is / en / dk


MENNTUN ER MANNRÉTTINDI
Skólastefna Kennarasambands Íslands 2018-2022 samþykkt á 7. þingi KÍ 2018.

 

Menntun er mannréttindi og almannahagur og ein mikilvægasta grunnstoðin í velferðarkerfinu.

Góð menntun stuðlar að persónulegri og faglegri þróun einstaklinga og að félagslegri, menningar-legri, efnahagslegri og stjórnmálalegri þróun samfélagsins í heild. Með menntun öðlast einstaklingurinn fjölþætta þekkingu og færni til að gera sér grein fyrir, kanna og leysa margvísleg viðfangsefni, jafnt í eigin umhverfi og í umheiminum.

Menntun stuðlar að friði, lýðræði, sköpun, samstöðu, félagslegri samheldni og skuldbindingu við sjálfbæra þróun og skilningi milli þjóða og menningarsvæða.

Menntun stuðlar að því að einstaklingar öðlist vald yfir framtíð sinni og taki þátt í að móta hana, bæði sem einstaklingar og borgarar og verðir virkir í mótun réttláts samfélags.

Skólinn er fyrir alla nemendur og allir eiga rétt á góðri menntun við hæfi hvers og eins, óháð efnahag, aðstæðum og uppruna. Allir nemendur eiga rétt á kennurum með tilskilda kennaramenntun á öllum skólastigum og skólagerðum.

Stjórnvöldum er skylt að tryggja góða menntun og skóla í grennd við heimili, aðstöðu og stuðning, nemendum og foreldrum að kostnaðarlausu frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla og í tónlistarskólum. Ábyrgð stjórnvalda á menntun felur enn fremur í sér að fullgilda, innleiða og að hafa eftirlit með framkvæmd alþjóðlegra sáttmála sem Ísland hefur undirgengist um rétt barna og ungmenna til menntunar og farsældar. Félagslegt mikilvægi menntunar fyrir einstaklinga og samfélag gerir þær kröfur til stjórnvalda að vernda menntakerfið gegn áhrifum, einkavæðingu og útvistun verkefna til einkaaðila.

Stjórnvöld skulu tryggja skólum fjárveitingar til að skipuleggja skólastarf í samræmi við stefnu um skóla og menntun fyrir alla nemendur sem tekur mið af þörfum einstaklinga jafnt sem heildarinnar. Það er réttmæt krafa að allir hafi aðgang að góðri kennslu, öruggu og hvetjandi námsumhverfi, fjölbreyttum og vönduðum náms- og kennslugögnum og tækjakosti sem er í samræmi við nútímakröfur sem gerðar eru til menntunar og skólastarfs.

Kennarar gegna lykilhlutverki í menntun nemenda. Stjórnvöldum ber skylda til að gera kennarastarfið, starfskjör og aðstæður eftirsóknarverð og að þau standist samanburð við kjör sambærilegra starfsstétta.

Kennarar hafa siðareglur að leiðarljósi í starfi sínu. Þær hjálpa kennurum til að taka faglegar ákvarðanir, að helga sig kennarastarfinu og vinna með nemendum, samstarfsfólki, foreldrum og skólasamfélaginu. Þær eru mikilvæg lyftistöng fyrir fagmennsku og styrkja faglega sjálfsmynd kennara.

Skipulag kennaranáms þarf að fela í sér gott jafnvægi milli sérhæfingar í faggreinum, námssviðum og uppeldis- og kennslufræði. Nám og þjálfun nema á vettvangi á að vera veigamikill og lögbundinn hluti menntunar þeirra.

Skipulögð leiðsögn nýliða og stuðningur við annað fagfólk í skólum þarf að vera formlegur hluti af heildstæðri menntun og starfsþróun alla starfsævina. Stöðug og fjölþætt menntun og starfsþróun kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda er forsenda skólaþróunar og þróunar menntakerfisins. Ein mesta áskorun menntakerfisins er að byggja upp fjölbreytt og sveigjanlegt stuðningskerfi við menntun og starfsþróun kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda og skapa þeim góðar og hvetjandi aðstæður og möguleika til að þróa eigið starf, skólastarfið og lærdómssamfélag í skólum.

Auka þarf rannsóknir á menntun og skólastarfi, ýta undir og liðka fyrir þátttöku kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda í menntarannsóknum. Rannsóknir á menntun og skólastarfi ættu annars vegar að snúa að daglegu starfi kennara og annarra fagstétta í skólum og hins vegar að breytilegu hlutverki menntunar og að nýjum viðfangsefnum, áherslum og starfsaðferðum. Efla þarf möguleika og auka svigrúm félagsmanna KÍ til að stunda rannsóknir samhliða störfum sínum í skólunum. Stjórnvöld þurfa að efla menntarannsóknir, veita auknum fjármunum til þeirra og auka þátttöku Íslands í alþjóðlegum rannsóknum.

Kennarasamband Íslands leggur áherslu á að skapa einhug um gæði menntunar og efla samvinnu um menntamál á Íslandi. Skólaganga, uppeldi og menntun nemenda er víðtækt samvinnuverkefni í samfélaginu. Sýna þarf skólastarfi virðingu og leita til sérfræðinga í skólum landsins um mat og tillögur um menntun og skólastarf. Stjórnvöldum ber að hafa náið samstarf við kennara, náms- og starfsráðgjafa, skólastjórnendur og samtök þeirra um stefnumótun og ákvarðanir í menntamálum. Fyrir hendi þarf að vera skýr menntastefna og framtíðarsýn, bæði menntamálayfirvalda í landinu og sveitarstjórna á hverjum stað.

Kennarasamband Íslands ætlar að taka þátt í mótun menntastefnu og ákvörðunum í samstarfi við stjórnvöld, foreldra, aðra aðila í umhverfi skólastarfsins og háskólasamfélagið svo að þróun skólastarfsins verði aldrei úr takti við aðra þróun samfélagsins.

 

Fagleg forysta skólafólks felst í að vera breytingaafl í samfélaginu til að efla menntun og farsæld allra nemenda, jafnræði og lýðræði. Fagleg forysta verður til í samspili fólks sem lærir og þroskast saman í lærdómssamfélagi og einkennist af dreifðri ábyrgð, sameiginlegu eignarhaldi, gagnkvæmri jafningjaráðgjöf og samstarfi um hugmyndir og aðferðir við að þróa nám, kennslu og starfshætti í skólastarfi (1).

 

1.  KENNARAR

Kennarar eru faglegt forystuafl í skóla- og menntamálum og þróun skólastarfs í samstarfi við aðra kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnendur. Þeir eru sérfræðingar á sviði náms og kennslu, kenna, miðla og virkja nemendur í þekkingar- og þroskaleit. Kennarar sýna fagmennsku í hvívetna og hafa siðareglur kennara að leiðarljósi í sínu starfi. Kennarar gegna lykilhlutverki í allri skólaþróun.

Kennarar mennta nemendur, stuðla að þroska þeirra og farsæld og laða fram það besta hjá hverjum og einum og hópnum í heild. Kennarar leggja áherslu á grunnþætti menntunar í kennslu, að efla sjálfstæði nemenda og virkja í námi með fjölbreyttum og skapandi kennsluháttum. Kennarar nýta upplýsingatækni til að auka fjölbreytni í námi og kennslu, efla færni nemenda í félagslegum samskiptum og gagnrýnni hugsun. Kennarar gegna mikilvægu hlutverki við að leiðbeina nemendum í tækniumhverfi nútímans.

Kennarar skulu sýna nemendum virðingu og umhyggju og vera þeim góð fyrirmynd. Gagnkvæm virðing kennara og nemenda skapar jákvæðan skólabrag, hvatningu og áhuga í námi og skólastarfi.

Kennarar miðla öðrum af sérfræðiþekkingu sinni bæði innan skólans, til foreldra og samfélagsins. Skapa þarf aðstæður sem gera kennurum kleift að starfa saman þvert á skóla, skólastig og skólagerðir til að auka samfellu í námi, miðla upplýsingum um nám, kennsluhætti og skólastarf.

Samstarf og teymisvinna er mikilvægur hluti af kennarastarfinu og nauðsynlegt fyrir þróun skólastarfsins. Tryggja þarf kennurum góðar aðstæður í starfi til að vinna saman að skólaþróun og veita gagnkvæma jafningjaráðgjöf. Kennarar taki virkan þátt í ákvörðunum um nám, kennslu og skólastarf, nýti rannsóknir og nýjungar í námi og kennslu og hafi frumkvæði að þróunar- og nýbreytnistarfi.

Stjórnvöld skulu virða faglegt sjálfstæði kennara til að taka ákvarðanir um kennslu, kennsluaðferðir og námsmat og leita til kennara um mat á þróun menntamála og þátttöku í mótun menntastefnu.

Stjórnvöld leggi áherslu á að styrkja sess kennarastarfsins í samfélaginu og auka nýliðun í kennslu með því hlúa að kennurum og búa þeim hvetjandi og skapandi starfsaðstæður til að sporna gegn kulnun og brotthvarfi úr starfi.

Tryggja þarf að kennslustörf séu samkeppnishæf við önnur sambærileg sérfræðistörf í samfélaginu, bæði í vinnuálagi, starfsaðstæðum og starfskjörum.

 

2.  NÁMS- OG STARFSRÁÐGJAFAR Í GRUNN- OG FRAMHALDSSKÓLUM

Náms- og starfsráðgjafar standa vörð um farsæld nemenda og sinna þörfum þeirra með ráðgjöf um nám, persónuleg málefni og náms- og starfsval. Starf þeirra hefur fyrirbyggjandi, fræðandi og þroskandi áhrif á nemendur. Þeir sýna nemendum virðingu, umhyggju og efla sjálfstæði þeirra.

Náms- og starfsráðgjafar liðsinna kennurum vegna námsvanda einstakra nemenda, eru þeim til aðstoðar við skipulagningu og umsjón með nemendahópum og eiga samstarf við annað starfsfólk skóla og foreldra.

Mikilvægt er að skólar vinni að því að efla náms- og starfsvitund nemenda, námstækni og námsaðferðir, þekkingu á næsta skólastigi og námsframboði, sjálfsvitund og sjálfsþekkingu nemenda.

Auka þarf vægi náms- og starfsfræðslu í grunnskólum og framhaldsskólum og gera að skylduviðfangsefni í menntun nemenda til að auðvelda þeim að taka meðvitaðar ákvarðanir um náms- og starfsval.

Tryggt skal að hver skóli hafi aðgang að náms- og starfsráðgjafa með tilskilda menntun samkvæmt lögum og að farið sé að lögum um náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum.

Koma þarf á heildstæðri náms- og starfsráðgjafaáætlun fyrir skóla þar sem 300 nemendur eða færri eru að baki hverju stöðugildi. Náms- og starfsráðgjöfum skulu tryggðar góðar starfsaðstæður í skólum til að veita nemendum leiðsögn í persónulegum málum sem snerta námið, náms- og starfsval og skólann.

 

3.  SKÓLASTJÓRNENDUR

Skólastjórnendur hafa faglega forystu um mótun og uppbyggingu skólastarfs í skólakerfinu. Það er veigamesta verkefni þeirra sem þeir vinna að í nánu samstarfi við allt samstarfsfólk. Þeir stuðla að jákvæðum samskiptum og trausti í starfsmannahópnum, virkja mannauðinn og tryggja starfsþróun starfsfólks.

Skólastjórnendur vinna að því að samhæfa störf kennara og annars starfsfólks, byggja upp skólabrag þar sem farsæld og vellíðan allra í skólanum er í fyrirrúmi. Skólastjórnendur tryggja að boðleiðir séu skýrar, upplýsingar um starfsemi skólans og fjárhagsstöðu séu aðgengilegar og lýðræðisleg vinnubrögð höfð að leiðarljósi.

Skólastofnanir og skólastjórnendur skulu hafa faglegt svigrúm, rekstrarlegt sjálfstæði og skýra ábyrgð. Tryggja þarf stjórnendum góðar starfsaðstæður til að sinna stjórnun og skipulagi skólastarfs.

Stjórnun skóla skal vera í höndum skólastjórnenda með kennsluréttindi og framhaldsmenntun á sviði stjórnunar og eða kennslureynslu.

 

Skólastarf er fjölbreytilegt og síbreytilegt sem gerir kröfu um heildstæða menntun kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda alla starfsævina (2). Menntun alla starfsævina felur í sér mismunandi þætti, stig og leiðir á grundvelli sérhæfingar, áhugasviða og fjölbreytilegra viðfangsefna í skólastarfi sem byggir á fjórum grunnstoðum og góðri samfellu milli þeirra:

 • Rannsóknartengd menntun til meistaraprófs,
 • nám og þjálfun nema á starfsvettvangi,
 • leiðsögn nýliða og stuðningur við annað fagfólk í skólum,
 • stöðug og fjölþætt menntun og starfsþróun alla starfsævina sem leggur grunn að öflugu lærdómssamfélagi í skólastarfi.
   

Stöðug og fjölþætt menntun og starfsþróun kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda er forsenda skólaþróunar og þróunar menntakerfisins.

 

1.  RANNSÓKNARTENGD MENNTUN TIL MEISTARAPRÓFS

Í námi verðandi kennara og náms- og starfsráðgjafa er lagður grunnur að menntun og starfskenningu sem þeir halda áfram að móta alla starfsævina.

Skipulag kennaranáms þarf að fela í sér gott jafnvægi milli sérhæfingar í faggreinum, námssviðum og uppeldis- og kennslufræði sem tekur til þekkingar á skólastarfi, kennslu, náms og þjálfunar á vettvangi með mismunandi áherslum eftir skólastigum.

Auka þarf samfellu milli skólastiga og bjóða upp á kennaramenntun sem veitir kennsluréttindi á samliggjandi skólastigum. Skilgreina þarf heimild til kennslu á samliggjandi skólastigum í lögum og reglugerð um kennaramenntun.

Brýnt er að í menntun allra verðandi kennara sé lögð áhersla á nám, kennslu og starfshætti samkvæmt stefnu um skóla og menntun fyrir alla nemendur, nám og kennslu tvítyngdra nemenda, grunnþætti menntunar, notkun upplýsingatækni í námi og kennslu og siðareglur kennara.

Í námi náms- og starfsráðgjafa er mikilvægt að nemendur fái öfluga starfsþjálfun á vettvangi, bæði innan skólakerfisins og utan. Nemendur eiga að fá öfluga leiðsögn sem er í takt við nýjustu rannsóknir í fræðum náms- og starfsráðgjafar, íslenskan veruleika, upplýsingatækni og siðareglur.

Vinna þarf að því að sérkennarar á öllum skólastigum fái lögverndun á starfsheitinu sérkennslufræðingur. Hlutverk sérkennara hefur tekið miklum breytingum á liðnum árum í skóla fyrir alla nemendur. Sérkennarar eru sérmenntaðir fagaðilar sem veita ráðgjöf um sérkennslu, skipulag námsumhverfis og skólastarfs.

Vinna þarf að lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum félagsmanna KÍ í tónlistarskólum í samræmi við lög um menntun og ráðningu félagsmanna í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum.

KÍ leggur mikla áherslu á samstarf við stjórnvöld, háskóla og aðra aðila um aðferðir við að auka aðsókn í kennaranám og nýliðun í skólum.

 

2.  NÁM OG ÞJÁLFUN NEMA Á STARFSVETTVANGI

Nám og þjálfun kennaranema og nema í náms- og starfsráðgjöf á vettvangi á að vera veigamikill og lögbundinn hluti menntunar þeirra. Brýnt er að kenna og þjálfa til verka við aðstæður sem verðandi fagstéttir munu starfa við og að vettvangsnám fléttist inn í raunhæfar aðstæður skólastarfsins. Þannig öðlast nemar trausta þekkingu í undirstöðuþáttum starfsins og færni til að beita henni í starfi.

 • Brýnt er að auka vægi vettvangsnáms, skilgreina vettvangsnám í lögum og auka fjárveitingar til þess.
 • Tryggja þarf skólum fjármuni og markvissan stuðning til að hafa með höndum nám og þjálfun nema á vettvangi í samstarfi við háskóla.
 • Nemar skulu hafa góðar aðstæður á vettvangi til náms og þjálfunar.
 • Kennarar og annað fagfólk skal hafa svigrúm í starfi til að sinna leiðsögn nema.
 • Leiðsögn nema verði launuð og tryggja skal kennurum og öðru fagfólki menntun í starfstengdri leiðsögn.
 • Nemar skulu fá markvissa fræðslu um réttindi og skyldur í starfi og siðareglur kennara.
 • Nemar í vettvangsnámi skulu njóta sama stuðnings háskólakennara óháð staðsetningu móttökuskóla.

 

3.  LEIÐSÖGN NÝLIÐA OG STUÐNINGUR VIÐ ANNAÐ FAGFÓLK Í SKÓLUM

Leiðsögn nýliða og stuðningur við annað fagfólk er forgangsverkefni í starfi KÍ og þarf leiðsögn og stuðningur að vera formlegur hluti af heildstæðri menntun og starfsþróun alla starfsævina.

 • Móta þarf í samstarfi við stjórnvöld og háskóla heildstæða stefnu um leiðsögn nýliða. Skilgreina þarf og útfæra stoðkerfi við skóla til að veita nýliðum leiðsögn og tryggja þarf rétt nýliða til leiðsagnar. Leiðsögn á að vera á ábyrgð skólans sem starfsmaður er ráðinn til.
 • Tryggja þarf skólum fjármuni og markvissan stuðning til að skipuleggja leiðsögn nýliða og stuðning við annað fagfólk í samstarfi við háskóla.
 • Nýliðar skulu hafa góðar aðstæður til að njóta leiðsagnar, kennarar og annað fagfólk svigrúm í starfi til að veita leiðsögn.
 • Leiðsögn nýliða verði launuð og tryggja skal kennurum og öðru fagfólki menntun í starfstengdri leiðsögn.
 • Kennarar, náms- og starfsráðgjafar og skólastjórnendur skulu eiga kost á ráðgjöf og handleiðslu í starfi.
 • Nýliðar skulu fá markvissa fræðslu um réttindi og skyldur í starfi og siðareglur kennara.

 

4.  STÖÐUG OG FJÖLÞÆTT MENNTUN OG STARFSÞRÓUN ALLA STARFSÆVINA OG ÖFLUGT LÆRDÓMSSAMFÉLAG Í SKÓLASTARFI

Starfsþróun er samfellt meðvitað og mótað ferli sem hefur öll einkenni lærdómssamfélags og er áhrifamikil leið til umbóta og jákvæðrar þróunar og augljós og samofinn hluti daglegs starfs með nemendum. Hún er skipulögð í kringum raunveruleg viðfangsefni skólastarfsins og einkennist af menningu samfélags í þróun. Starfsþróun felur meðal annars í sér formlega menntun, leiðsögn nýliða í starfi, stuðning við annað fagfólk, ígrundun í starfi og starfendarannsóknir, gagnkvæma jafningjaráðgjöf, þátttöku í nýbreytni- og þróunarstarfi, ráðgjöf, námskeið, ráðstefnur, fræðilestur og skólaheimsóknir. Stefnumiðuð starfsþróun stuðlar að aukinni starfsánægju, hefur áhrif á árangur í starfi og minnkar líkur á kulnun eða brotthvarfi úr starfi (3).

Mikilvægur hluti starfa kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda er að viðhalda stöðugt þekkingu og uppfæra í samræmi við samfélags- og tæknibreytingar, nýjar hugmyndir og áherslur um menntun og skólastarf. Þeir miði eigin starfsþróun við faglega þróun, nýjungar, þarfir starfs síns og starfsemi skóla.

Efniviður og umgjörð starfsþróunar þarf að vera fjölbreytt og í sífelldri þróun í takt við samfélagsbreytingar. Viðhald menntunar og þekkingar þarf að vera í samræmi við hugmyndir um fagmennsku og svara bæði þörfum einstaklinga og skólastarfsins í heild í samfélagi sem tekur stöðugum breytingum.

Kennarar, náms- og starfsráðgjafar og skólastjórnendur taki þátt í stefnumótun um starfsþróun á eigin starfsvettvangi og heildstætt á vettvangi KÍ. Efla þarf umræðu í skólasamfélaginu og á vettvangi KÍ um stöðuga og fjölþætta menntun og starfsþróun alla starfsævina og lærdómssamfélag í skólastarfi.

Byggja þarf upp fjölbreytt og sveigjanlegt stuðningskerfi við starfsþróun kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnendur og skapa þeim góðar og hvetjandi aðstæður og möguleika til að þróa eigið starf, skólastarfið og lærdómssamfélag í skólum.

Jafna þarf aðstæður og möguleika kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda til starfsþróunar eftir skólum, skólastigum, skólagerðum, búsetu, faggrein, námssviði og starfsreynslu, í daglegu starfi, samhliða starfi á starfstíma skóla og utan starfstíma.

Tryggt skal að fagfólk í skólum hafi skilgreindan tíma í starfi til menntunar og starfsþróunar.

Góðar aðstæður og möguleikar þurfa að vera í daglegu starfi til ígrundunar, starfendarannsókna, gagnkvæmrar jafningaráðgjafar og fjölbreytilegs faglegs samstarfs innan og milli skóla, við háskóla og aðra fagaðila utan skólans til að byggja upp lærdómssamfélag í skólastarfi.

Gera þarf starfandi kennurum, náms- og starfsráðgjöfum og skólastjórnendum kleift að afla sér menntunar á launum samhliða starfi til að ljúka meistaraprófi og til að bæta við sig framhaldsnámi og tryggja þarf aðgang að slíku námi á háskólastigi. Réttur til reglubundinna náms- og rannsóknarleyfa verði skýlaus og fjármunir stórauknir til þeirra.

Skólastjórnendur hafi góðar aðstæður í starfi og möguleika til að veita leiðsögn og kennslufræðilega forystu í lærdómssamfélagi skóla og tryggja þarf skólum fjármuni í þessu skyni. Formlegt nám í skólastjórnun, kennslufræðilegri forystu og starfstengdri leiðsögn skal ávallt vera aðgengilegt fyrir verðandi og starfandi skólastjórnendur.

Markviss stuðningur við starfsþróun þarf að vera frá starfsumhverfinu. Meta þarf menntun, starfsþróun og reynslu til launa og framgangs í starfi með skipulegum hætti í kjarasamningum aðildarfélaga KÍ með hliðsjón af stefnu um menntun og starfsþróun alla starfsævina.

Regluleg starfsþróunarsamtöl eiga að fara fram í skólum. Koma þarf á og efla markvissa notkun starfsþróunaráætlana í skólum í samstarfi þeirra sem málið varðar þar sem tekið er tillit til mismunandi þarfa kennara og skóla. Lögð verði áhersla á stöðugan stuðning og endurgjöf í starfi og tryggja þarf skólum faglega ráðgjöf og fjármuni við að móta endurgjöf sem lið í starfsþróun.

Byggja þarf upp markvissa kennslufræðilega ráðgjöf við kennara og skóla. Skólar hafi góðan aðgang að faglegri ráðgjöf og leiðsögn við innra mat til að þróa skólastarf. Markviss stuðningur við skóla þarf að vera fyrir hendi og fjármunir til að fylgja eftir niðurstöðum innra og ytra mats í umbóta- og þróunarstarfi.

Leggja skal mikla áherslu á fjölbreytta þátttöku háskóla í menntun og starfsþróun fagfólks í skólum og efla tengsl háskóla og starfsvettvangs.

Brýnt er að auka rannsóknir á menntun og skólastarfi, ýta undir og liðka fyrir þátttöku kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda í menntarannsóknum. Rannsóknir á menntun og skólastarfi ættu annars vegar að snúa að daglegu starfi fagstétta í skólum og hins vegar að breytilegu hlutverki menntunar og að nýjum viðfangsefnum, áherslum og starfsaðferðum. Efla þarf möguleika og auka svigrúm félagsmanna KÍ til að stunda rannsóknir samhliða störfum sínum í skólunum. Stjórnvöld þurfa að efla menntarannsóknir, veita auknum fjármunum til þeirra og auka þátttöku Íslands í alþjóðlegum rannsóknum.

KÍ þarf að koma á samstarfi við háskóla og aðra viðeigandi aðila um að kynna og miðla með skipulegum hætti rannsóknum á skólastarfi og þróunarstarfi í skólum til að efla og þróa starfshætti og lærdómssamfélag. Jafnframt þarf að hvetja til og stuðla að auknu samstarfi háskóla og fagfólks í skólum um rannsóknir.

Það er í verkahring stjórnvalda að tryggja og auka fjárveitingar til starfsþróunar kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda og skapa aðstæður og möguleika til menntunar og starfsþróunar í daglegu starfi, samhliða starfi á starfstíma skóla og utan hans.

Stjórnvöld þurfa að tryggja skólum skilgreinda fjármuni til að hafa með höndum starfsþróun á vinnustað. Einnig til að greiða fyrir afleysingar vegna fjarveru fagfólks til að sinna starfsþróun í daglegu starfi og samhliða starfi á starfstíma skóla.

Markviss stuðningur þarf að vera við starf samstarfsráðs um starfsþróun kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda við að útfæra og innleiða stefnu um heildstæða menntun og starfsþróun alla starfsævina og fjölbreytt og sveigjanlegt stuðningskerfi við fagfólk og skóla.

 

Skólinn er fyrir alla nemendur og allir eiga rétt á góðri menntun við hæfi hvers og eins óháð efnahag, aðstæðum og uppruna. Stjórnvöldum er skylt að tryggja góða menntun og skóla í grennd við heimili, aðstöðu og stuðning, nemendum og foreldrum að kostnaðarlausu frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla og í tónlistarskólum. Stjórnvöld skulu tryggja skólum fjárveitingar til að skipuleggja skólastarf í samræmi við stefnu um skóla og menntun fyrir alla nemendur.

Leikskólinn er fyrsta skólastigið í menntun barna. Skilgreina þarf í lögum og tryggja rétt barna til leikskóla. Auka þarf rými fyrir hvert barn með tilliti til samsetningar barnahópsins, dvalartíma þeirra dag hvern, aldurs þeirra og þarfa.

Endurskoða þarf fyrirliggjandi frumvarp til nýrra laga um tónlistarskóla og aðalnámskrá og tryggja tónlistarskólum faglega og rekstrarlega umgjörð.

Meginmarkmið skólastarfs er að stuðla að menntun, velferð, vellíðan og þroska allra nemenda, efla sjálfstraust, jákvæða sjálfsmynd og fjölþætta lífsleikni í samræmi við stefnu um skóla og menntun fyrir alla. Námið er skipulagt með hagsmuni nemenda og menntun þeirra í huga og einkennist af jafnrétti, lýðræðislegum vinnubrögðum og gagnrýninni hugsun.

Allir nemendur eiga rétt á kennurum með tilskilda kennaramenntun á öllum skólastigum og skólagerðum.

Nemendur eiga rétt á sveigjanlegu og skapandi námsumhverfi og skólastarfi þar sem lögð er áhersla á nám og kennslu við hæfi hvers og eins með fjölbreyttum kennsluaðferðum, viðfangsefnum og námsgögnum.

Góð samfella á að vera milli skólastiga og skólagerða og námsframvinda að taka mið af þörfum hvers og eins. Ákvarðanir um námstíma nemenda skulu fyrst og fremst ráðast af faglegum sjónarmiðum en ekki rekstrarlegum eða efnahagslegum og fullt samráð skal haft við kennara og skólastjórnendur.

Tryggja skal jafnvægi milli bóknáms, listnáms og verknáms í menntun nemenda. Brýnt er að efla og auka vægi listnáms og verknáms í menntun nemenda og sköpun sem virkan grunnþátt í öllu skólastarfi. Tryggt þarf að vera að farið sé eftir viðmiðum námskrár um menntun nemenda.

Stærð nemendahópa skal ávallt miðast við að hver einstaklingur fái notið sín í námi og kennslu. Allir nemendur hafi menntaða umsjónarkennara/deildarstjóra í leikskóla sem fylgjast með námi þeirra og þroska.

Tryggja þarf að stjórnvöld standi við skuldbindingar um rétt nemenda með annað móðurmál en íslensku til menntunar og farsældar samkvæmt alþjóðasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist. Stórefla þarf stuðning við nemendur með annað móðurmál en íslensku á öllum skólastigum.

Nemendur taka aukna ábyrgð á eigin námi eftir því sem líður á skólagöngu. Þeir hafi tillögu- og umsagnarrétt um námsskipulag, námsefni, kennslutilhögun og önnur mál sem varða hagsmuni þeirra.

Starf sérkennara og náms- og starfsráðgjafa er mikilvægur þáttur í skólastarfinu. Tryggja skal að allir nemendur hafi aðgang að menntuðum sérkennurum og að stjórnvöld uppfylli lagaskyldur við nemendur um rétt til náms- og starfsráðgjafar hjá fagaðilum sem uppfylla lög um náms- og starfsráðgjafa. Auka þarf vægi náms- og starfsfræðslu í skólum og gera að skylduviðfangsefni í menntun nemenda.

Tryggja þarf jafnt aðgengi nemenda að tækjakosti og tæknibúnaði í skólum og gera nemendum kleift að nýta tækni í námi og þróa þekkingu sína. Stórauka þarf framboð á fjölbreyttu og vönduðu náms- og kennsluefni á íslensku í samræmi við markmið laga um menntun við hæfi, þarfir nemenda, kennslugreina, námssviða og skóla. Afnema þarf virðisaukaskatt á bækur og auka fjárframlög til skólabókasafna.

Nemendum skal standa til boða hollt fæði í skólanum í samræmi við opinber markmið um heilsueflandi skóla. Tryggja þarf að stoðþjónusta við nemendur sé fyrir hendi í skólum og að nemendur hafi aðgang að fjölbreyttri félags- og heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum og reglum um skólastarf.

Námsmat þarf fyrst og fremst að vera leiðbeinandi og jafnframt markvisst og fjölbreytt. Það taki til þroska og framfara nemenda og sé í tengslum við markmið námskrár. Námsmat veiti nemendum og forráðamönnum upplýsingar um stöðu í námi og framvindu og tryggja skal lýðræðislega þátttöku nemenda í matinu í samræmi við aldur og þroska.

 

Fag- og kennslugreinafélög gegna þýðingarmiklu hlutverki í þróun faglegs starfs í skólum landsins og fyrir starfsþróun kennara og annarra faghópa. Mikilvægt er að treysta starfsemi þeirra enn frekar.

Kennarasambandið leggur áherslu á að rækta tengsl við félögin, halda fundi með þeim eftir þörfum, veita þeim stuðning við að halda uppi mikilvægu starfi og að nýta sér sérfræðiþekkingu þeirra.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið tryggi þeim fjármuni til að halda uppi sjálfstæðri starfsemi og hafi þau með í ráðum um að móta og þróa faglegt starf í skólum.

 

1.  UMGJÖRÐ SKÓLASTARFS

Lög og reglugerðir um skólastarf innihaldi skýr viðmið um skyldur stjórnvalda, réttindi og skyldur nemenda og foreldra þeirra, starfsfólks skóla og um starfsaðstæður í skólum.

Skólar hafi tryggar fjárveitingar til að skipuleggja skólastarf í samræmi við stefnu um skóla og menntun fyrir alla nemendur og til að útfæra námskrár og áherslur í innra starfi. Samningar og samskipti milli skóla og stjórnvalda skulu einkennast af virðingu og jafnræði og treysta faglegt samstarf þeirra og sjálfstæði skóla.

Stjórnvöld tryggi að allir skólar í landinu búi við jafnræði hvað varðar faglegan og fjárhagslegan stuðning.

Kennarar, náms- og starfsráðgjafar, skólastjórnendur og KÍ taki virkan þátt í þróun laga og námskráa og í mótun menntastefnu og ákvörðunum um skólastarf. Tryggt verði að sem flestir kennarar geti átt aðild að þessari þróunarvinnu.

 

2.  HLUTVERK OG INNRA STARF

Skólinn er mennta- og uppeldisstofnun og vinnustaður nemenda, kennara, náms- og starfsráðgjafa, skólastjórnenda og annars starfsfólks. Skólinn skal rækta íslenskan menningararf, standa vörð um íslenska tungu og bera virðingu fyrir mismunandi menningarhópum. Menntun gegnir lykilhlutverki í að tryggja jöfnuð og jöfn tækifæri í samfélaginu.

Skólar skulu hafa mannréttindi, jöfnuð og jafnrétti að leiðarljósi við alla stefnumótun og áætlanagerð í skólastarfi og setja sér stefnu í jafnréttismálum í samvinnu við kennara og annað starfsfólk. Jafnrétti í skólastarfi og á vinnustað er grundvallarréttur nemenda og starfsfólks skóla.

Skólinn gegnir mikilvægu hlutverki í farsælli aðlögun nemenda með annað móðurmál en íslensku að samfélaginu og þarf skólinn að hafa sem bestar aðstæður til að sinna þessu brýna verkefni. Veita þarf kennurum og skólum stuðning og ráðgjöf og tryggja þarf samræmi í móttöku og stuðningi við nemendur í skólum og sveitarfélögum. Kennarar og skólar þurfa að hafa tryggan aðgang að fjölbreyttum gagnagrunni og ráðgjöf um móttöku og stuðning við nemendur, skipulag náms og kennslu og samstarf við foreldra.

Skólar leggi áherslu á að ráða til sín kennara með tilskilda menntun og annað fagfólk. Unnið skal eftir þeirri meginreglu að fela kennslu, náms- og starfsráðgjöf og stjórnun ávallt þeim sem hafa menntun og reynslu til að gegna störfunum.

Skólar skulu hafa faglegt sjálfstæði til að móta eigin námskrár og áherslur í innra starfi og að hefðir og sérkenni fái að njóta sín. Skólar birti skýra stefnu um markmið sín og framkvæmd skólastarfs í hverjum skóla. Þeir marki sér stefnu um forvarnir og velferð nemenda í samræmi við opinbera stefnu um heilsueflandi skóla, lög og reglur um skólastarf.

Skólastjórnendur, kennarar og náms- og starfsráðgjafar skipuleggi skólastarfið í góðu samráði við nemendur, foreldra og annað starfsfólk. Kennarar og annað fagfólk taki fullan þátt í ákvörðunum um nám, námsskipulag og stefnumótun um innra starf.

Tryggja þarf tíma og fjármuni til að sinna samstarfi sérfræðinga innan skólans, milli skóla, skólastiga og skólagerða, við stoðþjónustu og sérfræðinga utan skólans um menntun og farsæld nemenda.

 

3.  VINNUUMHVERFI OG STARFSAÐSTÆÐUR

Öflugt starf á sviði vinnuumhverfismála, aðgerðir gegn einelti og öðru ofbeldi, forvarnarstarf og allt sem snýr að því að búa nemendum og starfsfólki aðlaðandi og þroskandi umhverfi er mikilvægur þáttur í starfsemi skóla og Kennarasambands Íslands. Leggja skal áherslu á jákvæðan skólabrag þar sem farsæld nemenda og starfsfólks er í fyrirrúmi.

Húsnæði og vinnuaðstaða skal vera fullnægjandi og í samræmi við lög og reglur um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og þarfir allra sem í skólanum starfa. Skipulag skólastarfs stuðli að góðu starfsumhverfi nemenda og starfsfólks.

Skólahúsnæði skal hannað með fjölbreyttar þarfir, náms- og kennsluhætti í huga. Tekið skal mið af auknum kröfum um sérhæfðan undirbúning, samráð kennara og samtöl við foreldra og sérfræðinga. Starfsfólk skóla skal koma að hönnun húsnæðis og útisvæða og tekið skal tillit til tillagna og umsagna þess.

Efla þarf tækjakost og tæknibúnað í skólum og bregðast þannig við nútímakröfum sem gerðar eru til menntunar og skólastarfs. Tryggja þarf skólum fjármagn til kaupa á kennslu- og námsgögnum og viðeigandi tækja- og tæknibúnaði. Kennarar skulu hafa greiðan aðgang að góðum tækjakosti og tæknibúnaði og aðstæður til að þróa kennsluhætti og skólastarf í samræmi við samfélags- og tæknibreytingar, nýjar hugmyndir og áherslur um menntun og skólastarf.

 

4.  MAT Á SKÓLASTARFI

Ytra mat á skólastarfi er lögbundinn þáttur í starfsemi skóla sem stjórnvöldum ber að sinna markvisst og af sanngirni. Mat þarf að skapa tækifæri til að greina það sem vel gengur og festa það í sessi en breyta og lagfæra það sem ábótavant er. Þess verður að gæta að margvísleg greiningarvinna leiði til umbóta fyrir þá nemendur sem eiga í hlut. Stjórnvöld skulu hafa samstarf við skóla, kennara og annað starfsfólk um framkvæmd ytra mats og notkun niðurstaðna.

Innra mat/sjálfsmat fjallar um námið og tilhögun þess, námsframboð, náms- og kennsluaðferðir, námsmat, námsgengi og líðan nemenda. Niðurstöður eru nýttar til að halda á lofti og styrkja það sem vel gengur og bæta það sem áfátt er talið. Hver skóli mótar sínar sjálfsmatsaðferðir í samræmi við lög.

Sjálfsmat er viðurkenndur grunnur aðferða við mat á skólastarfi. Mat á kennslu og endurgjöf til kennara þarf að byggjast á trausti og virkri þátttöku þeirra. Niðurstöður þarf að nýta til að greina þarfir kennara fyrir starfsþróun og að veita þeim stuðning við að þróa kennsluaðferðir og starfshætti.

Jafningjamat meðal kennara og annarra fagmanna verði virkur þáttur í þróun skólastarfs og hluti af sjálfsmati skóla.

Tryggja skal skólum stuðning og fjárveitingar til að vinna að umbótum á grundvelli niðurstaðna úr sjálfsmati, ytra mati og fjölþættum mælingum sem skólunum eru lagðar til eða þeir afla sér.

 

Skóli og heimili hafi virk tengsl og beri sameiginlega ábyrgð á menntun og velferð nemenda. Milli skóla og heimila ríki gagnkvæm virðing, traust, jafnræði og trúnaður.

Við upphaf skólagöngu á hverju skólastigi og í tónlistarskólum skal lagður grunnur að samstarfi við foreldra/forráðamenn. Gagnkvæm upplýsingamiðlun á að vera milli skóla og heimila til að tryggja eðlilega samfellu í námi og skýr verkaskipting að vera milli þeirra.

Skóli styður og hvetur foreldra/forráðamenn til þátttöku í skólastarfi. Þátttaka foreldra/forráðamanna er mikilvægur stuðningur við menntun og velferð barna þeirra og við skólastarfið í heild.

 

 

1.  Skilgreining á faglegri forystu skólafólks er byggð á rannsóknum D. Frost um faglega forystu kennara og skólastjórnenda http://www.educ.cam.ac.uk/centres/lfl/projects/teacherleadership/. Sjá einnig fyrirlestur hans um þetta efni á skólamálaþingi KÍ október 2016 http://ki.is/skolamal/starfid/radstefnur-og-fundir.

2.  Skilgreining á heildstæðri menntun og starfsþróun alla starfsævina er byggð á niðurstöðum fagráðs um starfsþróun kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda sem afhentar voru mennta- og menningarmálaráðherra í mars 2016. Samstarfsráð um starfsþróun kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda var skipað með erindisbréfi ráðherra haustið 2016 og er hlutverk þess að útfæra niðurstöður fagráðs um menntun og starfsþróun alla starfsævina og fjölbreytt og aðgengilegt stoðkerfi við fagstéttir, skóla og háskóla. http://starfsthrounkennara.is/ahugavert-efni-um-starfsthroun/skyrslur-um-starfsthroun/.

3.  Skilgreining á starfsþróun er byggð á niðurstöðum fagráðs um starfsþróun kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda sem afhentar voru mennta- og menningarmálaráðherra í mars 2016. Samstarfsráð um starfsþróun kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda var skipað með erindisbréfi ráðherra haustið 2016 og er hlutverk þess að útfæra niðurstöður fagráðs um menntun og starfsþróun alla starfsævina og fjölbreytt og aðgengilegt stoðkerfi við fagstéttir, skóla og háskóla. http://starfsthrounkennara.is/ahugavert-efni-um-starfsthroun/skyrslur-um-starfsthroun/.

 

 

ÍTAREFNI

ítarefni: