is / en / dk

 

Rétt til aðildar að Kennarasambandinu eiga allir sem starfa við kennslu, stjórnun eða ráðgjöf í skólum eða vinna við stofnanir og fyrirtæki sem sinna eða tengjast kennslu og fræðslumálum.

Enn fremur kennarar á eftirlaunum, kennarar á atvinnuleysisbótum, kennarar í fæðingarorlofi og starfsmenn Kennarasambandsins. 

Um rétt til félagsaðildar er fjallað í þriðju grein laga Kennarasambandsins. Þar segir:

Rétt til aðildar að KÍ eiga allir sem starfa við kennslu, stjórnun eða ráðgjöf í skólum eða vinna við stofnanir og fyrirtæki sem sinna eða tengjast kennslu og fræðslumálum að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

  1. KÍ semji fyrir viðkomandi skv. lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinbera starfsmanna, lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur eða samkomulagi við viðkomandi launagreiðanda,
  2. starfshlutfall þeirra sé að lágmarki 25%.

Félagsaðild kemur fram í ráðningarsamningi og/eða með skilum félagsgjalda til KÍ. Stjórn KÍ skal í samráði við viðkomandi starfsmann sambandsins ákveða félagsaðild hans að aðildarfélagi.

Ennfremur eiga rétt til aðildar að KÍ:

  • Kennarar á eftirlaunum
  • Kennarar á atvinnuleysisbótum sem greiða félagsgjald
  • Kennarar í fæðingarorlofi sem greiða félagsgjald
  • Starfsmenn Kennarasambands Íslands

Til þess að uppfylla ákvæði reglna um félagsaðild í launalausu leyfi þarf félagsmaður að senda eftirfarandi staðfestar upplýsingar:

  • Hvenær launalausa leyfið hófst en að jafnaði þarf að sækja um til KÍ innan þriggja mánaðar frá því að leyfið hófst.
  • Staðfestingu frá vinnuveitanda um leyfi, leyfistíma og ástæðu fyrir leyfisveitingu. Þetta þarf að vera á bréfsefni skólans.
  • Staðfestingu frá skóla um formlegt nám þar sem fram kemur námstími og einingafjöldi ef um launalaust leyfi vegna náms er að ræða.

Sótt er um með tölvupósti á ki@ki.is eða með bréfi þar sem fram kemur nafn, kennitala og ástæða fyrir leyfi. Fylgiskjölin má senda í tölvupósti.

Stjórn KÍ afgreiðir umsóknir einu sinni í mánuði á reglulegum stjórnarfundum og fær umsækjandi svar um leið og ákvörðun stjórnar liggur fyrir.

Félagsaðild tekur gildi þegar stjórn KÍ hefur samþykkt umsókn og félagsgjald sem nú er 12.000 kr. eingreiðsla fyrir árið berst. Félagsmaður ber sjálfur ábyrgð á greiðslu félagsgjalds. Félagsaðild fellur niður um leið og félagsgjöld hætta að berast.

 

Tengt efni