is / en / dk


Stefna um samstarf við kennaranemafélög 2018-2022 samþykkt á 7. þingi 2018 (Samþykkt um ungliðastarf KÍ 2018-2022).

Sjöunda þing KÍ haldið 10. - 13. apríl 2018 beinir því til stjórnar KÍ að efla ungliðastarf í samstarfi við skólamálaráð, fræðslunefnd og aðra viðeigandi aðila á vettvangi KÍ. Á ársfundum KÍ verði gerð grein fyrir framgangi starfsins, verkfærum og áætlunum.

Þingið bendir á að ungliðastarf snýst um framtíðina og unga fólkið, verðandi kennara og unga kennara í starfi.

Árið 2015 samþykkti heimsþing Alþjóðasamtaka kennara stefnu um stuðning við nýliða og aukna þátttöku þeirra í félagsstarfi á vettvangi alþjóðasamtakanna og aðildarfélaga þeirra. Löng hefð er fyrir tengslum og starfi kennarafélaga á hinum Norðurlöndunum með kennaranemum að sameiginlegum hagsmunamálum og að því að veita ungum kennurum stuðning og auka virkni þeirra í starfi félaganna.

Þingið telur það vera ótvíræða hagsmuni KÍ til framtíðar að treysta sem best tengsl og samstarf við kennaranema um sameiginleg hagsmunamál sem varða kennaranámið og kennarastarfið, veita nemum tækifæri til að kynnast starfi KÍ og bjóða þeim upp á fræðslu, styðja við unga kennara til sporna gegn brotthvarfi úr starfi og efla þátttöku þeirra í félagsstarfi á vettvangi KÍ.

Þingið minnir á að starfsaðstæður ungra kennara eru flóknari en þeirra sem lengri reynslu hafa. Þarfir og aðstæður ungra kennara þurfa að vera ofarlega í starfi KÍ til að styrkja kennarastarfið og gera það eftirsóknarvert.

KÍ veiti ungum kennurum stuðning og efli þátttöku þeirra í félagsstarfi með því að skipuleggja fræðslu fyrir unga kennara og vettvang til að hittast, deila reynslu og mynda tengsl bæði innan aðildarfélaga og þvert á aðildarfélög.

KÍ vinni að því í samstarfi við stjórnvöld að tryggja ungum kennurum stuðning í starfi fyrstu árin með formlegri leiðsögn, handleiðslu og markvissri starfsþróun til að vinna gegn brotthvarfi úr starfi.

 

TENGSL OG SAMSTARF KÍ OG KENNARANEMA

Kennarasamband Íslands og stjórnir félaga kennaranema við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands hafa með sér formlegan samstarfsvettvang um málefni sem varða kennaramenntun og kennarastarfið og efla gagnkvæm tengsl og upplýsingamiðlun samkvæmt samstarfsyfirlýsinu sem gengið var frá í desember 2017.

  • Tengiliður KÍ í þessu samstarfi er varaformaður KÍ, Anna María Gunnarsdóttir, anna@ki.is.
  • Tengiliður Kennó, félags kennaranema í Háskóla Íslands er Jóna Þórdís Eggertsdóttir,  jthe4@hi.is.
  • Tengiliður Magister, félags kennaranema í Háskólanum á Akureyri er Sólveig María Árnadóttir, solveig@fsha.is.

Hér er hægt að kynna sér samstarfsyfirlýsingu KÍ og félaga kennaranema.

 

 

ÍTAREFNI

Tengt efni