is / en / dk


Jafnréttisstefna Kennarasambands Íslands er samþykkt á þingi sambandsins. Stefnan er reist á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla ásamt öðrum lagaákvæðum sem leggja bann við mismunun. Stefna þessi á einnig rætur í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og mann-réttindayfirlýsingum.

Jafnrétti á vinnustað og í félagsstarfi er grundvallarréttur allra félaga og starfsfólks. Jafnréttisstefna KÍ nær til félaga KÍ, starfsfólks, og annarra sem starfa á vegum sambandsins. Horft er til hvers kyns mismununar á grundvelli kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, heilsufars, þjóðernis, litarháttar, uppruna, trúarbragða, skoðana, menningar eða stöðu að öðru leyti, sem lítilsvirðir eða misbýður einstaklingi eða hópi sem fyrir henni verður.

 

RÁÐNINGAR Í STÖRF, STARFSFRAMI OG VINNUAÐSTÆÐUR

Félagar og starfsfólk KÍ skal njóta virðingar og hafa jöfn tækifæri til starfsframa.

Ekki skal mismuna umsækjendum né starfsfólki á nokkurn hátt um vinnuaðstæður og vinnuskilyrði.

Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið við stöðuveitingar.

 

ÞÁTTTAKA Í NEFNDUM, RÁÐUM OG STJÓRNUM Á VEGUM KÍ

Skipun í nefndir, ráð og stjórnir skal standa öllum félögum opin.

Jöfn tækifæri félaga til þátttöku í félagsstörfum innan KÍ eru grundvallarmannréttindi.

 

LAUNAJAFNRÉTTI

Við ákvörðun launa og fríðinda starfsfólks KÍ skal ávallt gæta jafnréttis.

Öllum skulu greidd jöfn laun (1)  og skulu njóta sömu kjara (2)  fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf og jafnra hvers konar frekari þóknana, beinna og óbeinna, hvort heldur er með hlunnindum eða öðrum hætti.

 

ENDURMENNTUN OG SÍMENNTUN

Félögum og starfsfólki KÍ skal ekki mismuna í möguleikum til endur- og símenntunar eða til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi.

 

SAMRÆMING FJÖLSKYLDU- OG ATVINNULÍFS

Allir félagar og starfsfólk KÍ skulu njóta sömu réttinda til að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu.

 

EINELTI, ÁREITNI OG OFBELDI

Komið skal fram við félaga og starfsfólk af virðingu.

Einelti, áreitni og ofbeldi líðst ekki.

Gera skal ráðstafanir til að koma í veg fyrir að félagar eða starfsfólk verði fyrir kynbundinni (3) eða kynferðislegri áreitni (4), kynbundnu ofbeldi (5)  eða einelti (6).

 

MENNTUN OG SKÓLASTARF

Menntun gegnir lykilhlutverki í að tryggja jöfnuð og jöfn tækifæri.

KÍ beinir því til félaga að gæta mannréttinda, jafnaðar og kynjasamþættingar (7)  við alla stefnumótun og áætlanagerð í skólastarfi.

KÍ vill hvetja til þess að kynja- og jafnréttisfræðsla verði að skyldunámi á öllum skólastigum.

Þá hvetur KÍ alla háskóla sem útskrifa kennara, að gera kynja- og jafnréttisfræðslu að skyldufagi þannig að allir kennarar öðlist jafnréttisnæmi og geti þannig stuðlað að markvissri jafnréttismenntun.

KÍ hvetur stjórnendur allra skóla til að framfylgja stefnu og lögum í jafnréttismálum.

 

BANN VIÐ MISMUNUN

Mismunun, bein (8)  eða óbein (9), er ekki liðin innan KÍ.

Félagar og starfsfólk bera ábyrgð á því að vinna gegn því að mismunun eigi sér stað.

Það er jafnframt sameiginleg ábyrgð allra félaga og starfsfólks að gæta þess að skapa ekki með orðum sínum eða gerðum fjandsamlegt andrúmsloft gegn ákveðnum einstaklingi eða hópi.

 

JAFNRÉTTISÁÆTLUN

Jafnréttisnefnd ber ásamt formanni og skrifstofustjóra KÍ ábyrgð á að vinna jafnréttisáætlun fyrir KÍ sem byggir á jafnréttisstefnu sambandsins.

Í jafnréttisáætlun skal gera grein fyrir jafnréttisnefnd auk þess sem sett eru fram helstu markmið og aðgerðir sem miða að jafnrétti og hvernig skapa megi skilyrði til að koma í veg fyrir að mismunun eigi sér stað.

Í jafnréttisáætlun skal gera grein fyrir vinnuferlum og því hvert einstaklingar geti leitað telji þeir að á þeim hafi verið brotið.

Jafnréttisáætlun skal endurskoða árlega.

 

ENDURSKOÐUN JAFNRÉTTISSTEFNU

Jafnréttisstefna KÍ skal endurskoðuð á fjögurra ára fresti.

Samþykkt á 7. þingi Kennarasambands Íslands 2018

 

VIÐAUKI

  1. Með jöfnum launum er átt við að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun feli ekki í sér mismunun.
  2. Með sömu kjörum er, auk launa, átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár.
  3. Kynbundin áreitni er hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin.
  4. Kynferðisleg áreitni er hvers kyns ósanngjörn eða móðgandi kynferðisleg hegðun, sem er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að skýrt sé gefið í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.
  5. Kynbundið ofbeldi er ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þolenda. Einnig teljast hótanir um slíkt ofbeldi, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis á grundvelli kynferðis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi til kynbundins ofbeldis.
  6. Einelti er ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem niðurlægir, gerir lítið úr, móðgar, særir, mismunar eða ógnar og veldur vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.
  7. Í kynjasamþættingu felst að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.
  8. Bein mismunun telst þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð, á grundvelli kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, heilsufars, þjóðernis, litarháttar, uppruna, trúarbragða, skoðana, menningar eða stöðu að öðru leyti en annar einstaklingur fær, hefur fengið eða myndi fá við sambærilegar aðstæður.
  9. Óbein mismunun telst þegar hlutlaust skilyrði, viðmið eða venja setur fólk af tilteknum kynþætti eða þjóðerni eða vegna kynferðis, kynhneigðar, trúar sinnar eða skoðana í verri stöðu en annað fólk nema viðkomandi skilyrði, viðmið eða venja sé réttlætt á hlutlægan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar.

 

 

Ítarefni: