is / en / dk


Stefna KÍ í innra starfi og félagsmálum 2018-2022 samþykkt á 7. þingi 2018.

Sjöunda þing KÍ haldið 10. - 13. apríl 2018 leggur áherslu á að styðja þarf vel við starf nefnda og ráða á vettvangi KÍ sem vinna að fræðslumálum, jafnréttis- og vinnuumhverfismálum og siðareglum kennara. Viðfangsefnin á þessum sviðum hafa mikla þýðingu fyrir félagsfólk og því brýnt að stjórn KÍ og stjórnir aðildarfélaga KÍ sinni þeim af krafti.

Upplýsingar VIRK sýna að kennarar koma áberandi meira í starfsendurhæfingu en aðrar háskólamenntaðar stéttir vegna veikinda sem rekja má til álags í starfi. Könnun vinnuumhverfis-nefndar á einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi meðal félaga KÍ árið 2017 sýnir meðal annars að 12,5 prósent þeirra hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi á vinnustað, ríflega 10 prósent hafa orðið fyrir einelti og 3,3 prósent fyrir kynbundinni áreitni. #Metoo byltingin í menntakerfinu sýnir að þar viðgengst kynferðisofbeldi, kynferðisáreitni og mismunun í skjóli þagnar.

Bregðast þarf við þessari alvarlegu stöðu og efla enn frekar starf að jafnréttis- og vinnuumhverfis-málum, siðareglum kennara og fræðslu á þessum sviðum fyrir félagsfólk og vinnustaði.

Einelti, áreitni og ofbeldi líðst ekki. Koma skal fram við allt starfsfólk skóla af virðingu og gera þarf sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að einstaklingar verði fyrir kynbundinni eða kynferðislegri áreitni, kynbundnu ofbeldi eða einelti.

Skólar gæti mannréttinda, jafnaðar og kynjasamþættingar við alla stefnumótun og áætlanagerð í skólastarfi og setji sér stefnu í jafnréttismálum í samvinnu við kennara og annað starfsfólk. Jafnrétti á vinnustað er grundvallarréttur allra.

Skólar vinni að því að bæta vinnuumhverfi starfsfólks, efla starfsöryggi, sporna gegn kulnun í starfi, veikindum og ótímabæru brotthvarfi úr starfi.

Efla þarf umræðu félagsmanna um siðareglur kennara. Þær eru mikilvæg lyftistöng fyrir fagmennsku og styrkja faglega sjálfsmynd kennara. Kennarar eiga að hafa siðareglur að leiðarljósi í starfi sínu.

Þingið hvetur stjórn KÍ og stjórnir aðildarfélaga KÍ að taka höndum saman um að efla fræðslu og vinna að umbótum á starfsumhverfi félagsmanna í samstarfi við nefndir og ráð KÍ.

Samtakamáttur og kröftugt starf er forsenda þess að ná árangri á þessum mikilvægu sviðum.

 

 

ÍTAREFNI

Tengt efni