverk samtakanna er að stuðla að þróun skólamála og auka vegsemd kennarastarfsins í samfélaginu. Fulltrúar KÍ sækja stjórnarfundi árlega og fundi fyrir hvert skólastig. 

Eurydice (Upplýsinganet um menntamál í Evrópu) er upplýsinganet Evrópusambandsins og nær einnig til EFTA-ríkjanna sem taka þátt í starfsemi þess samkvæmt samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Ísland hefur frá árinu 1994 tekið þátt í upplýsinganetinu en meginmarkmið Eurydice er að vinna og miðla upplýsingum og reynslu um menntamál til stefnumótandi aðila og koma upplýsingum á framfæri til allra sem starfa að skólamálum í Evrópu. Verkefnið er í umsjá Menntamálastofnunar

Skýrslur fulltrúa sem taka þátt í erlendu samstarfi

Kjörnir fulltrúar aðildarfélaganna og starfsmenn Kennarasambandsins sækja fundi á erlendum vettvangi á ári hverju. Tekið hefur verið saman stutt „skýrsluform" sem fulltrúar KÍ og aðildarfélaganna geta notað til að gera grein fyrir þátttöku sinni í alþjóðlegu samstarfi. Óskað er eftir því að helstu mál á dagskrá viðkomandi fundar og eða ráðstefnu séu tilgreind; helstu ákvarðanir og niðurstöður ef það á við. Þá er æskilegt að helstu mál séu sett í samhengi við íslenskar aðstæður og almennt mat lagt á fundinn; hver var lærdómurinn, hvernig má hagnýta fundarefnið og miðla því? 

 

 

 

Tengt efni