is / en / dk


Sjöunda þing KÍ haldið 10. - 13. apríl 2018 samþykkir eftirfarandi stefnu í fræðslumálum:

Markmið með sameiginlegri fræðslu á vegum KÍ er að efla samstarf og tengsl milli félagsmanna og aðildarfélaga KÍ, virkni í félagsstarfi, þátttöku í og ábyrgð á framkvæmd stefnumála og stéttarvitund.

Fræðslustarfsemi á vegum KÍ skal einkum vera eftirfarandi:

  1. Árleg trúnaðarmannafræðsla um störf trúnaðarmanna, hlutverk þeirra, réttindi og skyldur og helstu hagsmunamál stéttarinnar ásamt öðru sem efst er á baugi hverju sinni. Aðildarfélög KÍ sjá samt sem áður um fræðslu um kjarasamninga hvers félags og innra starf.
  2. Forystufræðsla fyrir þá sem kjörnir eru til trúnaðarstarfa á vegum KÍ og aðildarfélaga til að styðja fólk í störfum sínum fyrir kennarasamtökin.
  3. Fræðslu/umræðufundir fyrir félagsmenn um helstu kjara- og réttindamál, skóla- og menntamál og aðra málaflokka sem efstir eru á baugi hverju sinni.
  4. Fræðsla fyrir kennaranema og nýliða um starf KÍ, réttindi og skyldur og siðareglur kennara.
  5. Fræðsla fyrir leiðsagnakennara nýliða varðandi framgang, fagmennsku og líðan í starfi kennara.
     

Við skipulagningu fræðslunnar skal þess gætt að tekið sé tillit til mismunandi aðstæðna félagsmanna eins og kostur er. Þar er meðal annars átt við mismunandi vinnutíma og fjarlægðir til að sækja fundi. Nýta skal möguleika til að streyma fundum, kanna möguleika á vefnámskeiðum og gæta þess að efni sé aðgengilegt á vefsvæði eins og við á hverju sinni.

Enn fremur eru KÍ og aðildarfélögin hvött til að skipuleggja eins og kostur er ráðstefnur, málþing, fundi og námskeið um ýmis mál sem geta verið á dagskrá samtímis og/eða eru sameiginleg og varða alla félagsmenn óháð því hvar þeir starfa.

Fræðslunefnd skal í samráði við upplýsinga- og kynningarsvið KÍ skoða þörf og möguleika á að gefa út upplýsingabæklinga og kynningarefni (í riti og/eða á neti) um einstaka málaflokka sem koma kennaranemum, félagsmönnum, trúnaðarmönnum og öðru forystufólki að gagni.

 

 

ÍTAREFNI

Tengt efni